Marianne Faithfull var oft kölluð „músa“ rokkstjarna. Sjálfri var henni ekkert um þann titil gefið. „Það er ömurlegt hlutskipti. Það eru ekki til margar karlkyns „músur“. Dettur þér einhver í hug? Nei,“ sagði hún við The Guardian.
Marianne Faithfull var oft kölluð „músa“ rokkstjarna. Sjálfri var henni ekkert um þann titil gefið. „Það er ömurlegt hlutskipti. Það eru ekki til margar karlkyns „músur“. Dettur þér einhver í hug? Nei,“ sagði hún við The Guardian. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Villihestar gætu ekki dregið mig í burtu,“ varð Marianne Faithfull að orði þegar hún hjarnaði við á spítala árið 1969 eftir ofneyslu fíkniefna. Orð sem síðar urðu fleyg í lagi The Rolling Stones, hljómsveitar sambýlismanns hennar, Micks Jaggers

Villihestar gætu ekki dregið mig í burtu,“ varð Marianne Faithfull að orði þegar hún hjarnaði við á spítala árið 1969 eftir ofneyslu fíkniefna. Orð sem síðar urðu fleyg í lagi The Rolling Stones, hljómsveitar sambýlismanns hennar, Micks Jaggers. „Mér finnst ég vera sterk, hrikalega sterk,“ sagði hún í The Independent löngu síðar. „Ég meina, ég hef komist af. Ekki satt?“

Hverju orði sannara. Faithfull lifði af berkla, heróínfíkn, lifrarbólgu C, þunglyndi, sjálfsvígstilraun, brjóstakrabbamein og kóvidtengda lungnabólgu en nú er hún fallin frá, 78 ára að aldri.

Marianne Faithfull fæddist í Hampstead í Lundúnum 1946. Faðir hennar, Glynn Faithfull, var starfsmaður bresku leyniþjónustunnar og prófessor í ítölskum bókmenntum, sem er fáránlega áhugaverð blanda, en móðirin barónessa frá Austurríki-Ungverjalandi, meðan það var og hét, Eva von Sacher-Masoch. Eins vel og þetta hljómar þá ólst Faithfull samt upp við krappan kost hjá móður sinni eftir að foreldrar hennar skildu.

Faithfull hóf að koma fram sem söngkona 18 ára og dróst snemma inn í glansheima Lundúna, við erum að tala um tíma sem ollu straumhvörfum, sjálfa „sveiflusexuna“. 1965 gekk hún að eiga listamanninn John Dunbar og gegnum hann komst hún í kynni við The Rolling Stones og umboðsmann þeirra, Andrew Loog Oldham. Hjólin snerust hratt og þetta sama vor kom ekki bara út ein breiðskífa með Faithfull, heldur tvær, og sú þriðja rétt fyrir jólin. Hún var rækilega komin á kortið, ekki síst fyrir atbeina ofursmellsins As Tears Go By, sem Oldham samdi ásamt Jagger og Keith Richards.

1966 urðu Faithfull og Jagger svo par, eftir að hún skildi við Dunbar og flutti með kornungan son sinn, Nicholas, inn til Brians Jones úr The Rolling Stones og sambýliskonu hans, Anitu Pallenberg.

Faithfull var ein sú heitasta í bransanum á þessum tíma en auk þess að senda frá sér fleiri plötur fór hún að leika í kvikmyndum. Ekkert vantaði upp á „attitjúdið“ en Faithfull varð fyrsti maðurinn til að segja „fuck“ í miðstraumskvikmynd, I’ll Never Forget What’s’isname, 1967. Hún lék líka í The Girl on a Motorcycle og Ófelíu í Hamlet.

Bjó um tíma á götunni

En hið ljúfa líf tók sinn toll og Faithfull ánetjaðist fíkniefnum. Heróínið tók af henni völdin og árið 1970 hætti hún með Jagger og missti forræðið yfir syni sínum. Það leiddi til sjálfsvígstilraunar – sem fór út um þúfur. Alls missti Faithfull fóstur í þrígang og undirgekkst fjórum sinnum þungunarrof.

Óhætt er að segja að Faithfull hafi stigið alla leið niður til heljar en um tveggja ára skeið bjó hún beinlínis á götunni í Soho í Lundúnum, hart leikin af heróínfíkn og lystarstoli. „Það er mjög, mjög skrýtið að hugsa um þetta,“ viðurkenndi hún í The Guardian 2007. „Það var mikil niðurlæging að búa upp við vegg og sprauta sig með eitri. En þetta var samt nákvæmlega það sem ég þurfti á þessum tíma … algjört nafnleysi. Mig langaði að hverfa – og gerði það.“

Með hjálp góðra vina tókst Faithfull að brjóta af sér hlekki heróínsins og ná sér aftur á strik. Fíknin átti þó eftir að knýja áfram dyra og eftir að hún lauk meðferð við svefnlyfjafíkn löngu síðar tjáði hún The Independent: „Mér var sagt að ég hefði líklega þjáðst af djúpu þunglyndi um langt árabil, sennilega síðan ég var 15 ára, jafnvel 14. Það skýrði, alltént fyrir mér, margt í sambandi við hegðun mína gegnum tíðina.“

Faithfull skaust aftur upp á stjörnuhimininn seint í sjöunni, ekki síst með breiðskífunni Broken English, sem af flestum er talin hennar besta. Þar má meðal annars finna lagið The Ballad of Lucy Jordan.

Faithfull vegnaði lengst af vel eftir það og sendi reglulega frá sér plötur, þá síðustu 2021, auk þess að vinna með hinum ólíkustu listamönnun, svo sem Warren Ellis, Nick Cave, Brian Eno og Metallica.