Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Það var kátt í höllinni að loknum leik Króata og Frakka í Zagreb, og tilfinningar heitar hjá heimamönnum. Gamla goðsögnin Domagoj Duvnjak þakkaði þjálfara sínum með risaknúsi. Hannes Sigurðsson hreifst með:
Króatar Frökkunum tóku tak,
í tryllingi keyrðu þá aftur á bak.
Í útsending beinni
og alsælu hreinni
kysstust þar Dagur og Duvnjak.
Margir hafa brugðið á það ráð að hafa „þurran janúar“. Flestum gefst það vel en einhverjir munu eiga erfitt með þurrkinn. Haraldur Hjálmarsson frá Kambi sýndi samborgurum sínum virðingarverða tillitssemi:
Ég hætti að drekka hálfan mánuð hérna um daginn.
Bara til að tryggja haginn
og til að koma reglu á bæinn.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:
Kappar hraustir klífa hann,
kveikjuneista deilir hann,
allir smiðir eiga hann,
í eyru lamba skorinn hann.
Svo er eitt af okkar skáldum, alltaf kennt við hann.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu vísnagátunnar. Úlfar Guðmundsson ratar fljótt á svarið:
Klífa hamar knáir menn.
Kveikjuhamar þarfan tel.
Smiðir hamar eiga enn.
Eyru hamar markar vel.
Þetta þvælist ekki fyrir Helga Einarssyni:
Um mark og byssu, bjarg og smið
brýt ég heilann, lausn svo finn.
Mér virðist núna verkefnið
vera orðið, hamarinn!
Guðrún Bjarnadóttir lætur ekki sitt eftir liggja:
Úr Grænukinn ég geng á Hamar,
þó gneisti kveikjuhamar meira,
en smiðinn hamarsleysi lamar.
Á lambi stundum hamrað eyra.
Sjálfur leysir Páll gátuna þannig:
Kappar margir klífa hamar enn,
kveikjuneista deilir hamar enn.
Smiðir allir hamar hafa enn,
hamar fjármark bændur nota enn,
og Þorsteinn skáld við Hamar kenndur er víst enn.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Úr heyi og korni hnýtt er það,
hluti’ af stærra verki það,
herrann fíni herðir það,
og hreinlát daman brúkar það.