Styrkt Kammersveit Reykjavíkur.
Styrkt Kammersveit Reykjavíkur.
96 verkefni hljóta styrk úr borgarsjóði á sviði menningarmála árið 2025, en úthlutun styrkjanna var kynnt í gær. Hæstan styrk, 2,5 milljónir króna, hlýtur Kammersveit Reykjavíkur en „sveitin fagnar 50 ára starfsafmæli á árinu og hyggur á…

96 verkefni hljóta styrk úr borgarsjóði á sviði menningarmála árið 2025, en úthlutun styrkjanna var kynnt í gær. Hæstan styrk, 2,5 milljónir króna, hlýtur Kammersveit Reykjavíkur en „sveitin fagnar 50 ára starfsafmæli á árinu og hyggur á fjölbreytt og viðamikið tónleikahald af því tilefni“, eins og segir í tilkynningu.

Samtímis var upplýst að Listhópur Reykjavíkur 2025 er Open, listamannarekið sýningarrými sem „hefur verið hreyfiafl í íslensku myndlistarsenunni frá því að það opnaði dyr sínar á Grandanum fyrir nokkrum árum“, eins og segir í tilkynningu. Nafnbótinni fylgir 2,5 milljóna króna styrkur í ár.

„Alls bárust 225 umsóknir um styrki úr borgarsjóði á sviði menningarmála sl. haust, þar sem sótt var um styrki fyrir tæplega 390 milljónir króna vegna verkefna á árinu 2025. Aldrei hafa fleiri umsóknir borist um styrki á sviði menningarmála úr borgarsjóði, sem endurspeglar hina miklu grósku sem einkennir reykvískt menningarlíf.

Ráðstöfunarfé til úthlutunar styrkja og samstarfssamninga úr borgarsjóði á sviði menningarmála fyrir árið 2025 var samtals 110.600.000 kr. Þar af voru 39 milljónir króna bundnar í þegar gerðum eldri samstarfssamningum, og því hafði faghópurinn 71.600.000 kr. til ráðstöfunar í nýja styrki og til Listhóps Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu frá borginni.

Auk framangreindra styrkja eru nú þegar 14 samstarfssamningar í gildi við t.d. Sequences myndlistarhátíð, Lókal leiklistarhátíð, Myrka músíkdaga, Stórsveit Reykjavíkur, Bókmenntahátíð í Reykjavík og Jazzhátíð Reykjavíkur.