Úr ólíkum áttum
Ögmundur Jónasson
ogmundur@ogmundur.is
Á dögunum fylgdist ég með innsetningu Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Athöfnin tók sinn tíma en var lærdómsrík því ræðurnar og seremóníurnar veittu innsýn í sálarlíf bandarískra stjórnmála; þarna birtist blanda af hefðum og framtíðarsýn verðandi forseta.
Mikil áhersla var lögð á stjórnarskrána og frelsi eða frjálsræði – liberty – og svo einnig á guðstrú. Það var hin kristna trú – sennilega sem pars pro toto – hluti fyrir heild. Samnefnarinn þá hinn göfugi þráður í siðaboðskap allra tíma: Gerið öðrum það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður. Eflaust var það ætlan prestanna sem þarna komu fram að höfða til þess sem háleitast er; biðja almættið um styrk handhöfum hins veraldlega valds til handa, til þess að þeir komi siðlega fram og af sanngirni við alla menn.
Eitthvað fannst mér skorta á að forsetinn nýi meðtæki þennan boðskap til fulls ef marka má ræðu hans. Ef það er rétt metið veitir ekki af að landsmenn hans beini bænum sínum til himins og óski honum alls góðs. Og við sem fjær stöndum mættum síðan biðja þess að Bandaríkjamenn verði bænheyrðir að þessu leyti.
Annars þótti mér athöfnin minna um margt á krýningu konungs eða keisara. Og þegar nýi forsetinn að athöfn lokinni tók að gefa út tilskipanir út og suður – sumt um atriði sem snerta grundvöll stjórnsýslunnar og réttindi einstaklinga og hópa, að ógleymdum náðunum dæmdra manna, var engu líkara en að keisari væri farinn að munda veldissprota sinn.
Um allt þetta er stjórnarandstaðan bandaríska á þingi nánast dæmd til þagnar því fráfarandi forseti hafði leikið sama leikinn og þá ekki síst gagnvart fjölskyldu sinni og pólitískum samherjum sem hann náðaði hvern á fætur öðrum fram á síðustu mínútu í embætti.
Við þetta vakna margar spurningar um merkingu hugtaka á borð við frelsi og lýðræði og um sögulegar hefðir varðandi vald og valdheimildir. Slíkar vangaveltur minna á mikilvægi þeirrar sagnfræði sem leitast við að skýra samhengi sögunnar.
Marco Rúbío nýjan utanríkisráðherra Bandaríkjanna þarf hins vegar enga sérfræðinga til að lesa í svo gagnsær er sá maður, nánast glær.
Þegar hann kom fyrir utanríkismálanefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings áður en hann hlaut staðfestingu sem ráðherra lýsti hann pólitískum ásetningi sínum í þessum opinskáa anda:
„Í stjórnartíð Donalds Trump verða öll meginmarkmið utanríkisráðuneytisins kýrskýr. Stefnan sem forsetinn hefur sett okkur að fylgja er eins ljós og verða má. Hvern dollara sem við eyðum, sérhverja áætlun sem við fjármögnum verður að vera hægt að réttlæta með því að fullnægt sé einu af þrennu eftirtöldu: Gerir þetta Bandaríkin öruggari? Gerir þetta Bandaríkin sterkari? Gerir þetta Bandaríkin auðugri?“
Ekki fylgdi sögunni hvort Rúbíó hafi minnst á sanngirni eða réttlæti eða hvort einhver hafi séð ástæðu til að spyrja út í slíkt.
Í hugann koma orð Johns F. Kennedy þegar hann tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum í janúar 1961. Minni kynslóð eru þau orð minnisstæð eða ef til vill urðu þau okkur minnisstæð löngu síðar þegar hugurinn leitaði samanburðar við það sem á eftir kom. Á þessum tíma kraumaði heimsvaldastefna Bandaríkjanna vissulega undir og varð stundum sýnileg, einnig í forsetatíð Kennedys. Það breytir því þó ekki að tónninn í þessari fyrstu ræðu hans á forsetastóli var á þá lund að það skyldu menn gjöra öðrum sem þeir vildu að aðrir menn gerðu þeim. Kennedy minnti á þá valkosti sem mannkynið stæði frammi fyrir; maðurinn byggi yfir tækni og auðæfum til að uppræta fátækt í heiminum en á hinn bóginn gæti hann einnig eytt öllu lífi á jörðu. Okkar væri að velja. Í lokaorðum sínum bað forsetinn um blessun og hjálp til að velja rétt.
Ekki virðist veita af slíkri blessun nú um stundir og hefur reyndar verið svo um alllangt skeið. Þá er bara að vona að góðir Bandaríkjamenn verði bænheyrðir.
Ætli sé ekki óhætt að segja að það yrði okkur öllum í hag?