Guðjón Friðjónsson fæddist á Hóli 29. júní 1948. Hann lést 4. janúar 2025.
Faðir: Friðjón Jónsson, fæddur 6. maí 1903, dáinn 5. maí 1991. Móðir: Lovísa Alexandrína Guðjónsdóttir, fædd 24. júní 1915, dáin 14. október 1986. Bændur á Hóli í Svínadal.
Systkini hans: Fríða Dagbjört Friðjónsdóttir, fædd 29. ágúst 1941, dáin 23 júlí 1942. Guðmundur Þórir Friðjónsson, fæddur 26. maí 1944, dáinn 15. september 2021. Anna Ragnheiður Friðjónsdóttir, fædd 2. mars 1946. Olga Friðjónsdóttir, fædd 14. júli 1956.
Guðjón ólst upp á Hóli og bjó þar fram í september 1986 þegar hann flytur ásamt foreldrum sínum að Jaðarsbraut 3 á Akranesi og starfaði alla tíð við hefðbundin landbúnaðarstörf og verkamannavinnu. Bjó þar óslitið þar til hann flytur að Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða á Akranesi í desember 2023.
Útför hans fór fram frá Akraneskirkju 14. janúar 2025.
Elsku Gaui okkar.
Okkur Hvítanessystkinin langar að þakka þér fyrir samfylgdina og ótal ómetanlegar stundir með nokkrum orðum.
Gaui kom í kaffi að Hvítanesi 1979 og eftir þann dag kom hann nánast alla daga ársins þar til að heilsan fór að gefa sig. Ekkert okkar man því eftir okkur án Gauja sem segir til um hversu samofinn lífi okkar hann var. Gaui var ekki blóðskyldur okkur systkinum en þekkti okkur þó líklega betur en flestir. Hann var duglegur að taka þátt í uppeldi okkar og sagði okkur hispurslaust til syndanna á sinn góða og hreinskilna hátt ef við stóðum okkur ekki nægilega vel í sveitastörfunum. Á margan hátt á hann því stóran þátt í að hafa kennt okkur til verka og að vera ósérhlífin. Oftar en ekki vorum við komin í hálfgerða keppni við Gauja, t.d. þegar verið var að raða böggum á vagn af Gaujastykki eða þegar verið var að stinga út úr fjárhúsunum. Auðvitað vildi maður ekki vera eftirbátur hans en í raun hafði maður ekki roð við karlinum því böggunum henti hann oft yfir vagninn eða tók tvöfalt meira tað í kvíslina en við.
Eftir að við eldri systkinin fluttum að heiman í seinni tíð til náms og vinnu í bænum þá fannst honum oft gaman að því að gera grín að bóndahæfileikum okkar þegar við komum til að hjálpa til í sveitastörfunum. Honum fannst t.d. lítið til Tótu og Jóa koma þegar þau misstu lamb í kjaft hrafnsins sem var á þeirra vakt þegar mamma og pabbi voru erlendis. Á hverju vori spurði hann Ástu Maríu hvort hún væri nú komin til taka þátt í sauðburðinum og hló svo ægilega að henni, vitandi vel að áhugi hennar lá síst í fjárbúskap. Okkur er einnig minnisstætt þegar hann spurði hvort Tryggvi væri nú orðinn „súpuvömb“ eftir nám. Það þýddi að vera starfsmaður á skrifstofu sem fengi oftar en ekki súpu í hádegismat en það fannst Gauja ekki merkilegur matur, ja nema það væri kjötsúpa með spikfeitu kjöti.
Gaui var afar mikilvægur búskapnum á Hvítanesi og hjálpaði mikið þegar mamma og pabbi voru bæði útivinnandi með búskapnum. Hann gat haldið lífi í ótrúlegustu tækjum, gamlir Zetorar léku í höndunum á honum.
Gaui var ekki mikið fyrir að henda hlutum, gömlum múgavélatindum mátti t.d. alls ekki henda, þá mætti örugglega nota í eitthvað síðar. Stundum var því hent gaman að því að segja við Gauja „má ekki bara henda þessu?“ vitandi að það þætti Gauja afleit hugmynd og arfavitlaus. Svarið sem kom yfirleitt til baka var: „Henda!?“ Svo tók hann hlutinn til handargagns og faldi þar sem hann og hann einn vissi af honum, svo honum yrði nú örugglega ekki hent.
Gaui var oft sniðugur í tilsvörum og samskiptum og oftar en ekki var afar stutt í kímnina í samskiptum okkar. Þegar eitthvert okkar lét sjá sig á laugardegi í sveitinni þá spurði Gaui oftar en ekki „ert þú hér?“ og svo kom iðulega „varstu hér í nótt?“. Honum fannst nefnilega oft gott að vita meira en minna um ferðir okkar og ekki þótti honum verra að vita um tilgang ferða okkar og hvenær við myndum fara heim aftur.
Minning þín lifir með okkur.
Systkinin á Hvítanesi,
Þórunn, Tryggvi Þór, Ásta María og Jón Þór.