Daði Guðbjörnsson
Þeir sem horfðu á þættina um Vigdísi hafa kannski veitt því athygli að í kosningabaráttunni vildi hún ekki taka þátt í „leðjuslagnum“ eins og það var orðað. Þessi aðferð hennar er í raun sú sama og Shri Mataji, frumkvöðull í sahaja-jóga, útskýrir fyrir okkur og ber vitni um mikinn þroska og kjark. Vigdís þorði að standa með sjálfri sér og sínum hugsjónum og getum við mikið lært af henni. Þessi aðferð; að nálgast lífið á jákvæðan hátt, gefur okkur líka meiri lífsfyllingu og árangur að mínu áliti. Reyndar vill svo skemmtilega til að þær Vigdís og Shri Mataji eiga það sameiginlegt að hafa ávarpað kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Peking árið 1995. Þar fengu þær tækifæri til að deila hugsjónum sínum. Þær hafa báðar varað við einni af plágum samtímans sem er öfgahyggja.
Shri Mataji hefur kennt okkur að við erum í sumum tilfellum sjálf okkar eigin óvinir, við hugsum of mikið um framtíðina, um fortíðina, um mataræðið og fleira. Við gerum þetta allt með huganum, hann er sívakandi og trekkir okkur upp og stressar. Margar tegundir hugleiðslu byggjast á því að nota hugsanir og reglur til að koma böndum á þessa síbylju. Sahaja-jóga er frábrugðið að því leyti að tæknin sem er notuð fer með okkur á þögla svæðið á bak við hugsanirnar og gefur taugakerfinu færi á að hvílast og endurnýjast.
Sahaja þýðir eitthvað sem er sjálfkrafa og náttúrulegt og jóga þýðir upphaflega samband eða samruni við hið guðlega eða alheimsvitundina. Það er ekki verið að biðja fólk að trúa á Guð, heldur að bjóða upp á aðferð sem er nýstárleg en um leið hluti af langri jógahefð.
Ástæðan fyrir því að ég er að vekja athygli fólks á sahaja-jóga er að það hjálpar okkur að takast á við þennan tíma sem við lifum á, sem getur verið ansi grimmur. Sahaja-jóga hefur hjálpað mér að glíma við ýmsa kvilla eins og svefnleysi, kvíða, blóðþrýsting, astma, ofvirkni og fleira. Ferðalagið á bak við hugann hjálpar fólki að slaka á og ekki síst að standa með sjálfu sér, t.d. í að stunda hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl, það gerist þannig að maður verður meðvitaðri um líkamann og taugakerfið, þetta gerist sjálfkrafa, það eru engin boð og bönn.
Sahaja-jóga er kennt í sjálfboðavinnu og kostar ekkert. Kynningarfundir eru fyrsta mánudag í hverjum mánuði og það er hægt að fylgjast með okkur á Facebook: https://www.facebook.com/sahaja.yoga.reykjavik
Höfundur er listmálari og sahaja-jógi.