Jens Garðar Helgason
Sundferill undirritaðs sökk dýpst þegar hann, þá 12 ára gamall, var nærri drukknaður í boðsundskeppni í innilauginni á Eskifirði árið 1988. Sundkennarinn þurfti að stinga sér út í 12 metra laugina, sundkappanum til bjargar. Sennilega lenti Michael Phelps, einn besti sundmaður sögunnar, aldrei í slíkum hremmingum. Meira um það síðar.
Yfir 85% af orkunotkun Íslendinga eru græn. Á þeim forsendum fengu Íslendingar á sínum tíma undanþágu frá Kyoto-bókuninni (undanfara Parísarsamningsins), enda óraunhæft að leggja Íslendinga að jöfnu við þjóðir sem byggðu orkunotkun sína að langmestu leyti á jarðefnaeldsneyti. Vinstristjórnin 2009-2013, í kjölfar ESB-umsóknar, henti þjóðinni á þann vagn sem við erum nú föst á. Í framhaldinu voru sett loftslagsmarkmið sem eru algjörlega óraunhæf. Það sér hver hugsandi maður að mun erfiðara er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming þegar hún er nú þegar 85% græn. Hjá grannþjóðum okkar er hún 25-40%.
Komum við þá aftur að þætti sundkappans Phelps. Að krefjast þess að Íslendingar minnki losun álíka mikið og grannþjóðirnar er svipað og að segja við Phelps og undirritaðan að þeir þurfi báðir, óháð núverandi getu, að bæta sig um 10 sekúndur í 200 metra skriðsundi innan ákveðinna tímamarka. Annars komi til sektargreiðslna.
Til að mæta þessum óraunhæfu markmiðum hafa stjórnvöld sett álögur og íþyngjandi regluverk á atvinnulífið sem á endanum lendir á heimilunum í landinu. Fjöldi opinberra starfa hefur orðið til í kringum loftslagsiðnaðinn og má orðið finna loftslagssérfræðinga í annarri hverri stofnun í dag. Allt er þetta eyðsla á skattfé og sköpun starfa án nokkurrar framleiðni, en framleiðni starfa er forsenda áframhaldandi hagvaxtar og velferðar.
Ísland, sem fyrirmynd annarra ríkja í loftslagsmálum, á að endurheimta fyrri undanþágur. Við eigum sem þjóð að setja okkar eigin markmið um hvernig við ætlum að hætta að kaupa orku með erlendum gjaldeyri og stefna að enn frekari sjálfbærni í orkumálum og orkuskiptum. Þótt sumir berji höfðinu við steininn er þorra landsmanna það ljóst að við gerum það einungis með stóraukinni fjárfestingu í vatns- og gufuaflsvirkjunum, vindorku og flutningskerfi raforku.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.