Dularfullur Greifinn, leikinn af Pierre Niney, skoðar grímuna sem hann ber til að villa á sér heimildir.
Dularfullur Greifinn, leikinn af Pierre Niney, skoðar grímuna sem hann ber til að villa á sér heimildir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís og Smárabíó Greifinn af Monte Cristo / Le Comte de Monte-Cristo ★★★★· Leikstjórn og handrit: Matthieu Delaporte og Alexandre de La Patellière, byggt á skáldsögu Alexandre Dumas eldri. Aðalleikarar: Pierre Niney, Bastien Bouillon, Anaïs Demoustier, Anamaria Vartolomei og Laurent Lafitte. Frakkland, 2024. 178 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Ein dáðasta skáldsaga Frakka, Greifinn af Monte Cristo eftir Alexandre Dumas eldri (þeir voru nefnilega tveir), hefur margsinnis verið aðlöguð að sjónvarpsþátta- eða kvikmyndaforminu og skal engan undra. Í henni fléttast saman dramatísk örlagasaga, ástarsaga og spennusaga og höfðað er til þeirrar hliðar mannskepnunnar sem þykir jafnan ekki til fyrirmyndar, þ.e. að beita ofbeldi til að fá sitt fram. Sagan er líka ævintýraleg sem skýrir ekki síður vinsældir hennar, aðalpersónan dularfullur aðalsmaður – greifi – sem leikur tveimur skjöldum. Boðskapur sögunnar er gamalkunnur, að hefndin er í raun aldrei sæt og að réttara sé að láta æðri máttarvöld um hin maklegu málagjöld.

Slíkur fjöldi kvikmynda og sjónvarpsþátta hefur verið gerður eftir sögu Dumas að erfitt er að negla niður nákvæma tölu, m.a. vegna þess að sum verkin eru mjög lauslega byggð á bókinni og jafnvel aðeins innblásin af henni. En ljóst er þó að titlarnir skipta tugum og framleiðslulöndin eru að sama skapi afar mörg.

Kvikmyndin er mjög löng, rétt tæpar þrjár klukkustundir, enda mikil saga að segja í því annars knappa formi sem kvikmyndin er. Skáldsagan sjálf er yfir þúsund blaðsíður í sinni upphaflegu frönsku útgáfu, eftir því sem ofanritaður kemst næst, og því augljóslega mörgu sleppt í kvikmyndarforminu.

Greifinn af Monte Cristo segir af ungum sjóliða, Edmond Dantès (Pierre Niney), sem er sannarlega lukkunnar pamfíll í byrjun myndar. Hann er trúlofaður sinni heittelskuðu, Mercédes (Anaïs Demoustier), og brúðkaup á næsta leiti. Dantès fær stöðuhækkun, er gerður að kafteini og framtíðin virðist björt. Besti vinur hans Fernand (Bastien Buillon) verður þá heltekinn af afbrýðisemi og svíkur Dantès, lýgur því að hann sé hliðhollur Napóleóni sem gerður hefur verið útlægur og dvelur nú á eyjunni Elbu. Dantés er dæmdur til fangelsisvistar á eyjunni Monte Cristo undan ströndum Ítalíu.

Öll von virðist úti fyrir Dantès en eftir nokkurra ára afplánun kynnist hann presti og þau kynni gjörbreyta lífi hans. Presturinn vísar Dantès á fjársjóð mikinn og Dantès finnur hann, mörgum árum síðar, eftir að hafa tekist að flýja úr fangelsinu. Hann heldur til Frakklands vellauðugur og tekur sér titil greifa af Monte Cristo. Hyggst hann hefna sín, á bæði Fernand og öðrum sem sviku hann. Sú hefnd reynist flókin í framkvæmd og tímafrek en af tímanum hefur Dantès sannarlega nóg. Hann bregður sér í dulargervi sem Mercédes ein virðist sjá í gegnum.

Lítil breyting á 20 árum

Nú skal tekið fram að hér er mjög hratt farið yfir sögu og aðeins helstu atriði nefnd svo þeir sem ekki þekkja söguna geti notið hennar án spilliefna. Einhver munur er á kvikmyndaútgáfunni og bókinni, eðlilega, og breytingar hafa verið gerðar á sögu Dumas að einhverju leyti en hún er samt sem áður grunnurinn sem handritið er byggt á.

Handritið skrifuðu þeir Matthieu Delaporte og Alexandre de la Patellière og verður ekki betur séð en að þeir hafi leyst það verkefni vel af hendi. Að vísu er farið fullhratt yfir sögu í byrjun myndarinnar sem gæti mögulega skrifast á klippinguna. Hvað það er sem fær Fernand til að svíkja vin sinn svo grimmilega er ekki fyllilega ljóst og hefði mátt skýra ögn betur. Einnig má finna að förðun og gervum leikara, sumir þeirra eldast ekkert þrátt fyrir að 20 ár líði í sögunni og þá sérstaklega illmennið Gérard de Villefort (Laurent Lafitte). Verst er þó að Dantès breytist lítið sem ekkert, þrátt fyrir að dúsa í niðurgröfnu fangelsi í 15 ár. Breytingin á Dantès er hlægilega lítil og í raun fyndið að menn átti sig ekki á því hver hann er, 15 árum síðar. Minnir þetta á Súpermann sem enginn virðist þekkja þegar hann er kominn með gleraugu og gengur undir nafninu Clark Kent.

Ást í meinum

En þrátt fyrir þessa ágalla er myndin vel gerð að flestu leyti og bráðskemmtileg. Eitt atriði á sér stað í réttarsal og er hlægilegt, þó svo að það eigi líklega ekki að vera það. Minnti ofanritaðan á bandaríska sápuóperu í fáránleika sínum og uppskrúfaðri dramatík.

Ástin kemur þó nokkuð við sögu í myndinni og er það ást í meinum. Mercédès elskar enn Dantès, þessi elskar hinn og svo framvegis. Öll þessi ást léttir mjög á andúmslofti myndarinnar og jafnvægið er gott á milli ástaratriða og hinna dramatísku. Leikstjórar og handritshöfundar myndarinnar, þeir Matthieu Delaporte og Alexandre de la Patellière, halda af öryggi um stjórnartaumana en sem fyrr segir hefðu þeir gjarnan mátt skoða betur fyrsta hlutann, þann sem snýr að ást Fernands á Mercédes, og gefa honum ögn meira vægi eða pláss.

Leikurinn hæfir efninu á heildina litið vel, illmennin eru auðþekkjanleg frá þeim hjartahreinu og áhugavert er valið á leikara í hlutverk Dantès. Sá heitir Pierre Niney og er alls ekki með hið dæmigerða útlit hetjunnar, frekar fíngerður, stóreygur og grannur og minnir nokkuð á bandaríska leikarann Adrien Brody. Niney fer vaxandi í hlutverki sínu eftir því sem líður á myndina og ekki sakar heldur frábær búningahönnun Thierry Delettre. Búningar myndarinnar eru algjört augnayndi og líka mikilvægir sögunni í heild, ekki síður en ægifagurt landslagið og glæsilegar leikmyndirnar. Þrumandi, frumsamin tónlist Jérôme Rebotier fyrir myndina fellur eins og flís við rass og hefur tilætluð áhrif, þ.e. ýmist að örva púls áhorfenda eða hægja á honum. Vel heppnuð en þó ekki eftirminnileg.

Greifinn af Monte Cristo er ekki gallalaus kvikmynd en skemmtilegra ævintýri í formi kvikmyndar hin síðustu misseri er vandfundið.