„Ég myndi segja tvöfalt fleiri,“ svarar María Soffía Gottfreðsdóttir augnskurðlæknir spurð að því hversu margir sérfræðingar á því sviði þyrftu að vera við augnsjúkdómadeild Landspítalans. Sex skurðlæknar eru nú við deildina en enginn þeirra nýkominn úr námi. Sjálf er hún eini augnskurðlæknirinn á Íslandi sem sinnir sérhæfðum glákuaðgerðum.
Þegar María kom heim úr sérnámi í augnskurðlækningum frá Bandaríkjunum um aldamótin voru 30 starfandi augnlæknar á landinu en þjóðin taldi þá 270 þúsund manns. Nú, aldarfjórðungi síðar, hefur íbúum á Íslandi fjölgað í 400 þúsund en augnlæknunum hefur fækkað, eru ekki nema 28. „Það þarf að fara fram greining á þörf fyrir sérfræðilækna í mismunandi sérgreinum og samtal um hvernig best sé að hafa áhrif á menntun og sérhæfingu yngri augnlækna. Þá væri mikilvægt að koma á handleiðarakerfi þar sem eldri og reyndari sérfræðingar miðla þekkingu til yngri lækna,“ segir María en nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaðinu.