Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Cauda Collective heldur tónleika í Hannesarholti 7. febrúar klukkan 20.15. Yfirskrift tónleikanna er Franskur febrúar. Þetta eru þriðju tónleikarnir í tónleikaröð Cauda Collective í Hannesarholti. Að þessu sinni skipa Cauda Collective: Björk Níelsdóttir sópran, Sólveig Magnúsdóttir flauta, Jane Ade Sutarjo píanó, Sigrún Harðardóttir fiðla, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóla og Þórdís Gerður Jónsdóttir selló.
„Við Þórdís stofnuðum Cauda Collective árið 2018 og við flytjum í grunninn sígilda tónlist og samtímatónlist. Þetta er hópur sem stækkar og minnkar eftir verkefnum og í fyrra voru flytjendur 25 talsins. Okkur langaði til að búa til vettvang þar sem við gætum spilað fjölbreytta tónlist og fengið tónskáld til að semja fyrir okkur. Við höfum frumflutt töluvert af verkum sem hafa verið sérstaklega samin fyrir okkur, útsett verk og samið sjálf, sömdum til dæmis jólalag Ríkisútvarpsins 2024. Við reynum líka að grafa upp áhugaverð verk sem hafa verið flutt erlendis en ekki heyrst hér á landi,“ segir Sigrún Harðardóttir fiðluleikari.
Hún byrjaði að læra á fiðlu einungis þriggja ára gömul og þá samkvæmt Suzuki-aðferðinni. „Þetta er japönsk aðferð sem var frekar ný hér á landi þegar ég var að byrja en ég á eldri systur sem var í einum af fyrstu árgöngunum sem lærðu þessa aðferð. Þá læra börn að spila eins og þau læra að tala, með því að hlusta og herma eftir. Seinna læra þau að lesa nótur. Núna kenni ég þessa aðferð börnum á leikskóla- og grunnskólaaldri,“ segir Sigrún, sem segist ekki muna eftir sér öðruvísi en með fiðlu í hendi.
Áhugaverð verk
Á efnisskrá á tónleikunum í Hannesarholti verða „Strengjatríó“ eftir Jean Cras (1879-1932) og „Söngvar frá Madagaskar“ og „Pavane fyrir látna prinsessu“ eftir Maurice Ravel (1875-1937). Einnig verður flutt „Næturljóð“ eftir Lili Boulanger (1893–1918), sem var árið 1913 fyrst kvenna til að hljóta hin virtu Prix de Rome-verðlaun í tónsmíðum.
„Við í Cauda Collective erum hrifin af franskri kammermúsík í impressjónískum stíl og efnisskrá tónleikanna endurspeglar það. Þetta verður frönsk impressjónísk kammerveisla,“ segir Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari. Hún byrjaði að læra á selló sjö ára og segir sellóið passa við alla tegund tónlistar og hægt sé að nota það á ótrúlega fjölbreyttan hátt. Hún segir „Söngva frá Madagaskar“ eftir Ravel vera óvenjulegt og áhugavert verk.
„Þetta er söngverk og hluti af textanum er ádeila á nýlendustefnu Frakka. Hljóðfæraleikararnir spila þarna í ólíkum tóntegundum. Þetta er ekki alveg jafn ljúfur Ravel og margir gera ráð fyrir og tónheimurinn er flókinn, sem er mjög spennandi. „Pavane fyrir látna prinsessu“ eftir Ravel er draumkennt og „Strengjatríó“ eftir Jean Cras er mjög fallegt og skemmtilegt verk,“ segir Þórdís og Sigrún bætir við að „Næturljóð“ eftir Lili Boulanger sé „dásamlega fallegt næturljóð, draumkennt og litríkt“.
Samhljómur bragðs og tóna
Með tónleikaskránni fylgir sérstakur vínlisti þar sem frönsk rauð- og hvítvín eru pöruð við hvert tónverk. Einnig býður veitingahús Hannesarholts upp á spennandi franska rétti.
„Okkur finnst gaman að breyta fyrirkomulaginu á klassískum tónleikum þannig að þeir séu ekki alveg fastir í formi eins og oft er heldur afslappaðir. Okkur er annt um að fólki líði vel á tónleikunum. Í Hannesarholti er nándin mikil og því skapast ákveðin stofutónleikastemming og notalegt andrúmsloft,“ segja Sigrún og Þórdís.
Miðar fást á tix.is og verða einnig seldir við innganginn í Hannesarholti.