Margrét Gunnlaugsdóttir er lögfræðingur Læknafélags Íslands.
Margrét Gunnlaugsdóttir er lögfræðingur Læknafélags Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessa vikuna var ég að ljúka við að lesa bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur Í skugga trjánna sem ég eins og fleiri fékk í jólagjöf. Bókin er yndisleg aflestrar þrátt fyrir að hún fjalli um erfið viðfangsefni eins og aðdraganda tveggja hjónaskilnaða

Þessa vikuna var ég að ljúka við að lesa bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur Í skugga trjánna sem ég eins og fleiri fékk í jólagjöf. Bókin er yndisleg aflestrar þrátt fyrir að hún fjalli um erfið viðfangsefni eins og aðdraganda tveggja hjónaskilnaða. Bókin er augljóslega sjálfsævisöguleg og ekki hægt annað en að dást að höfundi fyrir hvað hún gengur nálægt sjálfri sér þegar hún lýsir sambandi sínu við eiginmennina tvo.

Erlendar bækur sem ég hef lesið nýverið er m.a. Yellowface eftir R.F. Kuang. Sagan segir af ungri konu sem kemst yfir handrit vinkonu sinnar og gefur út undir eigin nafni. Vinkonan, sem hafði notið umtalsverðrar velgengni sem rithöfundur, deyr óvænt í upphafi sögunnar. Bókin slær í gegn og í kjölfarið fær aðalsöguhetjan viðurkenningu og upphefð í bókmenntaheiminum sem hana hafði lengi þráð. Um leið og söguhetjan lifir í stöðugum ótta um að upp um hana komist þarf hún að verjast gagnrýni fyrir að skrifa um kínverskt söguefni án þess að vera kínversk. Bókin er sum sé spennusaga sem á sama tíma veltir upp spurningum um menningarnám og slaufun sem við þekkjum orðið í nútímanum.

Eftir að hafa hlustað á Salman Rushdie í Háskólabíói þegar hann kom til landsins að taka á móti bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness las ég bókina hans Hnífur í þýðingu Árna Óskarssonar. Bókin segir frá því þegar hann varð fyrir hrottalegri hnífaárás í ágúst árið 2022 sem hann náði á ótrúlegan hátt að lifa af og sömuleiðis hvernig hann tókst á við bataferlið. Þá segir Rushdie frá því hvernig hann hafi tekist á við að lifa við dauðadóminn sem íranski klerkurinn Khomeini kvað upp yfir honum fyrir meira en þrjátíu árum.

Ég er nýbúin að ljúka við bókina The Covenant of Water eftir Abraham Verghese. Þetta er heillandi og mögnuð saga þriggja kynslóða í Kerala-héraði í Suður-Indlandi í byrjun síðustu aldar. Tólf ára stúlku, Mariömmu, er ráðstafað í hjónaband með fertugum ekkjumanni eftir að faðir hennar deyr. Þrátt fyrir þessar nöturlegu kringumstæður lýsir bókin á svo fallegan hátt hvernig söguhetjan tekst á við nýtt hlutverk í nýrri fjölskyldu. Í ljós kemur að það hvílir bölvun á fjölskyldunni sem tengist vatni, en það kemur á daginn að bak við bölvunina er ráðgáta sem fjölskyldan ræðst í að leysa.

Þá langar mig að nefnina bókina Rúmmálsreikningur I, sem er fyrsta bindi af sjö í skáldsögu Solvej Balle í frábærri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Kona vaknar alla daga í gestaherbergi á eigin heimili sínu sama daginn, 18. nóvember. Sami dagurinn er sem sagt alltaf endurtekinn. Það er ekki sama fjörið og í bíómyndinni Groundhog Day en sagan er bæði raunveruleg og óraunveruleg á sama tíma. Er spennt að byrja á næsta bindi, sem er nýkomið út.