Egill Aaron Ægisson
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) samþykkti í gær innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga.
Tillagan jafngildir kjarasamningi verði hún samþykkt og hefur Kennarasamband Íslands (KÍ) frest til klukkan 13 í dag til þess að bregðast við henni en tillagan var lögð fram á fimmtudag.
Efnislega er um að ræða framhald á vegferð sem ríkissáttasemjari lagði upp með í lok nóvember þegar samninganefndirnar gerðu með sér samkomulag um friðarskyldu til tveggja mánaða.
Í tilkynningu sem stjórn SÍS sendi á fjölmiðla í gærkvöldi kemur fram að stjórnin vilji fara í þá vegferð sem ríkissáttasemjari hefur lagt fram í kjaradeilunni þrátt fyrir að tillagan feli í sér talsverðan kostnað.
Á meðal þess sem tillagan felur í sér er að deila um jöfnun launa á milli markaða verði útkljáð með virðismati og verkáætlun til 20 mánaða og segist stjórn SÍS sammála þeirri aðferðafræði í tilkynningunni.
Hafa frest til klukkan 13
Fari svo að KÍ samþykki tillögu ríkissáttasemjara er ljóst að ekkert verður af þeim verkfallsaðgerðum sem boðaðar hafa verið. Verði tillagan ekki samþykkt hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný á mánudag.
Þá leggja kennarar í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum niður störf þar sem verkfallsaðgerðir í grunnskólunum verða tímabundndar en aftur á móti ótímabundnar í leikskólunum.
Kröfu foreldra vísað frá
Innanhússtillagan er ekki það eina sem KÍ hefur þurft að hugsa um síðustu daga, en líkt og greint hefur verið frá ákvað hópur foreldra að stefna sambandinu vegna útfærslu fyrri verkfallsaðgerða sem foreldrarnir töldu hafa bitnað á fámennum hópi barna.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá í gær á þeim forsendum að það félli undir lögsögu félagsdóms að ákvarða lögmæti verkfallsaðgerðanna, ekki almennra dómstóla, en félagsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur og er hlutverk hans að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.