Smárinn Ægir Þór Steinarsson og Hilmar Smári Henningsson sækja að Arnóri Tristani Helgasyni í leik Grindavíkur og Stjörnunnar í gærkvöldi.
Smárinn Ægir Þór Steinarsson og Hilmar Smári Henningsson sækja að Arnóri Tristani Helgasyni í leik Grindavíkur og Stjörnunnar í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjarnan hélt sínu striki þegar liðið heimsótti Grindavík og vann öruggan sigur, 108:87, í 16. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi. Stjarnan er áfram á toppi deildarinnar, nú með 26 stig, og Grindavík heldur kyrru fyrir í fjórða sæti með 16 stig

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Stjarnan hélt sínu striki þegar liðið heimsótti Grindavík og vann öruggan sigur, 108:87, í 16. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi.

Stjarnan er áfram á toppi deildarinnar, nú með 26 stig, og Grindavík heldur kyrru fyrir í fjórða sæti með 16 stig.

Gestirnir úr Garðabænum hófu fyrstu þrjá leikhlutana af gífurlegum krafti og náðu þannig þægilegri forystu, sem gerði fjórða og síðasta leikhluta að nokkurs konar formsatriði fyrir Stjörnuna.

Bæði lið tefldu fram nýjum leikmönnum í gærkvöldi. Slóveninn Jaka Klobucar lék fyrir Stjörnuna og uppöldu Grindvíkingarnir Bragi Guðmundsson og Arnór Tristan Helgason sneru aftur í liðið. Bandaríkjamaðurinn Jeremy Pargo, reynslubolti úr NBA-deildinni, lék hins vegar ekki með Grindavík.

Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur í leiknum með 30 stig fyrir Stjörnuna. Jase Febres bætti við 25 stigum og 11 fráköstum.

DeAndre Kane var stigahæstur hjá Grindavík með 24 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar. Lagio Grantsaan var með 21 stig og sjö fráköst.

Stólarnir of sterkir

Tindastóll andar áfram ofan í hálsmálið á Stjörnunni en í gærkvöldi gerði liðið góða ferð á Egilsstaði og lagði Hött að velli, 97:85.

Tindastóll er í öðru sæti með 24 stig, tveimur á eftir toppliðinu. Höttur er enn í fallsæti, því 11. og næstneðsta með aðeins átta stig. Haukar eru á botninum með jafnmörg stig en sex stig eru upp í öruggt sæti.

Höttur byrjaði leikinn betur og komst snemma níu stigum yfir í stöðunni 22:13. Tindastóll lagaði stöðuna og var þremur stigum yfir í hálfleik, 51:48. Í síðari hálfleik bættu Stólarnir í og unnu að lokum sannfærandi sigur.

Stigahæstur í leiknum var Giannis Agravanis með 27 stig, sex fráköst og fimm stolna bolta fyrir Tindastól.

Obadiah Trotter var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig og sex fráköst.

Viðsnúningur Valsmanna

Íslandsmeistarar Vals sneru taflinu við gegn Njarðvík og unnu sterkan sigur, 88:76, á Hlíðarenda.

Með sigrinum fór Valur upp í fimmta sæti þar sem liðið er með 16 stig. Njarðvík er áfram í þriðja sæti með 20 stig.

Í fyrri hálfleik var Njarðvík skrefinu á undan og leiddi með sjö stigum, 48:41, að hálfleiknum loknum. Í síðari hálfleik snerist taflið hins vegar alfarið við, Valur tók leikinn yfir og vann að lokum þægilegan tólf stiga sigur.

Kristinn Pálsson var stigahæstur hjá Val með 20 stig og 12 fráköst. Joshua Jefferson bætti við 18 stigum og Kári Jónsson var með 17 stig.

Stigahæstur hjá Njarðvík var Veigar Páll Alexandersson með 18 stig. Khalil Shabazz bætti við 16 stigum, sex fráköstum, átta stoðsendingum og þremur stolnum boltum.

Álftanes í sjötta sætið

Álftanes gerði þá góða ferð í Breiðholtið og vann öruggan sigur á ÍR, 94:75. Með sigrinum jafnaði Álftanes lið ÍR að stigum en þau eru bæði með 14 stig; Álftanes í sjötta sæti og ÍR í því áttunda.

Justin James skoraði 34 stig, tók fimm fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Álftanes. David Okeke bætti við 27 stigum auk þess að taka 13 fráköst.

Oscar Jörgensen var atkvæðamestur hjá ÍR með 23 stig.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson