Trygve Slagsvold Vedum, fjármálaráðherra Noregs og formaður norska Miðflokksins, tilkynnti í gær að flokkur hans hefði sagt upp ríkisstjórnarsamstarfinu við Verkamannaflokkinn.
Var þingflokkur Miðflokksins einhuga um þessa niðurstöðu, en stjórnarflokkana hafði greint á um þrjár reglugerðir af átta í fjórða orkupakka Evrópusambandsins, sem Jonas Gahr Støre forsætisráðherra vildi að Noregur tæki upp.
Vedum sagði á blaðamannafundi með Marit Arnstad þingflokksformanni að hann vildi að ríkisstjórnin tæki aftur til sín stjórn orkumála og forðaðist frekari samþættingu við ESB. Sagði Vedum að því kæmi ekki til greina að tengja Noreg við það sem hann kallaði hinn „vanvirka orkumarkað og orkustefnu“ ESB.
Reglugerðirnar þrjár snúa að notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum, orkunýtingu í byggingum og aukinni skilvirkni í orkumálum. Vedum sagði að ef þær þrjár reglugerðir tækju gildi væri fátt sem kæmi í veg fyrir að hinar fimm reglugerðirnar í orkupakkanum yrðu kynntar fyrir Norðmönnum síðar. Þá sagði hann að Miðflokkurinn teldi eðlilegast að Støre yrði áfram forsætisráðherra í minnihlutastjórn Verkamannaflokksins, en kjósa á til þings í september.
Støre sagði á blaðamannafundi sínum að því miður hefðu tillögur sínar til málamiðlana ekki reynst nægilegar fyrir Miðflokkinn til þess að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Tók hann fram að þetta hefði ekki verið sú niðurstaða sem hann hefði óskað sér, en kröfur Miðflokksins hefðu jafngilt neitunarvaldi á allar nýjar orkureglur frá ESB, og gæti það teflt sambandi Noregs og ESB í tvísýnu.