Læknir Vel er hægt að treysta Dr. House.
Læknir Vel er hægt að treysta Dr. House.
Alveg frá því að ER kom á skjáinn á tíunda áratug síðustu aldar hefur undirrituð verið veik fyrir læknaþáttum. Grey's Anatomy er einnig frábær sería sem vert er að horfa á aftur. Þátturinn Chicago Med, sem hóf göngu sína 2015, er sýndur í Sjónvarpi símans og er dæmi um góðan læknaþátt

Ásdís Ásgeirsdóttir

Alveg frá því að ER kom á skjáinn á tíunda áratug síðustu aldar hefur undirrituð verið veik fyrir læknaþáttum. Grey's Anatomy er einnig frábær sería sem vert er að horfa á aftur.

Þátturinn Chicago Med, sem hóf göngu sína 2015, er sýndur í Sjónvarpi símans og er dæmi um góðan læknaþátt. Hasar er í gangi á bráðadeildinni og að sjálfsögðu kviknar ástin, eða lostinn, milli starfsfólks sem vinnur ötullega að því að bjarga mannslífum. Svo er auðvitað Dr. House á Netflix; hann klikkar alls ekki. House er sjarmerandi persóna, þrátt fyrir að vera óalandi og óferjandi. Hann er fíkill í verkjalyf og bryður Vicodin eins og Smarties. En kostir hans eru að hann er ofurklár og finnur oftast hvað er að hrella sjúklinga sem haldnir eru svo sjaldgæfum sjúkdómum að enginn annar en House og hans teymi getur fundið út hvað er að.

Sjúklingar sem lenda hjá Dr. House eru oftar en ekki með sjálfsofnæmissjúkdóma, krabbamein, eitranir af ýmsu tagi, Wilsons-sjúkdóm, rauða úlfa, mislinga, holdsveiki eða jafnvel býr í þeim stór og langur ormur. Ef eitthvað af þessu hrjáir mann er ekki amalegt að komast undir læknishendur Dr. House. Hann er kannski ruddi, en hann heldur fólki á lífi, svona oftast nær!

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir