Þórshöfn Útgerðin er undirstaða byggðar og mannlífs á svæðinu.
Þórshöfn Útgerðin er undirstaða byggðar og mannlífs á svæðinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilli skerðingu á byggðakvóta þeim sem Langanesbyggð hefur haft er mótmælt í umfjöllun sveitarstjórnar. Fyrir fiskveiðiárið 2023-2024 fékk Þórshöfn, hvar búa um 350 manns, úthlutuð 102 þorskígildistonn en fyrir fiskveiðiárið 2024-2025 fer þessi kvóti niður í 32 tonn sem er tæplega 70% skerðing

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilli skerðingu á byggðakvóta þeim sem Langanesbyggð hefur haft er mótmælt í umfjöllun sveitarstjórnar. Fyrir fiskveiðiárið 2023-2024 fékk Þórshöfn, hvar búa um 350 manns, úthlutuð 102 þorskígildistonn en fyrir fiskveiðiárið 2024-2025 fer þessi kvóti niður í 32 tonn sem er tæplega 70% skerðing.

Í ljósi þessa fer sveitarstjórn fram á að úthlutun byggðakvóta til Þórshafnar verði leiðrétt og málið allt tekið samkvæmt reglugerð, enda hafi ekki verið rétt gefið. Í því sambandi er minnt á reglugerð þar sem segir að þegar hlutur einstakra byggðarlaga hafi verið reiknaður út skuli staður með færri íbúa en 400 og sem úthlutað var aflaheimildum á næstliðnu fiskveiðiári ekki þurfa að þola jafn mikla skerðingu og nú sé raunin á Þórshöfn. Skerðing eigi aldrei að vera meiri en 15 þorsk­ígildistonn milli fiskveiðiára hverju sinni.

Byggðakvóti hefur hjálpað kvótalitlum og kvótalausum útgerðum sem stunda grásleppuveiðar vegna meðalafla við veiðar. Þær veiðar eru gott tækifæri fyrir nýliðun í atvinnugreininni og það hjálpar þeim útgerðum sem fyrir eru, með marga starfsmenn, að gera út allt árið, segir í umfjöllun sveitarstjórnar Langanesbyggðar.

Um kvótasetningu grásleppu hefur einnig verið fjallað í stjórnsýslu Langanesbyggðar. Kvótasetningin komi afar illa niður á þeim sem búsettir eru á Bakkafirði; brothætt byggð sem svo hafi verið skilgreind. Ekki hafi verið sýnt fram á að kvótasetning grásleppu hafi neina almenna þýðingu fyrir samfélagið eða veiðar í heild. Þá sé ekki horft til áhrifanna á fámennt smærra samfélag eins og Bakkafjörð, þar sem búa 55 manns.

„Sjávarútvegurinn er undirstaðan í Langanesbyggð,“ segir Björn S. Lárusson sveitarstjóri. Hann getur þess að undanfarið hafi verið unnið að dýpkun hafnar á Þórshöfn sem hafi verið nauðsynjaverk. Með uppfyllingu þar sé svo skapað athafnasvæði þar sem Ísfélagið byggi stóra frystigeymslu. Fyrir er félagið með stóra loðnuverksmiðju á staðnum. Þá séu smærri útgerðir á staðnum og þetta allt skapar fjölbreytta flóru.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson