Kammeróperan Oddur Arnþór leikur greifann og Jóna Kolbrún er Súsanna.
Kammeróperan Oddur Arnþór leikur greifann og Jóna Kolbrún er Súsanna. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kammeróperan, í samstarfi við Borgarleikhúsið, frumsýnir gamanóperuna Brúðkaup Fígarós eftir Mozart í nýrri íslenskri leikgerð og þýðingu Bjarna Thors Kristinssonar annað kvöld, sunnudaginn 2

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Kammeróperan, í samstarfi við Borgarleikhúsið, frumsýnir gamanóperuna Brúðkaup Fígarós eftir Mozart í nýrri íslenskri leikgerð og þýðingu Bjarna Thors Kristinssonar annað kvöld, sunnudaginn 2. febrúar, klukkan 20 á Nýja sviðinu. Í þessari uppfærslu segir frá greifa og greifynju, ungu og upprennandi athafnafólki, sem hefur tekist hið ómögulega og byggt upp farsæla starfsemi í kringum vínrækt í Mosfellssveit. Þó reynist ekki allt sem sýnist í þeirri paradís og láta starfsmenn vínræktunarinnar óréttlæti og kynferðislega áreitni greifans ekki viðgangast og reyna að snúa á yfirmann sinn til að sýna honum í tvo heimana.

Stofnendur Kammeróperunnar, Eggert Reginn Kjartansson, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Kristín Sveinsdóttir og Unnsteinn Árnason, syngja öll í sýningunni en auk þeirra koma fram í uppfærslunni þau Bryndís Guðjónsdóttir, Jón Svavar Jósefsson, Hildigunnur Einarsdóttir, Oddur Arnþór Jónsson, Ragnar Pétur Jóhannsson og Vera Hjördís Matsdóttir.

Syngja allt verkið á íslensku

Eitt af markmiðum Kammeróperunnar og hluti af hennar hugmyndafræði er að auka framboð á smærri óperusýningum, gera upplifun áhorfenda óformlegri en tíðkast hefur og óperu aðgengilegri fyrir breiðari áheyrendahóp hérlendis.

„Það sem við gerum í þessari uppfærslu er að við tökum þessa þekktu óperu, vinnum aðeins með óperuformið og reynum að færa óperuna nær því fólki sem fer kannski ekki mikið á slíkar sýningar,“ segir Bjarni Thor og bætir við að hluti af því sé að syngja á okkar ástkæra ylhýra í stað þess að syngja á ítölsku.

„Þannig skilur fólk um leið og það fylgist með allt sem er að gerast án þess að þurfa að lesa texta á einhverjum skjá. Við styttum síðan óperuna aðeins, því hún er dálítið löng, og breytum einnig því sem kallað er talsöngur á milli tónlistaratriðanna í venjulegar samtalssenur. Það má segja að úr verði hálfgerður óperusöngleikur þar sem verkið færist aðeins nær söngleikjaforminu.“

Þá telur Bjarni Thor mikið sóknarfæri fyrir óperuformið hér á landi. „Ópera er í raun allt sem leikhús hefur upp á að bjóða og allt sem tónlist hefur upp á að bjóða, bara sett saman. Maður fer ekki í leikhús í dag án þess að það sé einhver tónlist í verkinu en hún gerir oft gæfumuninn og setur punktinn yfir i-ið. Í okkar verki kemur tónlistin inn og fer í aðalhlutverk með leiklistinni.“

Vanur þýðingum og leikstjórn

Sjálfur er Bjarni Thor enginn nýgræðingur þegar kemur að leikstjórn og þýðingum en hann sá meðal annars um íslenska þýðingu á Hans og Grétu í uppsetningu Kammeróperunnar, verki sem hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna. Einnig leikstýrði hann verkinu Cosí fan tutte eftir Mozart sem sett var upp árið 2021. „Þar hófst þessi tilraunastarfsemi að krukka aðeins í verkin, staðfæra þau og þýða yfir á íslensku. Sem og að skipta út þessu sönglesi fyrir samtalssenur. Það er eiginlega ástæðan fyrir því að við erum í Brúðkaupi Fígarós núna því Cosí fan tutte mæltist mjög vel fyrir. Þess vegna var ákveðið að taka fyrir næstu óperu eftir Mozart,“ segir hann.

Inntur eftir því í kjölfarið hvort ákveðin áskorun hafi falist í því að yfirfæra verkið yfir í nútímasamfélag segir Bjarni Thor svo vera. Hún hafi bæði verið skemmtileg og krefjandi.

„Það er hægt að flytja óperur á mjög klassískan hátt og láta þær gerast á þeim tíma sem þær voru samdar, sem getur verið dásamleg upplifun, en galdurinn við leikhúsið er sá að þar hefur þú möguleika á að gera allt. Það eru nokkrar áskoranir í kringum þetta en við búum okkur til ákveðna bakgrunnssögu sem tengist óperunni kannski ekki beint en í upprunalegu óperunni eru greifahjón og í þessari uppfærslu hefur þeim tekist hið ómögulega; að rækta vín í gróðurhúsi á Íslandi en hjá okkur gerist verkið að mestu á vínbúgarði þeirra uppi í Mosfellssveit. Við sköpum okkur því sögusvið þar en reynum hins vegar að segja söguna eins, sögu sem snýst um samskipti fólksins, misskilning, reiði, framhjáhald, valdabaráttu og stéttaskiptingu. Við reynum að færa það í eitthvað sem við getum tengt inn í samfélagið í dag,“ segir hann og tekur fram að auðvitað séu gamlar óperur og leikrit að mörgu leyti barn síns tíma.

„Ef við þurfum alltaf að setja upp einhver gleraugu sem sýna okkur hvernig hlutirnir voru 1750 þá verður upplifunin kannski ekki alltaf jafn sterk. Stéttaskiptingin í okkar verki er til dæmis öðruvísi en hjá aðli og vinnufólki Evrópu fyrr á dögum. Hún er þó enn til staðar og yfirgangur valds hefur aðra birtingarmynd. Við reynum þar af leiðandi að halda því inni í verkinu. Við erum hins vegar ekki að skrúfa óperuna alveg í sundur og gera það sem okkur langar við hana. Ég tek óperuformið mjög alvarlega og reyni að virða verkið.“

Mikill áhugi fyrir óperuforminu

Áður en sýningin sjálf hefst býðst gestum að taka þátt í vínsmökkun sem greifinn stendur fyrir. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig sú hugmynd kom til.

„Við erum að prófa þetta í samstarfi við Borgarleikhúsið, það er að stækka þessa upplifun að fara í leikhús. Þar sem við erum með vínrækt í verkinu lá beinast við að láta persónur úr því sjá um vínsmökkunina. Í vínsmökkuninni eru þekkt vín en gestir fá um leið að kynnast starfseminni í vínrækt greifans í Mosfellssveit. Þannig tvinnum við saman það sem við erum að gera í sýningunni og venjulega vínsmökkun. Hún er ekki innifalin í miðaverðinu en fólk getur haft samband við miðasöluna til að kaupa aðgang að henni,“ útskýrir Bjarni Thor.

Aðspurður í framhaldinu segir hann að hið góða samstarf við Borgarleikhúsið hafi verið ótrúlega dýrmætt, sérstaklega þar sem engin þjóðarópera fyrirfinnist enn þá hér á landi.

„Það er mjög mikilvægt fyrir grasrótarfyrirtæki eins og Kammeróperuna að komast á fjalir og í faðm Borgarleikhússins. Ég vil taka það sérstaklega fram að samstarfið við starfsfólk leikhússins hefur verið mjög gott og skemmtilegt. Þetta samstarf auðveldar einnig aðgengi almennings að óperum. Það er mikill áhugi fyrir óperuforminu og við fundum það til dæmis hjá áskriftarkorthöfum leikhússins, sem margir hverjir völdu óperusýningu á kortin sín,“ segir hann og tekur fram að óperuaðdáendur geti svo sannarlega hugsað sér gott til glóðarinnar þar sem enn sé í undirbúningi stofnun þjóðaróperu sem eigi að einhverju leyti að hafa aðsetur í Þjóðleikhúsinu. „Það eru mörg grasrótarfélög sem eru að setja upp sýningar núna en grasrótin á náttúrlega alltaf að þrífast í góðu skjóli af sterkri opinberri stofnun sem þjóðaróperan mun verða þegar hún verður opnuð.“

Að sögn Bjarna Thors eru níu sýningar komnar í sölu og uppselt nú þegar á nokkrar þeirra. „Það er frábært að fara svona vel af stað. Við getum þakkað almennum óperuáhuga Borgarleikhúsgesta það að við fáum svona góða sölu strax í byrjun,“ segir hann að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir