Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Sigurjón Þórðarson, sem senn tekur við hlutverki formanns atvinnuveganefndar, hefur gert út bátinn Sigurlaugu SK 138 til strandveiða hin síðari ári. Hann hefur verið ötulasti baráttumaður eflingar þeirra veiða á vettvangi Flokks fólksins. Flokkurinn fékk samstarfsflokka sína, Viðreisn og Samfylkingu, til þess að stórefla strandveiðar á komandi sumri og meta sérfræðingar áhrif þeirra aðgerða á þann veg að aflahlutdeild strandveiðisjómanna kunni að tvöfaldast frá því sem verið hefur.
Því er ljóst að Sigurjón gæti makað krókinn rækilega á komandi vertíð, leggi hann á djúpið ásamt þeim hundruðum sjómanna sem rétt hafa til strandveiða sumar hvert.
Hanna Katrín Friðriksson, nýr atvinnuvegaráðherra, var fyrst upplýst um þessa hagsmuni í þættinum Spursmálum í gær en allt stefndi í að Sigurjón myndi sem nýr formaður atvinnuveganefndar leiða frumvarp um strandveiðar gegnum þingið fyrir hönd stjórnarmeirihlutans. Telur hún að ekki geti orðið af því vegna þessara upplýsinga.
Sigurjón hefur raunar brugðist við umfjöllun Spursmála en það gerði hann á facebooksíðu sinni. Segir hann þar að bátur hans sé nú í söluferli og hafi upp á síðkastið „aðeins verið nýttur til sýnatöku í tengslum við rannsókn Náttúrustofu Norðurlands vestra …“
Opinber gögn staðfesta hins vegar að bátnum var beint á strandveiðar á liðnu sumri. Þá segja kunnáttumenn sem Morgunblaðið hefur rætt við að verðmiðinn á báti af þessu tagi taki mið af því hversu mikil verðmæti hann geti sótt í greipar Ægis. Með stórauknum strandveiðiheimildum aukist verðgildi bátsins verulega.
Brást örskjótt við
Viðtalið við Hönnu Katrínu var tekið upp á fimmtudag og hafði borist Sigurjóni til eyrna áður en það fór í birtingu. Brást hann ókvæða við og lýsti viðtalinu við ráðherra sem „fyrirsát“. Sagði hann að meint fyrirsát „Morgunblaðsins og aðferðir við að vekja ótta og óvild og tortryggni eru í senn grátbroslegar, þ.e. í þessu tilfelli, og óhuggulegar þegar þær snúa að afkomendum og öryggi Ingu Sæland“.
Er Sigurjón þar væntanlega að vísa til máls sem visir.is vakti fyrst máls á og tengist týndu skópari barnabarns Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og mikið hefur verið fjallað um að undanförnu.
Segir bátinn til sölu
Eigið fé neikvætt hjá Sleppa
Fyrirtæki Sigurjóns og konu hans sem heldur utan um útgerðarstarfið nefnist Sleppa ehf. Eigið fé þess var neikvætt um fimm milljónir króna í árslok 2023. Enn á eftir að skila ársreikningi fyrir nýliðið rekstrarár.
Árið 2023 virðist báturinn Sigurlaug ekki hafa fiskað neitt en árin á undan voru umsvifin meiri og opinberar tölur segja að hið sama hafi verið upp á teningnum á nýliðnu ári.
Mest varð aflaverðmætið árið 2022 eða rúm 5,1 milljón. Það ár nam aflinn rúmum 10,5 tonnum. Ári fyrr var aflinn 14,3 tonn og fyrir það fengust 4,8 milljónir.