Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Alþingi kemur saman þriðjudaginn 4. febrúar þegar rúmir tveir mánuðir eru liðnir frá kjördegi, 30. nóvember, og ný ríkisstjórn hefur setið frá 21. desember.
Almennt séð er óviðunandi að svo langan tíma taki að formfesta úrslit þingkosninga og kalla nýkjörið þing saman til síns fyrsta fundar. Var það í raun ætlunin með kosningalögunum sem tóku gildi 1. janúar 2022 að hanna regluverk sem virkaði á þennan veg?
Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu að kosningalögunum, sem samið var af nefnd og flutt af þáverandi þingforseta, Steingrími J. Sigfússyni, var tilgangur laganna að einfalda regluverk vegna kosninga. Um frumvarpið var ekki ágreiningur á þingi, sé tekið mið af áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Hvað sem regluverkinu líður er löngu tímabært að þing komi saman, stefnuræða forsætisráðherra verði flutt og kynnt hvaða frumvörp nýir ráðherrar ætla að leggja fyrir þingið.
Listi um frumvörpin er birtur á þingmálaskrá sem fylgir stefnuræðu forsætisráðherra. Yfirleitt er skráin unnin þannig að ráðherra viðkomandi málaflokks setur þar frumvörp sem snerta verkefnasvið hans. Ekki felst nein skuldbinding um framlagningu frumvarpsins. Af skránni má ráða hvaða frumvörp eru í smíðum í hverju ráðuneyti fyrir sig. Með samráðsgátt og frumvörpum sem þar eru kynnt hefur fréttagildi skrárinnar minnkað.
Fyrir þá sem unnið hafa að gerð þingsmálaskráa kom á óvart að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra taldi sér ekki fært að sækja mikilvægan fund norrænna forsætisráðherra og Finnlandsforseta um öryggismál þjóðanna þegar um 10 dagar voru til þingsetningar.
Að forsætisráðherra telji sig þurfa að vera með puttana í því hvað fer á þessa skrá er nýmæli. Ef til vill áttar forsætisráðherra sig ekki á því að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur ber hver ráðherra ábyrgð á þeim málaflokkum sem undir hann eru færðir með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Þingmál sem forsætisráðherra flytur ber oft að með þeim hætti að þeirra er ekki getið á þingmálaskrá enda er hún ekki á nokkurn hátt bindandi.
Samfylkingarmaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, boðaði að væntanlega á fyrsta degi nýs þings myndi hann leggja fram frumvarp til laga í því skyni að bregðast við óvissuástandi í orkumálum vegna dóms í héraði sem felldi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi. Markmið hans sé að koma í veg fyrir frekari tafir á virkjuninni.
Verði frumvarpið á þann veg sem ráðherrann boðar verður að líkindum engin andstaða við það á þingi. Þannig kynnast menn því á einu fyrsta máli nýkjörins þings hvaða áhrif það hefur á umræður um virkjanamál að Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) og Píratar eiga ekki lengur neina þingmenn.
Flokkunum var hafnað í þingkosningunum 30. nóvember og þar með þagna afturhaldssamar raddir þeirra í þingsalnum. Aðferðir þeirra til að tefja afgreiðslu mála af þessu tagi eru ekki í verkfærakistu stjórnarandstöðunnar. Hún hvatti til þess að ráðherrann eyddi tafarlaust öllum vafa vegna Hvammsvirkjunar með bráðabirgðalögum.
Á liðnu hausti lá fyrir að annaðhvort yrði samþykkt heimild til að fresta áfram framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum eða gömul lagaákvæði um þau tækju að nýju gildi nú um áramótin. Einmitt það gerðist.
Í stjórnarsáttmálanum frá 21. desember er ekkert minnst á úrlausn þessa máls og því er ekki vitað um stefnu ríkisstjórnarinnar.
Menntamálaráðherra Ásthildur Lóa Þórsdóttir grunnskólakennari kemur úr Flokki fólksins. Sá félagsskapur hefur ekki, svo vitað sé, mótað sér neina stefnu í menntamálum. Ráðherrann núverandi lýsti í þingumræðum í júní 2022 ánægju með frumvarp sem þá var lagt fram um að leggja samræmd próf niður, að minnsta kosti tímabundið. Hún tók þó jafnframt fram í þingræðu að hún væri „í sjálfu sér alveg á því að það mætti fleygja þessum prófum og aldrei taka þau upp“.
Ætlar ráðherrann að fylgja þessari róttæku skoðun sinni eftir nú í upphafi þings? Það verður að skýrast fljótt vegna óvissunnar sem skapaðist um áramótin.
Hér á þessum stað hefur verið varað við niðurfellingu samræmds mælikvarða á skólastarf og hvatt til haldgóðra upplýsinga um stöðu einstakra skóla til að tryggja sem mest gæði menntunar og bestan árangur nemenda.
Tölur um lækkun verðbólgu sýna að þar gengur allt eftir eins og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sagði fyrir kosningar. Eina framlag ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í efnahags- og ríkisfjármálum hefur verið að óska eftir tillögum um hagsýni í ríkisrekstri í samráðsgátt stjórnvalda. Hátt í 4.000 tillögur bárust áður en gáttinni var lokað 23. janúar. Nú er málið í nefnd.
Allir sem þekkja rekstur ríkisins vita að útgjöldin eru mest vegna launa- og velferðarmála. Eigi að ná markverðum árangri í ríkissparnaði verður að taka væna sneið af þessum útgjöldum og létta á skyldum ríkisins sem vinnuveitanda og greiðanda félagslegra bóta.
Margar tillögur í þessa veru voru sendar ríkisstjórninni í samráðsgáttinni ásamt hugmyndum um sölu ríkiseigna til að minnka ríkisumsvif varanlega. Brátt reynir á viðbrögð stjórnarflokkanna gagnvart umbeðnum tillögum.
Til þessa hefur kyrrstaða einkennt stjórnina. Hún boðar hins vegar athafnir en ekki aðgerðarleysi. Hefur stjórnin burði til að rjúfa kyrrstöðuna? Innanmein í samstafinu kunna að hindra það.