Alþingi Drífa var í átta ár varaþingmaður og átta ár kjörinn þingmaður.
Alþingi Drífa var í átta ár varaþingmaður og átta ár kjörinn þingmaður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drífa Hjartardóttir fæddist 1. febrúar 1950 í Reykjavík og æskuslóðirnar eru Fálkagata, Grænuhlíð og svo Miðbraut 2 á Seltjarnarnesi. „Ég átti mjög góða æsku þar sem ég bjó við mikið frjálsræði

Drífa Hjartardóttir fæddist 1. febrúar 1950 í Reykjavík og æskuslóðirnar eru Fálkagata, Grænuhlíð og svo Miðbraut 2 á Seltjarnarnesi.

„Ég átti mjög góða æsku þar sem ég bjó við mikið frjálsræði. Ég fór í sveit nokkur sumur á Ingjaldssand í Önundarfirði en þangað á ég ættir að rekja og þar kynntist ég sveitastörfum fyrst.“

Drífa gekk í Hlíðaskóla, Mýrarhúsaskóla og loks í Menntaskólann í Reykjavík.

„Ég giftist ung Skúla Lýðssyni frá Keldum og flutti að bænum árið 1969. Við hjónin tókum fljótlega við kúa- og fjárbúi og hófum mikla uppbyggingu á Keldum. Við vorum með búskap í 53 ár og meðfram búskapnum hófum við skógrækt upp úr 1980 sem fjölskyldan stundar enn og erum við búin að planta hátt í þremur milljónum trjáplantna í gróðursnautt landslag. Við hlutum síðar landgræðsluverðlaunin fyrir mikla landgræðslu og skógrækt.

Þegar ég flutti í sveitina ætlaði ég aldrei að taka þátt í pólitík eða ganga í kvenfélag, en raunin varð önnur. Ég gekk fljótlega í kvenfélagið Unni og fór fljótlega að skipta mér af skólamálum þegar elsti sonurinn fór í skóla. Ég stofnaði ásamt öðrum foreldrafélag og fyrr en varði var ég komin í skólanefnd og í hreppsnefnd þar sem ég átti sæti þar til ég varð þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1999, en var áður varaþingmaður í tvö kjörtímabil.“

Drífa var stjórnarformaður á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu í 25 ár og var í fjölmörgum nefndum á vegum sveitarfélagsins. Á þessum árum varð hún formaður Sambands sunnlenskra kvenna og síðan forseti kvenfélagasambands Íslands 1994-2000 og formaður Norrænu kvennasamtakanna (NHF).

„Þegar ég var kosin á Alþingi voru mér falin mörg trúnaðarstörf, m.a. var ég formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, fyrsta og eina konan sem hefur gegnt því starfi. Ég er einnig fyrsta konan sem er kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi.“

Drífa átti sæti í fjárlaganefnd nánast allan þingtímann sinn og sat í Norðurlandaráði. „Ég hitti þá marga framámenn í stjórnmálum og þjóðhöfðingja allra Norðurlandanna.“

Drífa var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna í nokkur ár. Í dag er hún í orðunefnd forseta Íslands, hún er virkur félagi í Rótarý, Oddfellow, kvenfélaginu Unni og Sjálfstæðisflokknum ásamt því að vera starfandi í ýmsum öðrum nefndum.

Á Keldum er Keldnakirkja og þar var Drífa formaður sóknarnefndar í fjöldamörg ár og meðhjálpari í kirkjunni. Hún var kosin á kirkjuþing árið 2014 og er núna á sínu þriðja kjörtímabili. Hún hefur nú verið forseti kirkjuþings í sjö ár. Áður en hún var kosin á kirkjuþing var hún sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, á árunum 2012 til 2014.

„Ég hefði aldrei getað tekið svona mikinn þátt í félagsmálum ef ekki hefði verið fyrir stuðning eiginmanns míns, Skúla. Við vorum mjög samtaka í búrekstrinum og ég elskaði að fara á traktor að slá túnin, stússa í fénu og sinna kúnum.“

Drífa var sæmd fálkaorðunni 17. júní 2022 og er heiðursfélagi Kvenfélagssambands Íslands.

„Ég hef átt því láni að fagna að hafa fengið tækifæri á að ferðast nánast um allan heim og er enn að ferðast. Núna síðast fór ég til Víetnam og reyni helst að fara á nýjar slóðir þegar tækifæri gefst til.“

Fjölskylda

Eiginmaður Drífu var Skúli Lýðsson, f. 7.8. 1947, d. 19.10. 2021, bóndi á Keldum á Rangárvöllum þar sem Drífa býr enn. Foreldrar Skúla voru hjónin Lýður Skúlason, f. 28.9. 1900, d. 10.12. 1968, bóndi á Keldum, og Jónína Þórunn Jónsdóttir, f. 18.2. 1913, d. 29.1. 2005, ljósmóðir.

Synir Drífu og Skúla eru: 1) Lýður, f. 23.6. 1969, vélfræðingur, Maki: Una Guðlaugsdóttir, starfsmaður í Fjársýslunni. Þau eru búsett í Reykjavík; 2) Hjörtur, f. 27.3. 1973, sjálfstætt starfandi, búsettur á Raufarhöfn. Maki: Ragna Sól Steinmuller, látin, þroskaþjálfi; 3) Skúli, f. 22.4. 1980, rafvirkjameistari. Maki: Melkorka Mjöll Kristinsdóttir kennari. Þau eru búsett á Akureyri. Barnabörn eru Drífa Lýðsdóttir, f. 2003, háskólanemi, Guðmundur Skúlason, f. 2006, framhaldsskólanemi, og Jón Ari Skúlason, f. 2009, grunnskólanemi.

Hálfsystkini Drífu sammæðra: Ingibjörg Hjartardóttir, Hjörtur Hjartarson, látinn, Anna Ásta Hjartardóttir, Björn Grétar Hjartarson, látinn, og Guðmundur Ingi Hjartarson. Systkini samfeðra: Kolbrún Norðdahl, látin, Örn Norðdahl, látinn, Hrafn Norðdahl, Hreggviður Norðdahl, Svala Norðdahl, Hrönn Norðdahl og Magnús Norðdahl.

Móðir Drífu var Jensína Guðmundsóttir, f. 9.9. 1928, d. 2.3. 2022, verslunarmaður, búsett á Seltjarnarnesi. Kjörfaðir Drífu var Hjörtur Hjartarson, f. 23.12. 1929, d. 24.7. 2008, vélfræðingur og kaupmaður, búsettur á Seltjarnarnesi. Faðir Drífu var Magnús Norðdahl, f. 3.1. 1909, d. 5.5. 1997.