Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Okkar hressasti maður, Donald Trump, er aftur sestur í stól forseta Bandaríkjanna. Og svei mér ef hann ætlar ekki að verða ennþá hressari í þessari lotu en þeirri seinustu. Hann virðist í öllu falli ætla að láta hverja stund skipta máli, öfugt við forvera hans, sem virtist, alla vega þegar á leið, telja mínúturnar þangað til hann losnaði úr embættinu.
Nú vill Æðsti-Trumpur verða kóngur á Grænlandi, eins og ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum. Kappinn lét raunar skína í þennan lífseiga draum sinn síðast þegar hann var við völd en þá eyddu menn því bara eins og hverri annarri vitleysu. „Nei, nei, Trumpur minn, menn kaupa ekki lönd í heilu lagi!“ Lögspekingar urðu allir hinir vandæðalegustu þegar málið var borið upp við þá; þótti fyrir neðan sína virðingu að tjá sig um slíka þvælu.
Nú þegar Trump ásælist Grænland öðru sinni er hins vegar annað hljóð komið í strokkinn; lögspekingar og aðrir sérfræðingar humma og hiksta og eru nú tregir að útiloka nokkuð í þessum efnum enda sé maðurinn ólíkindatól og með ofboðslegt vald á bak við sig. Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana sá sæng sína líka upp reidda og hefur í vikunni riðið um héröð í Evrópu til að safna liði. Og er þó enginn byrjaður að gráta Björn bónda.
Trump hefur aldrei látið smámuni eins og staðreyndir þvælast fyrir sér og í vikunni fullyrti hann við fréttamenn að Grænlendingar væru hinir ánægðustu með áformin: „Þeir vilja vera með okkur!“ Svo birtist skoðanakönnun í dönsku blaði, þar sem fram kom að einungis 6% Grænlendinga vildu trumpa sig upp; hverju sem maður á svo sem að trúa. Einhverjir eru þó alla vega farnir að hafa fyrir því að spyrja Grænlendinga sjálfa; ég hef ákveðnar efasemdir um að Trump hafi gert það.
En jæja, okkar maður er sem fyrr segir hress og í öllum skilningi óhefðbundinn stjórnmálamaður og engin takmörk virðast vera fyrir hugmyndafluginu á þeim bænum. Ég hef raunar allt frá upphafi verið sannfærður um að Donald Trump sé gjörningalistamaður og bjóst fastlega við því að hann myndi hía á okkur þegar hann lét af embætti eftir fyrri törnina. „Ég gabbaði ykkur öll!“ Það gerðist ekki enda kom fljótt á daginn að hann hygði á endurkomu. Þess vegna þurfum við að bíða í fjögur ár enn til að komast að hinu sanna. Í eitt skipti fyrir öll.
Hvað Trump verður búinn að kaupa mörg lönd í millitíðinni skal ósagt látið. Ég vona þó að Ísland gamla Ísland verði ekki eitt af þeim.
Vonandi veit hann ekki einu sinni að við erum til.