Von mín er sú að myndin hrindi af stað umræðum, vegna þess að þetta er mál sem fólk vill helst ekki ræða,“ segir keníska leikkonan Michelle Lemuya Ikeny í samtali við vef breska ríkisútvarpsins, BBC, en hún fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Nawi sem fjallar um viðkvæmt mál, barnungar stúlkur í Keníu sem giftar eru eldri mönnum.
Ikeny, sem er aðeins 15 ára, er hvergi bangin að tjá sig um málið enda þótt það gæti verið túlkað sem svik og henni jafnvel útskúfað í samfélaginu sem hún fæddist inn í og ólst upp í en það er í norðvesturhluta landsins.
Myndin gerist í Turkana, sveitahéraði nærri landamærunum að Úganda, en Sameinuðu þjóðirnar segja að ein af hverjum fjórum stúlkum þar um slóðir giftist fyrir 18 ára aldur enda þótt það sé bannað með lögum.
„Margar af vinkonum mínum hafa þurft að hætta í skóla eða fóru aldrei í skóla vegna þess að einhver greiddi heimanmundinn og feður þeirra létu þær gifta sig,“ segir Ikeny en hún óx sjálf úr grasi í Turkana.
Hún kveðst hafa haft þessar stúlkur í huga þegar hún lék í myndinni en Ikeny hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína; var til að mynda valin efnilegasti leikarinn á afrísku kvikmyndaverðlaununum í nóvember.
Ikeny hafði aldrei leikið áður og hélt reyndar, þegar hún var fengin í hlutverkið, að um skólaleikrit væri að ræða en ekki kvikmynd fyrir alþjóðamarkað. „Þetta hefur breytt lífi mínu,“ viðurkennir hún, „en ég vona að það hreyfi ekki við kjarnanum í mér.“
Nawi fjallar um 13 ára stúlku með sama nafni sem seld er í hjónaband með eldri manni í skiptum fyrir búfénað, 60 kindur, átta kameldýr og 100 geitur. Hefð sem á sér langa sögu í hinu afskekkta Turkana-héraði. Nawi sættir sig ekki við örlög sín og flýr á brúðkaupsnóttina til að freista þess að láta draum sinn um framhaldsnám í höfuðborginni, Nairobi, rætast en hún er afburðanemandi. Það mælist hvorki vel fyrir innan fjölskyldunnar né samfélagsins í heild enda getur verið erfitt að brjóta af sér hlekki hefðarinnar. Nawi er ekki bara að hugsa um sjálfa sig, heldur ekki síður allar hinar stúlkunnar sem eru í sömu sporum eða koma til með að vera það. Hún kallar eftir breyttu viðhorfi, von, virðingu og síðast en ekki síst frelsi. Nawi kemst undan en þarf að snúa aftur til Turkana eftir að hún fréttir að selja eigi yngri systur hennar sama manninum í hennar stað.
Leikstjórar Nawi eru hvorki fleiri né færri en fjórir, Toby og Kevin Schmutzler, Apuu Mourine og Vallentine Chelluget. Handritið skrifaði hin keníska Milcah Cherotich en um er að ræða þýsk-kenískt samstarf.
BBC ræðir einnig við Cherotich og þar kemur fram að myndin byggist á sönnum atburðum sem standa henni mjög nærri. Systir hennar var nefnilega neydd til að gifta sig aðeins 14 ára gömul í Turkana og ári síðar hafði hún eignast barn sem hún raunar missti úr veikindum. „Örlög hennar voru að lifa lífi sem var ekki hennar eigið, heldur líf sem var hannað af foreldrum mínum og eiginmanni hennar. Það er veruleiki sem ég vil breyta,“ segir Cherotich.
Hún á von á hörðum viðbrögðum í Turkana en lætur sér það í léttu rúmi liggja – segja þurfi þessa sögu. Og henni tókst strax að snúa einum manni, frænda sínum, sem áður studdi hjónaband barna. Þau horfðu saman á myndina og eftir 55 mínútur var hann orðinn tárvotur. „Meðan hann grét fagnaði ég innra með mér vegna þess að mér hafði alla vega tekist að hreyfa við einum manni. Það færði mér heim sanninn um mikilvægi og mátt frásagnarlistarinnar.“
Alls ekki eina landið
Kenía er alls ekki eina landið sunnan Sahara þar sem barnungar stúlkur búa við þessa hættu en tíðni hjónabanda af þessu tagi er hvergi hærri en þar, að sögn Unicef. Yfirlýst markmið er að koma alfarið í veg fyrir hjónabönd barna eigi síðar en 2030 en Unicef hefur þó sagt að bretta þurfi rækilega upp ermarnar eigi það að takast. Betri árangur hefur náðst í suðurhluta Asíu en betur má ef duga skal í vestur- og miðhluta Afríku ef marka má nýja skýrslu Unicef, þar sem kemur fram að lítill árangur hafi náðst undanfarinn aldarfjórðung og verði ekkert að gert muni það taka meira en 200 ár að útrýma vandanum á svæðinu.
Toby Schmutzler, einn leikstjóra Nawi, segir alla sem að verkefninu komu brenna fyrir það en nú þurfi að koma myndinni í umferð. „Skilaboðin geta verið ótrúlega falleg en sjái enginn myndina er það unnið fyrir gýg,“ segir hann.
Myndin var frumsýnd í Keníu í haust og fáar innlendar myndir hafa gengið lengur í bíó. Þá var myndin framlag landsins til Óskarsverðlaunanna en komst ekki alla leið í lokaúrslit. Nú er unnið að því að fá Nawi sýnda í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Mið-Afríku og Ástralíu.
Aðstandendur hafa líka gengist fyrir sýningum í Turkana, þar sem aðgangur er ókeypis, og hafa viðtökur verið góðar. Þó með þeim fyrirvara að mestmegnis ungt fólk hefur fram að þessu látið sjá sig.
Ikeny fagnar þessu enda hafi myndin burði til að breyta lífi fólks. „Þegar þið horfið á myndina, setjið ykkur þá í spor Nawiar og allra þessara 640 milljóna stúlkna. Þegar við erum ung eigum við svo marga drauma. Ekki er hægt að hugsa sér verri tilfinningu en að einhver mæti á svæðið og taki þá af manni.“
Kraftmikil karakterstúdia
„Myndin er að mestu leyti kraftmikil karakterstúdía með hrífandi frásögn, þar sem heillandi karakter er í brennidepli. Þemun í henni eru vel þess virði að skoða betur,“ segir gagnrýnandi kvikmyndamiðilsins Next Best Picture.
Annar miðill, The Contending, segir Nawi opinskáa og djarfa mynd, þar sem höfuðáhersla sé lögð á áhrif þessara hjónabanda á líf stúlknanna.
Gagnrýnandi Variety er ekki alveg eins hrifinn. Hann hælir Michelle Lemuya Ikeny að vísu á hvert reipi og segir hana bera myndina uppi með frábærum leik sínum. Á móti kemur, að mati gagnrýnandans, að listrænir stjórnendur myndarinnar séu svo uppteknir af því að koma sýn sinni á hjónabönd barna á framfæri að það bitni á kvikmyndalegu gildi myndarinnar og ánægjunni af því að horfa á hana.