Sigurður Hlíðar Brynjólfsson fæddist 1. maí 1936. Hann lést 4. desember 2024.

Útför Sigurðar fór fram 12. desember 2024.

Sigurður Brynjólfsson skipstjóri er látinn. Með andláti hans varð mér enn betur ljóst hvílík sæla það var að upplifa bongóblíðu á Bíldudal sumar eftir sumar. Siggi var sjóari að sunnan, skipper. Fyrir honum var borin virðing á staðnum. Rætur sínar átti hann inni í Djúpi. Landfesti átti hann hjá Herdísi sinni, börnum og síðar barnabörnum og vinum þeirra.

Sigurður og frú Herdís höfðu mikil áhrif á litla samfélagið í Bíldudal. Ég kom til staðarins með fjölskyldu einhverju ári/árum á eftir þeim. Leiðir okkar Sigurðar lágu helst saman um dótturdætur hans, sem voru bestu vinkonur yngri dóttur minnar, Láru. Ég heyrði meir af Sigurði en hann sagði mér sjálfur. Hann var ekki aðeins afastaðgengill dóttur minnar heldur og eðlilegt umtalsefni staðarbúa sökum stöðu sinnar; skipstjóri á Sölvanum. Mig langar aðeins að dvelja við eina minningu. Sigurður fór út með nokkra krakka á kænu sinni og dólaði með fjöruborðinu í lygnum voginum á sólskinsdegi. Ekkert þeirra var með björgunarvesti, en þarna lærðu þau að sitja kyrr á þóftum meðan afi reri og sagði frá. Efalaust hefur sjókvíði og allt mögulegt horfið af mörgum þeirra fyrir eina og eina svona ferð með Sigurði heitnum. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir þennan þátt í uppeldi Láru.

Far heill.

Flosi Magnússon.