Gatnamót Gagnrýnt er að ekki eigi að flýta framkvæmdum við gerð mislægra gatnamóta á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.
Gatnamót Gagnrýnt er að ekki eigi að flýta framkvæmdum við gerð mislægra gatnamóta á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. — Tölvumynd
Ekki er unnt að bjóða út nýjar framkvæmdir í samgöngum aðrar en þær sem heimilaðar voru í síðustu fimm ára samgönguáætlun, en hún rann sitt skeið um síðustu áramót. Þar með talin er áformuð brú yfir Fossvog, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ekki er unnt að bjóða út nýjar framkvæmdir í samgöngum aðrar en þær sem heimilaðar voru í síðustu fimm ára samgönguáætlun, en hún rann sitt skeið um síðustu áramót. Þar með talin er áformuð brú yfir Fossvog, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Nýframkvæmdir verða að bíða nýrrar samgönguáætlunar, en skv. því sem haft hefur verið eftir samgönguráðherra stendur ekki til að hún verði lögð fram á Alþingi fyrr en í haust. Það er gagnrýnisvert að mati Vilhjálms Árnasonar, alþingismanns og fyrrverandi varaformanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

„Það er ástæða fyrir því lögbundna ferli sem er gert ráð fyrir í samgönguáætlun,“ segir hann.

„Við meðferð næstu samgönguáætlunar þarf einnig að gera ráð fyrir áfangaskiptingu framkvæmda samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og forgangsröðun verkefna, sem tekur á þeim bráðavanda sem er í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Það er alvarlegt að það hafi ekki verið gert í uppfærðum samgöngusáttmála. Sú vinna tók þó 60 vikur í stað sex vikna, eins og áformað var,“ segir Vilhjálmur.

„Þeim tókst að uppfæra sáttmálann án þess að nefna áfangaskiptingu verkefna einu orði,“ segir hann og gagnrýnir að ekki hafi verið sett í forgang að fara strax í minni verkefni sem stuðla myndu að því að draga úr umferðarhnútum á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda væri ekkert fjallað um að koma upp hátækniljósastýringum til að nýta samgönguinnviði höfuðborgarsvæðisins betur.

Vilhjálmur gagnrýnir einnig að ekki hafi verið lagt til að fara í flýtiframkvæmdir við mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.

„Það er allt of langt í að farið verði í að laga þau gatnamót, en það er verkefni sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa verið með á sínu borði síðan 2008. Það skapar kostnaðarsömustu umferðartafir þjóðarinnar. Þetta er verkefni sem þarf að fara í strax. Við getum ekki farið að samþykkja samgönguáætlun og 311 milljarða samgöngusáttmála sem tekur ekki á þessu,“ segir hann.

„Ég tel að Alþingi muni alltaf kalla eftir lausnum á þeim bráðavanda sem tafir í umferðinni eru og áfangaskipta framkvæmdum og þannig taka tillit til þess ástands sem er í umferðinni í dag. Það kostar smáaura í samanburði við heildarverðið á samgöngusáttmálanum,“ segir Vilhjálmur.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson