Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þeim fækkar hratt sem lifðu af helför nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Þeim sem geta lýst hryllilegum þjáningum fólksins í fangabúðunum og ótrúlegri seiglu þeirra sem þrátt fyrir allt voru svo heppin að lifa af

Þeim fækkar hratt sem lifðu af helför nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Þeim sem geta lýst hryllilegum þjáningum fólksins í fangabúðunum og ótrúlegri seiglu þeirra sem þrátt fyrir allt voru svo heppin að lifa af. Ég heimsótti Auschwitz-Birkenau fyrir margt löngu. Það var, eins og öll vita sem þangað hafa komið, erfið en nauðsynleg lífsreynsla. Líklega var það skilvirkni útrýmingar gyðinga, rómafólks og annarra „óæskilegra“ hópa sem fékk mest á mig. Allt var skráð, allt var nýtt: gulltennur rifnar úr líkunum, skartgipir, ferðatöskur, fötin, skórnir, hárið!

Stríðsvélin starfaði hikstalaust að útrýmingu samborgara sinna. Svo að slíkt gangi upp þarf að mynda órafjarlægð á milli fólks. Kvikmyndin The Zone of Interest í leikstjórn Jonathans Glazers lýsir fjölskyldulífi Rudolfs Höss, stjórnanda fangabúðanna í Auschwitz, í húsi við hlið þeirra. Á milli þessara tveggja heima, fangabúðanna og húss fangabúðastjórans, er órafjarlægð en samt eru þeir hlið við hlið. Sex milljónir gyðinga voru myrtar í helför nasista, þar af ein milljón í Auschwitz.

27. janúar var þess minnst að 80 ár eru liðin frá því að sovéskar hersveitir frelsuðu fangabúðirnar sem stóðu rétt fyrir utan borgina Kraká í Póllandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra var viðstödd athöfnina fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Í fyrsta sinn sem það gerðist að ég best veit. Sama dag fundaði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra með rabbína gyðinga á Íslandi. Ríkisstjórn Íslands hefur einnig ákveðið að minnast helfararinnar hér á landi 27. janúar ár hvert eins og víða er gert. Það hefur ekki verið gert áður hér á landi. Við það tilefni sagði forsætisráðherra: „Það er mikilvægt að við höldum áfram að læra af sögunni, uppfræða börnin okkar og vera á varðbergi gagnvart fordómum og hatursorðræðu.“

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við fórnum og hryllingi seinni heimsstyrjaldarinnar voru stofnun Sameinuðu þjóðanna og samþykkt Mannréttindayfirlýsingarinnar. Á þeim grunni hafa ríki heims síðan átt samstarf. Árangurinn hefur á stundum verið góður en eftir því sem árin líða og heimsmyndin breytist hefur smám saman molnað undan þessu kerfi og lögmæti þess minnkað.

En helför gyðinga er því miður ekki sú eina átti sér stað á 20. öldinni. Þjóðarmorðin í Rúanda árið 1994 og gegn Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni mega heldur ekki gleymast. Næstum daglega berast fréttir af uppgangi öfgaafla í Evrópu og Bandaríkjunum sem gera lítið úr helför seinni heimsstyrjaldarinnar og telja nóg komið af umræðu um hana. Tákn og orðræða nasismans eru úti um allt og auðjöfrar heilsa að nasistasið.

Þegar sagan gleymist er mest hætta á að hún endurtaki sig. Þess vegna þarf sífellt að minnast hennar.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. tsv@althingi.is

Höf.: Þórunn Sveinbjarnardóttir