Birgitta, sem skrifað hefur yfir þrjátíu bækur, hefur nú gert samning við Storytel.
Birgitta, sem skrifað hefur yfir þrjátíu bækur, hefur nú gert samning við Storytel. — Morgunblaðið/Ásdís
Það er mjög gott að hugsa í fjósinu. Ég skrifa núna á hverjum degi og finnst það mjög skemmtilegt. Þetta er það sem mig langar til að gera.

Birgitta var í kaupstaðarferð í höfuðborginni í vikunni og notaði tækifærið til að hitta blaðamann og ræða um ritstörfin og bústörfin. Birgitta býr á Syðri-Löngumýri í Húnavatnssýslu en þar hefur hún búið mestalla ævi. Hún var aðeins rúmlega tvítug þegar skáldgyðjan bankaði upp á og hefur ekki látið hana í friði síðan.

Skandall í sveitinni

„Ég er alin upp á bænum, en ég var ættleidd og var því lítil prinsessa þarna á heimilinu,“ segir Birgitta, en hún var ættleidd nýfædd og á ekki systkini.

„Foreldrar mínir og blóðforeldrar þekktust en ég var skandall í sveitinni því blóðfaðir minn hélt fram hjá með annarri konu og úr varð ég. Svo var ég gefin á annan bæ og fékk nýja foreldra og nýja fjölskyldu. Seinna meir, þegar ég eignaðist ekki börn, fannst mér lítið mál að ættleiða. Við hjónin ættleiddum dreng sem fæddist í Taílandi og síðan stelpu sem fæddist á Indlandi,“ segir hún.

„Maðurinn minn lést fyrir tæpum fjórum árum en ég og börnin héldum áfram með búskap. Við vorum með mjólkurkýr en hættum því í september og erum nú með þrjú hundruð kindur, nokkur naut og slatta af hrossum. Strákurinn minn býr á landinu og barnabörnin, en hann er með verktakafyrirtæki, og stelpan mín býr heima,“ segir hún.

„Það er auðvitað vinna að sjá um dýrin en ekkert miðað við það að sjá um kýr; þá er maður svo bundinn og þarf að fara í fjósið tvisvar á dag.“

Glæpir og rómans í bland

„Ég hafði alltaf áhuga á að skrifa og var alltaf að skrifa strax sem barn,“ segir Birgitta, en fyrsta bók hennar af yfir þrjátíu kom út árið 1983.

„Ég skrifa glæpasögur og rómansa og stundum í bland. Eftir fyrstu bókina vissi ég að ég vildi skrifa glæpasögur, sem var svolítið nýtt á þeim tíma. Ég fann tíma til að skrifa á kvöldin eða á nóttunni og þetta gekk upp,“ segir hún og segir skrifin vera ástríðu. Birgitta hefur einnig skrifað þrjár barnabækur, ævisögu og samtalsbækur við reikimeistara og miðil.

„Þegar ég fékk bækur gefnar út langaði mig að skila einu handriti á ári,“ segir Birgitta, en bókaútgáfan Skjaldborg hefur gefið út bækur Birgittu.

„Þær seldust ágætlega en á þessum tíma voru svona afþreyingarbókmenntir ekki hátt skrifaðar. Ég hélt samt alltaf áfram þótt ég væri feimin við þetta og með minnimáttarkennd. Ég fylgdi þeim kannski ekki nóg eftir,“ segir hún og segir ekki skorta hugmyndirnar sem fæðast hvar sem er.

„Það er mjög gott að hugsa í fjósinu. Ég skrifa núna á hverjum degi og finnst það mjög skemmtilegt. Þetta er það sem mig langar til að gera.“

Í endurnýjun lífdaga

Storytel gerði í fyrra samning við Birgittu og eru um ellefu bækur hennar þar fáanlegar til hlustunar. Nýjasta bókin hennar, Undir óskasólu, kom út í vikunni hjá Storytel, en sú bók var sérstaklega skrifuð fyrir Storytel.

„Bækur mínar eru komnar í endurnýjun lífdaga hjá Storytel og hafa fengið góða hlustun. Undir óskasólu er sjálfstætt framhald bókar sem ég skrifaði 1992 og heitir Dætur regnbogans,“ segir hún.

„Sú saga gerist upp úr 1700 og sögusviðið er íslensk sveit. Tvær konur eru aðalpersónur, en þær hafa dulræna hæfileika,“ segir hún en í bókinni koma ást og glæpir við sögu, enda segist Birgitta sjaldan skrifa bók án þess að einhver glæpur sé framinn. Í nýju bókinni koma einnig fyrir dulrænir atburðir.

„Ég er alin upp við að trúa á líf eftir dauðann og afi minn var skyggn. Ég hef alltaf haft áhuga á þessu og lærði sjálf reiki. Ég trúi á handanheima og að hægt sé að hafa samband við látið fólk og hef upplifað það. Ég vandist snemma að þetta væri eðlilegt í lífinu og óneitanlega fléttast það stundum inn í það sem ég skrifa,“ segir Birgitta.

Spurð hvort hún hafi kynnt sér lífið á átjándu öld svarar hún:

„Ég grúskaði mikið í heimildum en bókin er skáldsaga.“

Bóndinn og rithöfundurinn Birgitta heldur ótrauð áfram að skrifa. Hún sér fyrir sér að börnin taki á endanum við búinu og þá fær hún enn meiri tíma fyrir skáldsögurnar.

„Mig langar mest að skrifa en mig langar líka að búa í sveit. Þetta er líf mitt.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir.