Ólöf María Jóakimsdóttir fæddist 24. desember 1927. Hún lést 18. janúar 2025.
Útför fór fram 31. janúar 2025.
Það er erfitt að koma í orð öllum þeim minningum og tilfinningum sem vakna við fráfall Mæju vinkonu okkar. Hún var einstök kona, réttsýn og raungóð og alltaf reiðubúin að hjálpa öðrum. Mæja var svo einstök að allir voru vinir hennar því hún veitti kærleika og stuðning, jafnt í gleði og sorg, sem við kynntumst svo vel við andlát ástvina okkar.
Mæja var sannur Siglfirðingur en auðvitað líka Ísfirðingur eftir alla sína veru á Ísafirði. Ein dýrmæt minning okkar er af ferðalagi með þeim Mæju og Skúla um innsveitir norðanlands þar sem ekki sést til sjávar. Þetta fannst Mæju afar skrýtið, að búa svo langt inni í landi og sjá ekki sjóinn.
Við minnumst einnig góðra stunda í Hagakoti og allra símtala sem við áttum, alltaf smá sprell og léttleiki og það brást ekki að hún mundi alltaf eftir afmælisdögum okkar og brúðkaupsdegi.
Vináttuna og samveruna geymum við í minningabankanum og þökkum Mæju fyrir allar ómetanlega dýrmætu stundirnar sem við áttum saman.
Elsku Skúli, missir þinn er mikill og vottum við þér, börnum ykkar, tengdabörnum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Skúli og Jakobína.