Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Ekki er talið að neinn hafi komist lífs af eftir að farþegaþota og herþyrla Bandaríkjahers skullu saman í nágrenni Reagan-flugvallarins í Washington í fyrrakvöld. Lentu bæði flugförin í Potomac-ánni, og var leitað ákaft að eftirlifendum í ánni alla nóttina og fram undir morgun.
John Donnelly, slökkviliðsstjóri í Washington-borg, sagði hins vegar í gærmorgun að björgunaraðgerðum hefði verið hætt, þar sem litlar líkur væru taldar á að neinn hefði lifað slysið af. Var þá búið að finna lík 28 manns úr flugförunum tveimur, þar af voru 27 úr flugvélinni og einn úr þyrlunni. Donnelly sagði að um 300 manns hefðu komið að björgunaraðgerðum, en nú væri farið í að finna og endurheimta lík allra þeirra sem fórust í slysinu.
Alls voru 64 í farþegaþotunni, þar af 60 farþegar og fjórir í áhöfn vélarinnar, en hún var á leiðinni frá Wichita í Kansas-ríki til höfuðborgarinnar. Voru nokkrir farþeganna að snúa heim frá keppni í listskautum, og staðfesti landssamband Bandaríkjanna að bæði keppendur og þjálfarar hefðu verið um borð.
Slysið átti sér stað um níuleytið að staðartíma í Washington, eða um tvöleytið að íslenskum tíma. Lýstu sjónarvottar því sem svo að þyrlan hefði flogið í veg fyrir þotuna þar sem hún var að koma til lendingar og sagði einn þeirra að þotan hefði minnt sig á blys þar sem hún hrapaði til jarðar.
Þrír voru í herþyrlunni, sem var af Blackhawk-gerð, en hún var sögð hafa verið í þjálfunarflugi. Vöknuðu spurningar hvers vegna hún hefði flogið svo nálægt þotunni, en upptökur frá flugturni Reagan-flugvallar sýndu að flugumferðarstjórar spurðu áhöfn þyrlunnar hvort hún tæki eftir flugvélinni um hálfri mínútu fyrir slysið.
Stund sorgar fyrir Bandaríkin
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt blaðamannafund vegna slyssins og sagði hann það marka stund sárrar sorgar fyrir Bandaríkin. „Því miður voru engir eftirlifendur. Þetta var dimm og óbærileg nótt í höfuðborg okkar,“ sagði Trump eftir mínútuþögn til minningar um fórnarlömbin.
Trump ávarpaði aðstandendur og sagði að hjörtu allra Bandaríkjamanna væru brostin vegna slyssins. Þá yrðu aðstandendur í bænum Bandaríkjamanna næstu daga.
Trump hét því að bæði bandaríska flugumferðarstofnunin FAA og rannsóknarnefnd samgönguslysa NTSB myndu rannsaka slysið ofan í kjölinn ásamt Bandaríkjaher til þess að komast að því hvernig slysið hefði getað átt sér stað.
Trump kallaði einnig eftir því að gerðar yrðu auknar kröfur til flugumferðarstjóra, og gaf hann í skyn að jákvæð mismunun eða DEI hefði átt þátt í slysinu. Þá sagði hann að röð slæmra ákvarðana hefði leitt til slyssins en ítrekaði að Bandaríkjamenn ættu áfram að vera óhræddir við að fara í flugferðir.
Hinn nýi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, tjáði sig sömuleiðis um slysið í gær og sagði að áhöfn þyrlunnar hefði verið reynd og að hún hefði verið að sinna árlegri þjálfun í næturflugi.
Sagði Hegseth að áhöfnin hefði verið með nætursjónauka á sér og að varnarmálaráðuneytið væri að rannsaka hvað hefði gerst og hvers vegna. Hegseth sagði síðar um kvöldið ljóst að slysið hefði aldrei átt að eiga sér stað.
Þetta er fyrsta mannskæða flugslysið í Bandaríkjunum frá árinu 2009 þegar vél á leiðinni frá New Jersey til Buffalo hrapaði, en allir 49 um borð fórust.