Örn Bragason fæddist 21. október 1949 í Reykjavík. Hann lést á Landakotsspítala í Reykjavík 8. janúar 2025.

Foreldrar Arnar voru hjónin Jóhanna Elín Erlendsdóttir húsmóðir, f. 1. júlí 1924, d. 4. júní 2001 og Bragi Sigurðsson, sjómaður og verkstjóri, f. 27. september 1927, d. 21. apríl 2020.

Systur Arnar eru Jóhanna Ellý Sigurðardóttir, f. 1943 og Halldóra Bragadóttir, f. 1957.

Eiginkona Arnar er Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir, f. 13. október 1952. Foreldrar hennar voru hjónin Ásgerður Ólafsdóttir, saumakona og húsmóðir, f. 26. maí 1917, d. 4. janúar 1995 og Sveinbjörn Hannesson húsasmiður, f. 17. október 1915, d. 8. janúar 1981.

Synirnir eru þrír: Skúli Már Gunnarsson, f. 25. sept. 1971, Davíð Logi Gunnarsson, f. 27. júlí 1977 og Daníel Karlsson, f. 15. maí 1983. Barnabörnin eru fimm stúlkur.

Örn ólst upp á Ránargötu í Reykjavík og gekk þá í Miðbæjarskólann og síðar flutti fjölskyldan í Laugarneshverfið. Móðir hans ólst upp í Keflavík og foreldrar hennar bjuggu þar og má segja að Örn hafi varið töluverðum hluta æsku sinnar í heimsóknum hjá ömmu og afa. Hann bar alltaf mjög sterkar taugar til Keflavíkur.

Örn lauk landsprófi í Vonarstræti og þaðan lá leið hans í Stýrimannaskólann og útskrifaðist hann frá skólanum með skipstjórnarmenntun.

Örn starfaði um árabil sem stýrimaður og síðar skipstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands. Eftir að hann kom í land vann hann um tíma við skrifstofustörf hjá félaginu eða þar til hann tók við starfi hafnsögumanns hjá Faxaflóahöfnum og sinnti því starfi í u.þ.b. 20 ár.

Útför Arnar hefur farið fram í kyrrþey að hans ósk.

Það eru um þrjátíu ár síðan við hjónin hittum Örn fyrst, skömmu eftir að Ingibjörg systir Hannesar kynntist þessum mæta manni. Hann var þá kominn í land eftir áralangt starf sem stýrimaður og skipstjóri á fragtskipum Eimskipafélagsins. Þá fór hann um tíma í skrifstofustörf hjá félaginu en réð sig síðan í starf hafnsögumanns hjá Faxaflóahöfnum.

Eftir að þau Ingibjörg gengu í hjónaband bjuggu þau um tíma í Skipholtinu. Síðar fluttu þau í nýja og glæsilega íbúð við Strandveginn í Garðabæ með útsýni yfir sjóinn. Þau voru meðal fyrstu íbúa þar og kunnu strax vel við sig.

Örn var hæglátur og rólegur í fasi en það leyndi sér ekki að hann var fastur fyrir með ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Það var gott að fá hann inn í fjölskylduna, bæði traustan og góðan. Hann var lítið fyrir að flíka sinni persónu en hafði mjög gaman af að ræða lands- og heimsmálin, sem hann hafði góða innsýn í. Hann var kletturinn í lífi Ingibjargar og það varð stöðugt ljósara á seinni árum, þegar ýmis veikindi tóku að herja á hana. Daníel yngsti sonurinn hafði mest af Erni að segja, Davíð og Skúli komnir með eða u.þ.b. að eignast sínar fjölskyldur og heimili. Júlía dóttir Daníels varð mjög hænd að afa sínum. Allir synirnir þrír báru góðar tilfinningar í hans garð og virtu hann fyrir margra hluta sakir og ekki síst einstaka umhyggju hans gagnvart móður þeirra.

Örn var léttur á fæti og fimur, enda þurfti hann sannarlega á því að halda eftir að hann gerðist hafnsögumaður. Starfið reynir mjög á líkamlegan styrk manna. Hann þurfti meðal annars í sínu starfi að klifra upp hriktandi stiga á síðum gríðarstórra skipa í misjöfnu veðri. Og ábyrgðin var mikil þar eins og í skipstjórninni.

Örn var mikill bókaunnandi og leið vel við lestur í góða hægindastólnum í bókastofunni á Strandveginum, þar sem hundruð bóka þekja veggi. Hann átti alls konar bækur um bæði menn og málefni, sem hann setti sig vel inn í og drakk í sig fróðleik um mikla stjórnmálaskörunga.

Mikill menningaráhugi var sennilega ein af ástæðum þess að þau hjón fóru margoft m.a. til Berlínar, München, Vínar og ýmissa staða á Ítalíu. Þau áttu þar margar góðar stundir í skoðunarferðum sínum.

Örn var unnandi góðrar tónlistar, dægurtónlistar Bítlanna og Hljóma og ekki síður gamalla sígildra aría. Andrea Boccelli, sem þau hjón báru gæfu til að sjá og heyra í eigin persónu á tónleikum í Kórnum fyrir nokkrum árum, var hátt skrifaður hjá honum.

Á unga aldri hafði hann gaman af billjard og náði Íslandsmeistaratitli 25 ára. Hann fylgdist vel með fótboltanum, einkum liðum KR og Arsenal. Hann átti góðar minningar úr heimsóknum til ömmu og afa í Keflavík og fótboltaleikjum með frændum sínum þar.

Örn gekk mikið og átti sínar góðu og hressandi stundir meðfram sjónum í Garðabænum. Hann hélt þeim sið lengi en þar kom að hann neyddist til að láta af þessum ferðum vegna versnandi heilsu.

Útför hans fór fram í kyrrþey. Hún var mjög falleg og þar sungu Sigríður Thorlacius og náfrændi Arnar, Jóhann Helgason, uppáhaldslög hans einstaklega fallega.

Far í friði kæri vinur.

María L. Einarsdóttir og Hannes Sveinbjörnsson.