Þegar Ragnheiður Þórhallsdóttir, eða Ransy Sandra Morr, eins og hún kallaði sig í Bandaríkjunum, féll frá árið 2007, birtist andlátsfregn í Daily Press, blaðinu sem hún starfaði hjá í hálfan fjórða áratug sem fréttaljósmyndari í borginni Newport News í Virginíu. Fram kom að hún hefði snert líf ófárra með ástríðu sinni fyrir ljósmyndun. Flestir sem þekktu hana fengu á einhverjum tímapunkti mynd sína birta í blaðinu. „Hún fangaði anda nærsamfélagsins og sumar af eftirminnilegustu ljósmyndum hennar prýða veggi Sjóminjasafnsins. Hún hlaut á löngum ferli fjölmargar viðurkenningar, hér um slóðir og erlendis, fyrir myndir sínar.“
Ljósmyndir eftir Ransy Morr birtust annað veifið í Morgunblaðinu og fleiri íslenskum blöðum og tengdust þá oftar en ekki einhverjum Íslandsviðburðum vestra. Hún var til dæmis á staðnum 1987 þegar stytta Leifs heppna Eiríkssonar, sem var í heiðurssæti Íslandsdeildar Heimssýningarinnar í New York 1939, hlaut samastað í Newport News, og þegar nafni Íslands var haldið á loft á alparósahátíð í Virginíu 1990. Svo voru það þorrablót, skrúðgöngur og önnur mannamót.
Árið 1991 flutti Morgunblaðið skemmtilega frétt, þar sem fram kom að Ransy Morr hefði farið með sigur af hólmi í happdrætti í tilefni af þorrablóti Íslensk-ameríska félagsins í Norfolk, sem 175 manns sóttu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Ransy varð líka hlutskörpust í happdrættinu árið áður. Aðalvinningurinn var flugmiði til Íslands, báðar leiðir. „Búast má við að Ransy Morr verði einnig meðal gesta á þorrablóti næsta árs,“ sagði Morgunblaðið en myndirnar sem fylgdu fréttinni voru að sjálfsögðu eftir Ransy.
Árið 1996 skaut Ransy upp kollinum í árlegri skötuveislu formanns Íslendingafélagsins í Norfolk, Sesselju Siggeirsdóttur Seifert, sem hermt var af í Morgunblaðinu.
Síðast birtust myndir eftir Ransy í íslensku blaði árið 2002, þegar hið aldna en öfluga víkingaskip Týr „sigldi“ með lotningu gegnum miðborg Norfolk með prúðbúna „áhöfnina“ innanborðs.
Það er aldeilis ómögulegt
Ragnheiður Þórhallsdóttir fæddist í Reykjavík 2. apríl 1932. Hún ólst upp á Engjavegi í Sogamýrinni í Reykjavík og gekk í Laugarnesskólann og síðan í Kvennaskólann. Foreldrar hennar voru Þórhallur Jóhannsson (1888-1967), og Aðalheiður Í. Albertsdóttir (1900-1983). Systir Ragnheiðar var Hjördís (1933-2014).
Tvítug að aldri giftist Ragnheiður manni sínum, Earle Morr, sem þá var í flughernum á Keflavíkurflugvelli, og fluttist skömmu síðar til Bandaríkjanna, þar sem hún bjó alla tíð eftir það.
Ragnheiður sagði frá kynnum þeirra í mjög hressilegu samtali við Vikuna, sem sótti hana heim til Bandaríkjanna árið 1961, þar sem fram kom að þau gengu í heilagt hjónaband aðeins tveimur vikum eftir að þau sáust fyrst.
„Það er aldeilis ómögulegt. Þú hefur nú varla þekkt hann náið eftir hálfsmánaðar kynningu?“ varð blaðamanni að orði. Það var Gísli Sigurðsson sem síðar átti eftir að hafa umsjón með Lesbók Morgunblaðsins um langt árabil.
„Nei, auðvitað þekkti ég hann mjög lítið. En það voru sérstakar ástæður. Ég veit ekki, hvort ég á segja frá því,“ svaraði Ragnheiður.
„Láttu það bara koma, – nema það sé eitthvað mjög slæmt.“
„Það var svo sem ekkert ljótt og þó kannski pínulítið. Það var nefnilega þannig, að vinkona mín var með þessum strák, og svo var það á balli á Borginni, að mér tókst að stinga undan henni.“
„Já, ég skil. En ég sé nú samt ekki hvers vegna þú þurftir að giftast honum eftir hálfan mánuð fyrir því,“ sagði Gísli.
„Jú, hann var að fara vestur til Bandaríkjanna eftir hálfan mánuð, og ég vildi sýna vinkonu minni, að ég gæti haldið því, sem ég næði í. – Svo, fyrst hann vildi það, þá sló ég bara til, og við giftum okkur.“
Innsæið hefur greinilega reynst Ragnheiði vel en hún var hamingjusamlega gift Earle til dauðadags. Earle, sem var fæddur 1929, lifði eiginkonu sína en hann lést 2023.
Leiddist aðgerðaleysið
Við komuna út festu Ragnheiður og Earle kaup á einbýlishúsi í borginni Newport News í Virginíuríki. Earle gegndi fyrst um sinn áfram hermennsku og var fyrir vikið mikið að heiman. Ragnheiði leiddist aðgerðaleysið, svo að hún fór að svipast um eftir vinnu og réð sig til starfa á ljósmyndadeild stærsta dagblaðsins í borginni, Daily Press.
Þegar Vikan spurði Ragnheiði hvers vegna það starf hefði orðið fyrir valinu svaraði hún: „Ég veit það varla. Dagblaðið auglýsti eftir stúlku til ljósmyndavinnu, og þeir urðu svo undrandi, þegar stúlka frá Íslandi kom og sótti um – og var ekki eskimói, – að þeir réðu mig.“
Og hún lét vel af starfinu. „Mér finnst alveg dásamlegt að vinna á blaðinu; sérstaklega er yfirmaður minn á Ijósmyndadeildinni prýðilegur maður. Hann heitir Bill.“
Morgunblaðið heimsótti Ragnheiði átta árum síðar, vorið 1969, og í því viðtali var lýst dæmigerðum degi í lífi hennar.
„Virkur dagur hjá Ragnheiði byrjar með því, að hún ekur börnum sínum í skóla klukkan átta að morgni, en hálftíma síðar mætir hún sjálf á vinnustað sínum hjá Daily Press, blaðinu sem hún vinnur við. Þar bíður hennar erilsamur en viðburðaríkur vinnudagur, sem stendur til klukkan hálfsex, en hún vinnur fimm daga vikunnar. Verkefni hennar eru af öllu hugsanlegu tagi, sem ljósmyndari getur búizt við. Hún tekur myndir af slysum en ekki síður fréttamyndir af félagsfundum, einstöku fólki og ótal fleiru, sem fréttnæmt þykir hverju sinni.“
Þarna var Earle útskrifaður úr hernum og vann sem skipasmiður við skipasmíðastöð í Newport News, sem sögð var sennilega einhver sú stærsta í heimi. Þar hefðu stærstu flugvélamóðurskip Bandaríkjanna eins og Enterprise og John F. Kennedy verið smíðuð.
Vann til fyrstu verðlauna
Þegar Morgunblaðið var hjá henni hafði Ragnheiður nýlega unnið til fyrstu verðlauna í blaðaljósmyndarakeppni í Virginíuríki, þar sem ljósmyndarar Hvíta hússins voru meðal dómara.
„Ég hef aldrei orðið jafn undrandi á ævinni og þegar ég frétti, að ég hefði unnið fyrstu verðlaun fyrir það, sem hér er kallað ljósmyndasaga, (picture-story), ekki hvað sízt þar sem ég vissi, að þessir háu herrar í Washington áttu í hlut,“ sagði Ragnheiður og brosti.
„Ég hélt svo sannarlega, að myndir fjölmargra annarra blaðaljósmyndara hefðu verið betri en mínar, og er raunar bókstaflega sannfærð um það enn. Ég er samt þakklát fyrir, að dómararnir litu myndir mínar þeim augum, sem þeir gerðu.“
Þarna hafði Ragnheiður unnið á blaðinu í áratug. Hún byrjaði á því að framkalla myndir og þess háttar á ljósmyndadeildinni, en keypti sér síðan myndavél og fór að taka myndir sjálf. „Ég held sjálf, að það hafi gengið mjög sæmilega, enda þótt ég hafi ekki gengið í annan skóla en skóla reynslunnar,“ sagði hún við Morgunblaðið.
Blaðið, sem Ragnheiður starfaði við, kom árið 1969 út í tveimur útgáfum, þ.e. á morgnana og á kvöldin. Samanlagður eintakafjöldi beggja blaðanna var 90 þúsund. Fyrri útgáfan hét Daily Press, en kvöldútgáfan Times Herald og hvort þeirra um sig var 50-60 síður, og tvo daga vikunnar fóru þau upp í 100 síður. Þarna störfuðu hundrað blaðamenn og 12 ljósmyndarar. Bæði blöðin fluttu allar almennar fréttir, en sérstaklega höfðu þau getið sér gott orð í Virginíu fyrir íþróttafréttir.
Viðburðaríkt starf
Ragnheiður sagði starf sitt á blaðinu mjög viðburðaríkt. Hún gat þó ekki sagt, að hún hefði lent í neinum ævintýrum, en það væri alltaf eitthvað spennandi að koma fyrir. „Mér verður alltaf sérstaklega í fersku minni, þegar flugmóðurskipið John F. Kennedy var afhent skipherranum og áhöfn skipsins. Það var gert með feiknarlegri viðhöfn – og nær öll Kennedyfjölskyldan var viðstödd. Mér gafst tækifæri vegna blaðsins, sem ég starfa við, að vera viðstödd og tók son minn með mér. Uppi á efsta þilfari var komið fyrir stærðar köku í líkamsmynd af skipinu, og Caroline Kennedy dóttir John F. Kennedys skar kökuna og útbýtti. Sonur minn fékk einn kökubita úr hendi hennar og það var víst einhver stærsti viðburðurinn, sem orðið hefur í lífi hans til þessa, að honum fannst.“
Þegar Vikan sótti Ragnheiði heim átti hún einn son, John, en þegar Morgunblaðið stakk við stafni hafði dóttirin, Sandra, bæst í hópinn.
Þegar síðarnefnda viðtalið var tekið hafði Ragnheiður búið í tæpa tvo áratugi ytra. Morgunblaðið hjó þó eftir því að hún talaði enn prýðilega íslensku án nokkurs erlends hreims, „enda talar hún íslenzku á hverjum degi því að helztu vinkonur hennar eru íslenzkar konur, 8 að tölu, sem búsettar eru í Newport News eða nágrenni“.
„Við hittumst alltaf öðru hvoru, bökum pönnukökur saman og búum til saltkjöt og kæfu á íslenzkan máta,“ sagði Ragnheiður.
Að ekki sé talað um allan gestaganginn. „Það er oft heima á Íslandi talað um nýlendur Íslendinga í Vesturheimi, en ég held að tiltölulega fáir geri sér grein fyrir því, að á þessu svæði Newport News, Hampton og Norfolk er nú talsverð nýlenda íslenzks fólks, sem stendur sennilega í ríkara sambandi við fólkið heima en nokkur önnur Íslendingabyggð í Ameríku. Hingað eru stöðugt að koma í heimsóknir ættingjar að heiman og þá náttúrlega fyrst og fremst foreldrar og systkini. Það má segja, að hér sé nær alltaf einhver Íslendingur í heimsókn, pabbi og mamma, einhver bróðir eða systir, o.s.frv. Þá förum við sjálf gjarnan með ekki of löngu millibili í heimsókn til Íslands,“ sagði Ragnheiður við Moggann.
Fyrst og fremst Íslendingar
Löngu síðar, eða 1996, birtist í DV lítil frétt um jólaskrúðgöngu í Norfolk, þar sem skrautvagn Íslendingafélagsins Týr var vandlega skreyttur í anda gamla landsins. Ragnheiður lét sig ekki vanta og eftir henni var haft að Íslendingar í Norfolk væru stoltir af upprunanum og væru fyrst og fremst Íslendingar. Það vildu þeir að endurspeglaðist í skrautvagninum.
1999 heyrði DV aftur hljóðið í Ragnheiði fyrir jólin, þar sem fram kom að í Íslensk-ameríska félaginu væru 200 manns, þar af 150 Íslendingar. Þá hugsaði hún enn heim. „Norfolk er stórt svæði og fólkið dreifist víða. Félaginu hefur tekist að halda hópnum vel saman með fjölmörgum viðburðum árið um kring. Nú erum við komin á fullt við að undirbúa jólaball fyrir krakkana sem haldið verður á sunnudaginn. Þar verða sungin íslensk jólalög og svo bjóðum við jólaköku, pönnukökur, kleinur og fleira góðgæti,“ sagði hún.
Í viðtalinu í Vikunni, 1961, kom fram að Ragnheiði þætti talsverður munur á lifnaðarháttum þar vestra og heima.
„Jú, það er veðráttan, sem á þátt í því. Ég get ekki sagt, að ég komi inn fyrir hússins dyr á sumrin nema til þess að sofa. Það flytja sig allir út, og flestallir eiga báta og vatnaskíði. Það er mjög heitt á sumrin, stundum óþægilega heitt, og allir reyna að hafa kælingu í íbúðarhúsunum, sérstaklega í svefnherbergjunum.“
– Og húshaldið verður þá mjög frábrugðið, er ekki svo?
„Nokkuð svo. Við förum á þessa súpermarkaði einu sinni í viku og birgjum okkur upp að matvöru.“
– Eigið þið bíl?
„Já, allir eiga bil, og margir eiga tvo.“
Það þótti Vikunni með nokkrum ólíkindum.
Tímaritið stóðst ekki mátið og spurði Ragnheiði um muninn á íslenskum og bandarískum karlmönnum.
„Ég mundi segja, að íslenzkir karlmenn séu ekki eins miklir herrar, þegar kvenfólk er annars vegar. Þeir bandarísku fara út úr bílnum og opna fyrir mann dyrnar, og þeir opna dyrnar á húsinu og hjálpa konunni í kápuna, að minnsta kosti, þegar hjón fara saman út. Þeir taka nei fyrir nei og ekkert þras með það. Íslenzkir karlmenn fara öðruvísi að. Ég mundi segja, að þeir færu miklu beinni leið að markinu, sem er auðvitað það sama hjá báðum.“
– Já, við erum víst óheflaðir ruddar.
„Onei, það er nú ekki rétt. En þið eruð ekkert sérstaklega fágaðir eða rómantískir í þessum málum.“
– Hvernig ætti rómantík að þrífast í rigningunni heima? Það yrði nú einhver útsynningsbragur á henni.
„Það má enginn skilja þetta svo, að mér líki ekki vel við landa mína. Ég hef bara orðið vör við þennan mun á framkomu gagnvart kvenfólki,“ áréttaði Ragnheiður.
Miklir fjölskyldumenn
Í Morgunblaðsviðtalinu sagði hún að bandarískir eiginmenn væru yfirleitt miklir fjölskyldumenn og hefðu mikla ánægju af að leika sér við börn sín.
Ragnheiður viðurkenndi í Vikunni að hún fengi stundum heimþrá og það sem hún saknaði einna mest voru dansstaðir eins og Borgin og Röðull sem voru mjög vinsælir staðir, meðan hún var heima. Engir slíkir staðir voru í Newport News. „Við íslenzku konurnar förum mjög sjaldan út á dansstaði og ekki oft í bíó.“
Báðum viðtölum, sem mest hefur verið vitnað til hér, í Vikunni og Morgunbaðinu, lauk með því að Ragnheiður bað fyrir kveðjur heim til vina og vandamanna á Fróni, eins og algengt var að Íslendingar búsettir erlendis gerðu í þá tíð.