Ásta Björnsdóttir fæddist 5. júní 1934. Hún lést 23. desember 2024. Foreldrar hennar voru Sigríður G. Þorleifsdóttir, f. 8. maí 1909, d. 20.1. 2003 og Björn S. Jónsson, f. 29. mars 1915, d. 4. júní 1995.
Ásta átti fimm hálfsystkini samfeðra, en engin samskipti voru á milli þeirra.
Ásta ólst upp hjá móður sinni, fyrstu árin bjuggu þær á Undirfelli og Eyjólfsstöðum í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Þegar Ásta var níu ára fluttu þær mæðgur til hjónanna Jóhanns Teitssonar og Ingibjargar Sigfúsdóttur á Refsteinsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar var Sigríður móðir Ástu vinnukona hjá þeim hjónum. Ásta passaði son hjónanna, Þóri Heiðmar, og ólust þau upp saman. Tókst með þeim mikil og ævilöng vinátta sem hélst þar til Þórir Heiðmar lést 9. febrúar 2010.
Ásta fermdist frá Þingeyrakirkju. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Þegar Ásta var tæplega tvítug flutti hún til Reykjavíkur. Fyrst var hún í vist og svo fór hún að vinna í Ingólfskaffi og á fleiri stöðum. Fljótlega byrjaði hún svo að vinna í Lífstykkjabúðinni á Laugavegi og vann þar í 35 ár.
Sigríður móðir Ástu flutti til hennar í Reykjavík árið 1957 og byrjuðu þær á því að leigja saman. Árið 1974 keyptu þær saman íbúð í Jörfabakka 12 og bjuggu sér þar afar fallegt heimili.
Stuttu eftir að móðir Ástu dó, 2003, keypti Ásta sér íbúð í Engihjalla 17. Þegar aldurinn fór að færast yfir Ástu ákvað hún að kaupa sér íbúð í Fannborg 8 sem Sunnuhlíðarsamtökin ráku og þar bjó hún til dánardags.
Ásta var ógift og barnlaus. Þær mæðgur litu hins vegar alltaf á fjölskyldu Þóris Heiðmars sem sína eigin fjölskyldu.
Að ósk hinnar látnu fór útförin fram í kyrrþey.
Núna er hún látin frænka mín og vinkona, Ásta Björnsdóttir frá Vatnsdal og Refsteinsstöðum. Ásta var uppeldissystir föður míns heitins, Þóris Heiðmars Jóhannssonar frá Blönduósi og Refsteinsstöðum.
Ég vissi fyrst af Ástu svona um 3-4 ára aldur en þá var alltaf talað um Siggu og Ástu í Reykjavík í einni og sömu setningu. Sigríður Guðrún Þorleifsdóttir móðir Ástu var fermingarsystir ömmu minnar Ingibjargar Sigfúsdóttur frá Forsæludal sem var síðar bústýra á Refsteinsstöðum.
Öll uppvaxtarár mín á Blönduósi fengum við systkinin pakka um jólin frá Siggu og Ástu í Reykjavík. Eftir að ég flutti svo suður 17 ára 1981 var ég oft í heimsókn hjá þeim Siggu og Ástu.
Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð 1983 sem hún Sigga fann fyrir mig þá var Ásta sú fyrsta sem bauðst til að taka lán og hjálpa mér við kaupin. Þetta var að vísu ósamþykkt kjallaraíbúð sem vont var að fá lán fyrir. En þetta gekk allt upp.
Þegar ég kynntist svo fyrrverandi konunni minni henni Margréti Sigurbjörnsdóttur vorum við líka alltaf velkomin til Ástu og Siggu í heimsókn til þeirra. Ég, Margrét og börnin fórum svo oft með Ástu og Siggu í ótal sumarbústaðaferðir um landið og marga aðra bíltúra. Ásta tók aldrei bílpróf en notaði strætó allra sinna ferða.
Hún vann í lífstykkjabúðinni á Laugavegi í 35 ár og vann við ýmis störf líka eins og á Ingólfskaffi á sínum tíma.
Ég minnist Ástu sem glaðrar og glæsilegrar konu sem þótti gaman að punta sig upp og eiga góð og falleg föt. Húmorinn í Ástu var mjög góður og gat hún strítt manni á hina ýmsa vegu. Einnig gerði hún oft grín að sjálfri sér.
Þegar við Margrét skildum svo árið 2005 og ég hóf búskap með Sigríði G. Guðnadóttur þá tók hún jafnvel á móti henni Sirrý og hún hafði tekið á móti Margréti. Þótt við Margrét hefðum skilið var Margrét alltaf til staðar fyrir hana Ástu alveg til dánardags, enda voru þær góðar vinkonur. Síðustu tuttugu ár höfum við Margrét skipst á að heyra í Ástu reglulega og hjálpa henni. Hin síðari ár eftir að Ásta hætti að komast svo auðveldlega í búð hefur Margrét hjálpað henni með öll innkaup.
Ég vil þakka Ástu samfylgdina síðustu 43 ár hér fyrir sunnan, öll spilakvöldin, jólastundirnar og kaffiboðin sem við áttum saman, en í sumarbústaðaferðunum með Siggu og Ástu var alltaf spiluð vist og höfðu þær mæðgur sérstaklega góða hæfileika til að vinna okkur hin. Svo hlógu þær innilega með okkur þegar við hin skildum ekki hvernig öll góðu spilin lentu hjá þeim. Við héldum að þær væru eitthvað göldróttar í spilum.
Þegar ég kom fyrst í bæinn sem unglingur þá bjuggu þær mæðgur á Njálsgötu 74 og þaðan fluttu þær í Jörfabakkann. Þegar Sigríður lést 2003 flutti Ásta fyrst í Engihjallann í Kópavogi og núna síðast bjó hún í Fannborg 8, Kópavogi.
Megi guð varðveita þig. Núna ertu örugglega búin að hitta uppeldisbróður þinn hann Þóri aftur.
Ásta lést á Þorláksmessu 23.12. 2024 eftir stutt veikindi en á þeim degi hefði faðir minn hann Þórir orðið 83 ára ef hann hefði lifað.
Með kærri kveðju og ævilöngu þakklæti, Ásta mín.
Bergþór Valur Þórisson.
Elsku Ásta.
Þá er komið að kveðjustund okkar í bili, og ég sit hér og rifja upp kynni okkar.
Fyrir um 20 árum kynntist ég eiginmanni mínum og hann sagði mér fljótlega frá henni Ástu frænku og að ég yrði að hitta hana. Ég var nú svolítið stressuð verandi seinni konan hans og ég vissi líka að Margrét fyrri kona hans og Ásta voru góðar vinkonur. En einn dag varð ekki hjá því komist að fara í Engihjallann og hitta Ástu frænku. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast, jú rúmlega 70 ára frænka sem bjó ein. Mikið var ég því hissa þegar ég hitti Ástu. Hávaxin og glæsileg kona sem tók mér og mínum opnum örmum og bauð mig velkomna. Hún átti glæsilegt heimili fullt af fallegum húsgögnum og munum sem hún hafði eignast á mörgum ferðalögum sínum.
Ásta vann í 35 ár í Lífstykkjabúðinni og sagði margar skemmtilegar sögur af þeirri vinnu. Við fórum oft í heimsókn til Ástu og alltaf var tekið á móti okkur með hlaðborði af veitingum og heitu súkkulaði. Mikið var spjallað og hlegið, Ásta var mikill húmoristi og gráglettin í sínum frásögnum og gerði góðlátlegt grín að sjálfri sér og öðrum.
Ásta flutti í íbúðina sína í Fannborg þar sem hún bjó til síðasta dags. Hún var mjög sjálfstæð og sá um sig sjálf nánast alla tíð.
Árið 2019 fékk Ásta smá áfall og þurfti að fara í endurhæfingu, hún kom þó heim aftur og afþakkaði alla aðstoð. Nema frá Margréti (fyrrverandi konu mannsins míns) og áttu þær fallegt vinasamband og Margrét sinnti vinkonu sinni vel og gerði margt með henni og fyrir hana.
Yngri dóttir mín á lítinn hund og þegar Ásta sá hann í fyrsta sinn eignaðist hún vin. Í hvert sinn sem við komum með hann þá gleymdi hún okkur og sá bara vin sinn.
Eftir áfallið 2019 brast hana svolítið kjark og hún fór ekki mikið út. Bara niður í hárgreiðslu því alltaf vildi hún vera vel tilhöfð.
En nú er komið að leiðarlokum hjá Ástu og ég þakka fyrir allar samverustundirnar sem við áttum saman. Hún var rúmlega 90 ára og bar aldurinn mjög vel, þó minnið væri aðeins farið að gefa sig þá hafði hún alltaf húmorinn sinn og hafði gaman af því að spjalla og sérstaklega að rifja upp gamla tíma.
Elsku Ásta, takk fyrir allt og allt, við hittumst í kakó og pönnukökur þegar ég er búin hér.
Sigríður Guðný Guðnadóttir.