Gamall æskudraumur, að ganga í Himalajafjöllunum, rættist hjá Soffíu S. Sigurgeirsdóttur þegar hún loksins lét verða af því í fyrra. Með henni í för var Lukka Pálsdóttir ásamt sérpa-fjallgöngukonum og innlendum burðarkonum, en eitt markmið ferðarinnar var að stuðla að jákvæðum breytingum og skapa fleiri tækifæri fyrir nepalskar konur í háfjallamennsku. Leiðangurinn, Climb for change, stendur fyrir söfnun til styrktar konum í Nepal og er enn hægt að leggja málefninu lið.
„Ég vildi finna leið til að efla nepalskar konur og bað svo Lukku að koma með,“ segir Soffía, en þess má geta að leiðsögukonurnar Pasang Lhamu Sherpa Akita, Purnima Shrestha, Pasang Doma Sherpa og Pasang Jangmu eru margreyndar í fjallamennskunni en sem dæmi þá hefur Purnima Shrestha klifið Everest fjórum sinnum og fór fyrst einstaklinga þrisvar upp á Everest á einni vertíð vorið 2024. Pasang Lhamu Sherpa Akita leiddi fyrstu nepölsku kvenleiðangrana á K2 og Annapurna og eru þær tvær þjóðþekktar í Nepal og í fjallagöngugeiranum á heimsvísu og Pasang Lhamu Sherpa Akita er sannkölluð náttúruafl og talskona fyrir kynjajafnrétti í fjallamennsku.
Soffía og Lukka sögðu ferðina hafa verið stórkostlega og komu þær breyttar til baka.
Trítluðu með fjörutíu kíló
„Við vildum gefa þessum konum tækifæri, en hefðin er ekki að leita til kvenna til að leiðsegja,“ segir Lukka og nefnir að um leið og þessar konur fá tækifæri til að leiða göngur, öðlist þær reynslu og geti sett það á ferilskrána. Allar konurnar fengu gefins háfjallaföt frá 66°, en þær stöllur fóru út klyfjaðar af töskum fullum af fötum.
„Eins fengum við fjallgöngukonu með okkur í lið til að ljósmynda ferðina og í samstarfi við 66° og Artasan fengum við fé til að geta keypt af henni þjónustu, en hún var einnig leiðsögumaður. Þetta var hennar fyrsta verkefni sem ljósmyndari í háfjöllunum,“ segir Soffía en það er einmitt áðurnefnd Purnima Shrestha, Everestfari með meiru.
Í hópnum voru samtals tíu konur, tvær íslenskar og átta nepalskar.
„Ferðin var algjört ævintýri!“ segir Lukka og Soffía tekur undir það.
„Þegar við komum til Katmandu höfðu í vikunni áður verið mikil flóð þannig að ástandið var svakalegt og vegir enn víða í sundur,“ segir Soffía en það urðu fagnaðarfundir þegar hún hitti Pasang Lhamu Akita sem hún hafði verið í sambandi við í heilt ár til að undirbúa ferðina.
„Það var gaman að sjá þær hittast, því þær voru greinilega búnar að ná djúpri tengingu,“ segir Lukka og brosir.
Ferðin hófst á tveggja daga bílferð í afar erfiðum skilyrðum, en vegna flóðanna og veðurs var ekki hægt að fljúga til Lukla, eins hættulegasta flugvallar heims. Þær fóru þó þaðan til baka, síðasta vélin sem fór í loftið áður en flugvellinum var lokað í marga daga vegna veðurs.
Bílferðin var nokkuð ævintýraleg og mikill hristingur alla leiðina.
„Þetta voru eiginlega ekki vegir,“ segir Soffía og segja þær meðalhraðann hafa verið á við röskan gönguhraða.
„Við vorum fjórar í bílnum en hittum svo burðarkonurnar í þrjú þúsund metra hæð og byrjuðum á að ganga kílómetra niður í 2.300 metra,“ segir Soffía.
„Við vorum með tvær töskur hvor, fjörutíu kíló á mann. Við vorum alltaf að bíða eftir uxunum en þessar lágvöxnu burðarkonur bundu tvær og tvær saman og skelltu þessu á bakið og gengu niður mjög bratta og strembna leið,“ segir Lukka.
„Við áttum alveg erfitt með að labba þarna með litla bakpoka en þær trítluðu þetta. Algjörar hetjur!“
Fraus í vatnsbrúsum
Fyrsta nóttin í fjöllunum var eftirminnileg, en Soffía fékk heiftarlega matareitrun og aðstæður í kofanum voru mjög frumstæðar.
„Þetta var versti gististaðurinn í allri ferðinni og varla hægt að segja að þarna hafi verið klósett; bara gat í gólfinu og ekkert ljós,“ segir Lukka og segir að sem betur fer hafi næstu gististaðir verið betri.
Oft beit kuldaboli vel í kinnarnar.
„Um leið og við vorum komnar í fjögur þúsund metra var mikið frost á nóttunni. Við gengum upp í grunnbúðir Everest, sem var notað sem hæðaraðlögun,“ segir Soffía og Lukka nefnir að það hafi verið kaldur dagur.
„Við gengum þarna í myrkrinu í 25 stiga frosti en Soffía bjargaði mér með að lána mér buxur. Ég var næstum því hætt við að fara lengra en eftir heitt te fékk ég aukna orku. Það var gaman að sjá grunnbúðir Everest en þarna voru engin tjöld á þessum tíma,“ segir Lukka.
„Þetta er mesti kuldi sem ég hef upplifað!“ segir Soffía en næstu dagar voru aðeins minna kaldir. Þó fraus stundum í vatnsbrúsum sem voru við rúm þeirra í tehúsunum og svefnpokar voru hrímaðir að morgni.
„Kuldinn var inn að beini, en fjallið sem við fórum á, Lobuche, er í 6.119 metra hæð og tók tólf daga að ganga að grunnbúðum þess fjalls,“ segir Soffía og segir þunna loftið hafi verið mestu áskorunina.
„Við fundum ekki fyrir háfjallaveiki en þunna loftið tók á,“ segir Lukka, en hún lenti í því að vera með mjög lága súrefnismettun, lægst 63%. Hún tók því þá ákvörðun að leggja ekki í síðasta legginn, upp á toppinn, en Soffía hélt ótrauð áfram ásamt leiðsögukonunum.
„Ég var mjög tvístígandi en ég fann að sjón og heyrn var ekki eins og hún átti að vera. Ég var alveg sátt við að sleppa síðasta deginum því ég var búin að upplifa svo svakalega mikið,“ segir Lukka og vildi ekki taka óþarfa áhættu.
Erfiðasti dagur lífsins
„Það var mjög erfitt að komast á toppinn,“ segir Soffía, en lagt var af stað klukkan eitt um nótt og toppnum náð kl. 7.30 um morguninn.
„Maður tók bókstaflega eitt skref í einu og þurfti svo að ná andanum inni á milli. Þetta var mjög hæg uppganga og gangan tæknilega erfið. Að standa á toppnum var algjörlega magnað; það hægist einhvern veginn á allri skynjun og maður er meðvitaður um hvern einasta andardrátt. Þarna var gríðarleg stilla og tuttugu stiga frost. Það er allt á sterum þarna,“ segir Soffía.
„Dagurinn sem ég toppaði var erfiðasti dagur lífs míns, líkamlega. Fyrir utan að eignast frumburðinn,“ segir hún og hlær.
„Náttúrufegurðin er stórkostleg og maður er svo lítill þarna innan um fjöllin. Ég var aldrei smeyk,“ segir Soffía, en alls tók gangan tuttugu daga en nokkra daga fyrir og eftir gistu þær í Katmandu á fínum hótelum.
„Eftir ferðina upplifðum við að við værum svo léttar. Líkaminn var eins og fis; þetta var ótrúleg líðan,“ segir Lukka.
„Og ferðin var lífsbreytandi upplifun,“ segir Soffía að lokum.
Lukka og Soffía hyggjast halda áfram að safna fyrir þessar konur og vilja vekja athygli á þeim. Þær segjast vel get mælt með þessum leiðsögukonum fyrir alla Íslendinga sem hyggjast ganga í Himalajafjöllunum. Climb for change er á Instagram og hægt að skoða þar fallegar myndir. Einnig má styrkja málefnið á fundrazr.com og hægt er að leggja beint inn á bankareikning söfnunarinnar hér á landi, kt. 5704220410, bankareikningur 0517-14-000002.