Halla Gunnarsdóttir
Þær létu mikið yfir sér, tillögurnar sem Viðskiptaráð kynnti á dögunum og buðu upp á yfir hundrað milljarða króna árlegan „sparnað“ fyrir ríkið. Þar kveður við ýmis kunnugleg stef, svo sem að selja Landsbankann, flugstöðina og Landsvirkjun, fækka framhaldsskólum og leggja niður verkefni á borð við brothættar byggðir, sem ráðið telur til óþurftar. Ekki bera allar tillögurnar með sér mikla innsýn eða þekkingu á þeim verkefnum sem þarna eru undir. Til dæmis er vandséð hvernig fækkun framhaldsskóla úr 27 í fimm eigi að skila hagræðingu að heitið geti nema hugmyndin sé að fleygja nemendunum úr skólanum líka. Enda eru tillögurnar, þegar betur er að gáð, öðru fremur hugmyndafræðileg atlaga að samfélaginu í þágu þeirra sem mest eiga.
Sala Landsvirkjunar væri ekki eingöngu skammsýn, heldur beinlínis hættuleg. Orka er undirstaða alls hagkerfisins og að afhenda einkaaðilum yfirráð yfir henni getur leitt til gríðarlegra verðhækkana fyrir heimili og fyrirtæki. Sú hefur þróunin verið í löndum þar sem orkuinnviðir hafa verið einkavæddir. Í stað þess að tryggja stöðugleika og sanngjarnt verð fyrir rafmagn leiða markaðsbrestir til hins gagnstæða. Sala Landsvirkjunar myndi koma nokkrum útvöldum vel, en hún væri ógn við bæði íslenskt atvinnulíf og almenning.
Aðgerðir vegna kjarasamninga
Það vekur ekki síður athygli að Viðskiptaráð vill hverfa frá aðgerðum sem samþykktar voru í tengslum við gildandi kjarasamninga og þá helst þeim sem lutu að stuðningi við barnafjölskyldur. Sá stuðningur kom ekki til að ástæðulausu. Barnafjölskyldur hafa þurft að taka á sig þungar byrðar vegna ófremdarástands í húsnæðismálum og hávaxtastefnu Seðlabankans. Fólk sem skuldar og fólk sem leigir tekur við byrðunum á meðan aðrir hópar samfélagsins eru í vari. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir, barnabætur og sérstakur vaxtastuðningur eru í raun afskaplega hóflegar aðgerðir sem miða að því að tryggja að við þurfum ekki að sitja uppi með aukna barnafátækt vegna þessarar forgangsröðunar í samfélaginu.
Viðskiptaráði kann að finnast þessi nálgun heimskuleg, enda trútt sinni hagsmunabaráttu fyrir ríkasta fólk samfélagsins. En það er samt eitt af forsenduákvæðum síðustu kjarasamninga að staðið verði við gefin loforð. Að leggja þær aðgerðir af þýðir riftun kjarasamninga og nýjar samningaviðræður. Þar myndi vera undir sú staðreynd að þrátt fyrir að Seðlabankastjóri hafi fyrir ári sagt kjarasamninga vera „stærsta óvissuþáttinn“ fyrir vaxtalækkunarferlið hefur launafólk þegar þurft að greiða okurvexti í tæpt ár eftir að hafa undirgengist afar hóflegar launahækkanir. Til viðbótar hafa verðhækkanir dunið á heimilum; á nauðsynjavöru, raforku, tryggingum, opinberum gjöldum og svo mætti lengi telja. Ljóst er að launafólk hefur mikið að sækja, enda hefur það þurft að taka á sig óeðlilega miklar byrðar af efnahagsástandi sem það stofnaði ekki til.
Launafólk hefur mikið að sækja
Viðskiptaráð talar fyrir kjararýrnun fyrir venjulegt fólk. Í löndum þar sem skoðanasystkini þess ráða meiru en hér, þar sem stéttarfélög hafa verið brotin á bak aftur og stuðningskerfi eyðilögð, eru lífskjör venjulegs fólks margfalt verri. Slík vegferð nýtur ekki almenns stuðnings hér á landi.
Að því sögðu er ég að sjálfsögðu tilbúin að setjast aftur að samningaborðinu ef það verður ofan á og mun berjast af alefli fyrir lífskjörum félagsfólks VR, sem á stóran þátt í að skapa þau verðmæti sem eru undirstaða lífsgæða á Íslandi. Verkefnið er að tryggja að launafólk fái sanngjarna hlutdeild í verðmætunum sem það skapar og að koma um leið í veg fyrir að sérhagsmunatillögur Viðskiptaráðs nái fram að ganga.
Höfundur er formaður VR.