Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Íþróttafélögin sem fengu nýverið bréf frá skattinum, varðandi skil á opinberum gjöldum, koma saman til fundar eftir helgina þar sem ræða á hvernig félögin ætla að bregðast við tilmælum skattstjóra. Minnti skattstjóri m.a. á að samkvæmt leiðbeningum um skil á opinberum gjöldum ætti að skrá leikmenn og þjálfara sem launþega en ekki verktaka.
Eins og fram kom í blaðinu í gær hefur þetta bréf verið til umræðu innan íþróttahreyfingarinnar. Bréfið fór til þeirra félaga sem eiga lið í efstu og næstefstu deildum karla og kvenna í fótbolta, handbolta og körfubolta. Alls eru um 40 félög með lið í þessum deildum og sum með lið í öllum greinum. Taka á reikningsskil félaganna til skoðunar, þar sem dæmi eru um misbrest á skilum opinberra gjalda af launagreiðslum. Ljóst er að málið snertir þúsundir leikmanna og þjálfara, sem og aðra starfsmenn íþróttafélaganna og jafnvel sjálfboðaliða.
Ekki einfalt mál
Íslenskur toppfótbolti, ÍTF, hagsmunasamtök félaga sem eiga lið í efstu tveimur deildum karla og kvenna í fótbolta, á frumkvæði að sameiginlegum fundi íþróttafélaganna. Að sögn Birgis Jóhannssonar framkvæmdastjóra ÍTF eru fulltrúar félaga úr handbolta og körfubolta einnig boðaðir til fundarins, sem og fulltrúar ÍSÍ og fleiri íþróttasambanda.
Birgir segir félögin hafa verið að skoða þessi mál, í samráði við nokkra aðila, m.a. skattasérfræðinga hjá Deloitte. Hann segir ekki svo einfalt að skrá leikmenn og þjálfara sem hefðbundna launamenn.
„Við óttumst að þetta geti haft slæm áhrif. Margt í þessu er óljóst. Að okkar mati gengur það ekki upp ef allir leikmenn yrðu launþegar, það snertir meðal annars vinnulöggjöfina. Við þurfum að koma okkur saman um hvernig við ætlum að hafa umhverfi íþróttamanna sem launþega, það er ekki hægt að selja launþega, svo dæmi sé tekið,“ segir Birgir og vísar þar til þess að leikmenn og þjálfarar gangi kaupum og sölu í atvinnumennskunni.
„Þetta nær til stórs hóps, ekki bara leikmanna heldur einnig þjálfara alveg niður í yngri flokkana. Nánast allir leikmenn og þjálfarar eru verktakar, sinna kannski annarri vinnu með íþróttinni og fæstir í fullu starfi. Svo erum við einnig með starfsmenn skráða sem launþega, eins og aðalþjálfara, framkvæmdastjóra og fleiri tengda skrifstofurekstri,“ segir Birgir. Hann gerir ekki athugasemd við bréf skattsins, embættið sé eingöngu að sinna sinni vinnu. Hins vegar þurfi stjórnvöld, þ.e. löggjafinn, að gera upp við sig hvernig leikreglurnar eigi að vera. Það gangi t.d. ekki að líta á íþróttafélög sem einkahlutafélög. Þau séu óhagnaðardriifin og ekki hægt að færa refsiábyrgð yfir á stjórnarmenn í félögunum.
Áhyggjur af sjálfboðaliðum
„Við höfum fullan skilning á að fara þurfi að lögum í þessum efnum en ég hef nokkrar áhyggjur af því að þetta geti aukið kostnað félaganna, sem þurfa þá að velta því yfir í hækkun æfingagjalda,“ segir Hannes S. Jónsson framkvæmdastjóri KKÍ um bréf skattsins.
Haft var eftir formanni KR, Þórhildi Garðarsdóttur, í blaðinu í gær að þessar auknu kröfur gætu sligað íþróttafélögin og sett þau á hausinn. Hannes segist geta tekið undir þetta. Í bréfi skattstjóra er einnig minnt á að upplýsinga- og greiðsluskylda hvíli á aðalstjórnum félaga og vanræksla á þeirri skyldu geti leitt til refsiábyrgðar.
Hannes segist hafa sérstakar áhyggjur af þessum þætti, þ.e. að það geti fælt fjölda sjálfboðaliða frá því að taka sæti í stjórnum félaga og taka mögulega á sig rekstrarlega ábyrgð. Þótt mörg félög séu með starfsmenn á launum þá standi íþróttahreyfingin og falli með framlagi sjálfboðaliða um allt land.
Hannes segir íþróttafélögin margoft hafa bent á að auknar kröfur séu gerðar til þeirra, ekki síst faglega, eins og að hafa menntaða þjálfara, sjúkraþjálfara og fleira fagfólk. Jafnframt komi kröfur að utan, frá alþjóðasamböndum á borð við UEFA, FIBA og IHF. Allt kosti þetta peninga og ef rekstrarkostnaður aukist enn meira geti félögin þurft á meira framlagi að halda frá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, sem nú þegar leggja töluverða fjármuni til íþróttafélaga í landinu.
„Við munum fylgjast vel með þeirri vinnu sem fer núna fram innan ÍSÍ og meðal héraðssambanda við að koma til móts við ábendingar skattstjóra. Þessi mál þurfa að sjálfsögðu að vera á hreinu og samkvæmt gildandi reglum. Um það er ekki deilt," segir Hannes enn fremur.
Leiðbeiningar til síðan 2004
Þegar leitað var nánari upplýsinga hjá embætti skattstjóra í gær fengust ekki svör um hve víðtækur misbrestur hefur verið á skilum opinberra gjalda af hálfu íþróttafélaga. Var óskað eftir skriflegum spurningum og svars að vænta síðar.
Þó var bent á að þessi tilmæli embættisins ættu ekki að koma íþróttahreyfingunni á óvart. Allt frá árinu 2004 hafi legið fyrir formlegar leiðbeiningar ríkisskattstjóra um skattskyldu af íþróttastarfsemi. Voru þær leiðbeningar endurútgefnar fyrir ári, í góðri samvinnu við ÍSÍ.
Þótt skattstjóri hafi beint tilmælum sínum til félaga í efstu deildum boltaíþróttanna þá er í umræddu bréfi áréttað að málið varði öll íþróttafélög í landinu. Væntir skattstjóri áframhaldandi góðs samstarfs við ÍSÍ, sem miði að réttum skattskilum íþróttafélaga til framtíðar.
Íþróttastarf
Um 40 íþróttafélög í landinu eiga lið í efstu deildum karla og kvenna í fótbolta, handbolta og körfubolta.
Sum félögin eiga lið í öllum greinum.
Atvinnumennska er stunduð í stærstu félögunum og hálfatvinnumennska í þeim smærri.
Eingöngu fastir starfsmenn á skrifstofum sumra félaga eru launþegar, aðrir verktakar.
Bréf skattsins til íþróttafélaganna
Vanræksla leiði til refsiábyrgðar
Í bréfi embættis skattstjóra til íþróttafélaganna er minnt á lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og skyldu launagreiðenda til að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum og öðrum starfstengdum greiðslum, svo og af reiknuðu endurgjaldi vegna eigin vinnu eða sjálfstæðrar starfsemi. Einnig að inna af hendi tryggingargjald.
Ríkisskattstjóri segist hafa orðið þess áskynja að misbrestur sé á skilum íþróttafélaga á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi. Af þessum sökum standi til að skoða hvernig þessum skilum sé háttað. „Fyrirhugað er að endurtaka skoðun á skattskilum íþróttafélaga með reglubundnum hætti í framtíðinni. Vonast er til þess að forsvarsmenn íþróttafélaga taki höndum saman með skattyfirvöldum að koma skilum þessum í rétt lag til framtíðar horft,“ segir m.a. í bréfinu. Þá er minnt á að upplýsinga- og greiðsluskylda hvíli á aðalstjórnum félaga og kunni vanræksla á þeim skyldum að leiða til refsiábyrgðar.