Fasteignir Hili veitir fasteignaeigendum nýja möguleika við nýtingu fjármuna sem annars eru bundnir í fasteignum. Eykur þannig sveigjanleika.
Fasteignir Hili veitir fasteignaeigendum nýja möguleika við nýtingu fjármuna sem annars eru bundnir í fasteignum. Eykur þannig sveigjanleika. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hili birti tilkynningu í vikunni þar sem lýst er yfir mikilli ánægju með viðtökur landsmanna við framboði þeirra á nokkurs konar lánsfé fyrir fasteignaeigendur. Hili er norskt fyrirtæki sem gengur út á sjóðahugmynd sem býður upp á þá nýjung að…

Matthías Johannessen

mj@mbl.is

Hili birti tilkynningu í vikunni þar sem lýst er yfir mikilli ánægju með viðtökur landsmanna við framboði þeirra á nokkurs konar lánsfé fyrir fasteignaeigendur.

Hili er norskt fyrirtæki sem gengur út á sjóðahugmynd sem býður upp á þá nýjung að sjóðurinn fjárfesti í íbúðarhúsnæði gegn ákveðinni þóknun eða leigu. Bæði virkar sjóðurinn fyrir fasteignaeigendur sem og fjárfesta sem hafa áhuga á að leggja fé í íbúðarhúsnæði.

Ísland er fyrsta landið utan Noregs sem Hili fer inn á en markmið þeirra er að fara inn á fleiri lönd Skandinavíu.

Hili kemur þannig til móts við fasteignaeigendur sem eiga verðmæti í fasteignum sínum og veitir þeim þannig aukið fjárhagslegt svigrúm. Hækkun fasteignaverðs síðustu ár hefur myndað mikil verðmæti í fasteignum margra landsmanna.

Með viðskiptalíkani Hili gefst fasteignaeigendum þannig tækifæri til að selja hluta af eignum sínum til sjóðsins í þeim tilgangi að losa um hluta af þeirri fjárfestingu sem þar er annars bundin.

Eins og Hili útskýrir þetta á heimasíðu sinni þá er þetta ekki eiginlegt lán eða lánsfé, heldur sameiginlegt eignarhald milli Hili og fasteignaeigandans.

Viðskiptalíkan Hili er þannig uppbyggt að sjóðurinn fjárfestir í íbúðarhúsnæði þar sem eigandinn verður að hafa búsetu, allt að 50%. Samningurinn gengur síðan út á að árleg þóknun eða leiga er reiknuð og byggir upp skuld íbúðareigandans við Hili.

Leigan eða þóknunin er um 4-5% og reiknast árlega en ekki er um eiginlegar greiðslur að ræða heldur uppsöfnun skuldar. Samningurinn getur mest verið til 10 ára en binditími er á fyrstu 3 árunum. Eftir það er hvenær sem er hægt að kaupa Hili út.

Hili er með þessu einnig að tengja fjárfesta við íbúðareigendur gegnum sjóðinn og er þannig að veðja á hækkun íbúðarhúsnæðis til lengri tíma.

Morgunblaðið leitaði til Sigurðar Viðarssonar framkvæmdastjóra Hili á Íslandi og ræddi við hann um Hili en Sigurður var nú síðast aðstoðarforstjóri Kviku banka, áður var hann lengi forstjóri TM trygginga og því gamall refur þegar kemur að fjármála- og tryggingamarkaði á Íslandi.

„Við erum afar þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem Hili á Íslandi hefur fengið á þessum stutta tíma frá því að biðlistinn opnaðist. Hili er ný lausn á íslenskum fasteignamarkaði sem gerir fólki kleift að létta á eignarhaldi heimila sinna án þess að þurfa að selja frá sér eignina að fullu.“

Höf.: Matthías Johannessen