Um 3.500 manns lögðu leið sína til Meiji-hofsins í Tókýó í gærmorgun til þess að hylla súmóglímukappann Hoshoryu (fyrir miðju), en hann tryggði sér fyrr í vikunni réttinn til þess að kalla sig stórmeistara (j. yokozuna) í íþróttinni.
Hoshoryu, sem er 25 ára gamall og frá Mongólíu, er einungis sá 74. í sögunni til þess að ná stórmeistaratign, en súmóglíma rekur sögu sína aftur til fornaldar.
Hoshoryu á ekki langt að sækja súmóáhugann, en hann er frændi Asashoryu, sem varð fyrsti stórmeistarinn frá Mongólíu árið 2003. Asashoryu varð hins vegar að hætta keppni árið 2010 vegna hneykslis, en hann nefbraut mann í slagsmálum fyrir utan skemmtistað. Hoshoryu hefur heitið því að hann muni ekki hegða sér á svipaða vegu og frændi sinn.