Úr bæjarlífinu
Jón Sigurðsson
Blönduósi
Lífið í Húnabyggð gengur nokkurn veginn sinn vanagang. Lægðir fara hjá með mismiklum tilþrifum. Æðarfuglinn líður hægt um við ströndina og hverfur við og við undir yfirborðið í leit að æti. Snjótittlingarnir fljúga í hópum milli garða þar sem fóður er að fá og hrafnarnir fara um tveir og tveir saman.
Þorrablótin standa sem hæst þessa dagana og eru haldin fjögur slík í Austur-Húnavatnssýslu. Og síðast en ekki síst er að íbúar Blönduóss bera hæsta heildarorkukostnað á Norðurlandi vestra, en getum þó huggað okkur við að við berum minni kostnað en íbúar í Grímsey.
Í dag er dagur kvenfélagskonunnar. Dagur til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Starfsemi kvenfélaga í sýslunni hefur skilið eftir einstæð spor í sögu héraðsins og lögðu þær m.a. grunninn að Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Konur innan raða Sambands austur-húnvetnskra kvenna sameinuðust vegna óánægju þeirra eftir að ákveðið var að hafa Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði.
Þær lögðu áherslu á að safna munum sem tengja mætti við heimilisiðnað og fengu afnot af gömlu húsi sem byggt hafði verið sem fjós og hlaða við Kvennaskólann. Textílmiðstöð Íslands, sem er til húsa í Kvennaskólanum á Blönduósi, hefur laðað að sér listafólk víðs vegar að og er sprottin úr þessum jarðvegi. Textílmiðstöðin býður upp á listamannadvöl og alls kyns námskeið sem gefa listamönnum tækifæri til að vinna á skapandi hátt. Það hefur gert Blönduós að alþjóðlegum samkomustað fyrir listir og menningu.
Í framhaldi af þessu er rétt að geta þess að Kaupfélag Skagfirðinga veitti á dögunum verkefninu Vatnsdæla á refli styrk að fjárhæð 2 milljónir. Verkefnið á sér liðlega 13 ára sögu en það var árið 2011 sem fyrstu sporin voru tekin í hinn 46 metra langa refil sem sýnir okkur Vatnsdælasögu í refilsaumi. Lesendur Húnahornsins hafa valið Jóhönnu Erlu Pálmadóttur á Akri sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2024. Jóhanna er textílkennari og verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og frumkvöðull að tilurð Vatnsdælurefilsins og Prjónagleðinnar svo fátt eitt sé nefnt. Þá má geta þess að Jóhanna hlaut árið 2019 riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu safna og menningar í heimabyggð. Í gamla Kvennaskólanum á Blönduósi hafa síðustu sporin verið tekin í refilinn en fyrstu sporin tóku Vigdís á Hofi og Ingimundur á Þingeyrum en síðustu sporin tóku Eline og Jón á Hofi.
Stjórn Skáksambands Íslands (SÍ) undirbýr þessa dagana 100 ára afmælishátíð sambandsins. Það liggur fyrir að hún verði haldin í Húnabyggð (Blönduósi) þar sem Skáksamband Íslands var stofnað í læknishúsinu á Blönduósi 23. júní 1925. Stofnfélög SÍ voru sex og öll norðlensk skákfélög allt frá Blönduósi í vestri til Eyjafjarðar í austri. Taflfélag Reykjavíkur var ekki meðal stofnfélaga.
Reykvíkingar voru nokkuð stórir upp á sig og tóku ekki þátt í þessu en komu inn ári síðar. Ástæða þess að SÍ var stofnað á Blönduósi var sú að færa stofnfundinn eins nálægt Taflfélagi Reykjavíkur og mögulegt var. Íslandsmótið í skák (áður Skákþing Íslands) verður í tilefni 100 ára afmælis sambandsins haldið á Blönduósi dagana 14.-21. júní. Mótið verður teflt í einum flokki, í stað margra eins og venjulega, og ber heitið Icelandic Open. Á mótinu verður krýndur Íslandsmeistari í skák, kvennameistari Íslands, öldungameistari Íslands og ungmennameistari Íslands. Þetta er í fjórða skipti sem mótið fer fram á þennan hátt.
Þegar rölt er um farinn veg verða stundum á vegi manns sögur um afdrif og þrekvirki manna og dýra. Uppi á Háubrekku á Blönduósi, austan við hringsjána, var hesturinn Andvari heygður í öllum reiðtygjum árið 1969, þá 16 vetra. Minningarmörk, steypt plata og stórir hraunsteinar, eru þar sem hesturinn var felldur. Hann var sagður hafa verið fallegasti og besti hestur á Íslandi. Eigandi hans var Guðmundur Agnarsson.
Guðmundur hafði verið í útreiðartúr og voru þeir staddir utan ár, er Guðmundur datt af baki og lést. Hesturinn varð alveg trylltur, óð út í Blöndu og synti yfir ósinn. Andvari hljóp síðan að húsi Guðmundar og nam staðar við útidyr hússins. Hann tók dauða eiganda síns afar nærri sér. Ólafur Sigfússon í Forsæludal orti á sínum tíma um þennan atburð og er hér fyrsta vísan í kvæðinu um Guðmund og Andvara.
Furða hve oft á fegurð
við förum um veginn blind.
Af Guðmundi og Andvara geymi
göfga og hugþekka mynd.
Fjórar Blönduósgæsir fengu GPS- senda síðastliðið sumar, gassarnir Jón Sig, Höskuldur lögga, gæs 85 og gæs 527. Það er bara nafni þess er þetta ritar sem ekki hefur heyrst í lengi. Hann er vonandi á lífi á Sharinsay (ein Orkneyja) en þegar heyrðist frá honum síðast um miðjan desember var sendirinn nær orkulaus. Vonandi hleðst hann upp og sýnir sig. Höskuldur er á Katanesi í Skotlandi en 85 og 527 eru á Orkneyjum.