Minning Meðlimir skautafélags Boston-borgar voru á meðal þeirra sem fórust í flugslysinu og setti félagið upp blóm til minningar um fallna vini.
Minning Meðlimir skautafélags Boston-borgar voru á meðal þeirra sem fórust í flugslysinu og setti félagið upp blóm til minningar um fallna vini. — AFP/Joseph Prezioso
Leitarmenn í Washington-borg fundu í gær flugrita farþegaþotunnar sem hrapaði í Potomac-fljótið á miðvikudagskvöldið eftir árekstur við Blackhawk-þyrlu Bandaríkjahers. Sagði öryggisráð samgöngumála í Bandaríkjunum, NTSB, að flugritarnir væru komnir…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Leitarmenn í Washington-borg fundu í gær flugrita farþegaþotunnar sem hrapaði í Potomac-fljótið á miðvikudagskvöldið eftir árekstur við Blackhawk-þyrlu Bandaríkjahers. Sagði öryggisráð samgöngumála í Bandaríkjunum, NTSB, að flugritarnir væru komnir í sínar hendur, og færi nú fram hefðbundin rannsókn á tildrögum slyssins.

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá því í gær að flugturninn við Reagan-flugvöll hefði verið undirmannaður miðað við það álag sem var í nágrenni vallarins, en loftrýmið í kringum Washington er eitt hið annasamasta í heimi.

Sagði í frétt blaðsins að einn flugumferðarstjóri hefði verið að sinna umferð bæði flugvéla og þyrlna, en að vanalega ættu þeir að vera tveir á vaktinni. Þá greindu Washington Post og CNN frá því að deginum áður hefði önnur þota þurft að hætta við lendingu og reyna aftur eftir að þyrla flaug of nærri leið hennar.

Fjörutíu lík fundin

Búið var að finna rúmlega 40 lík af þeim 67 sem voru um borð í flugförunum tveimur í gærmorgun. Þó nokkrir af farþegum vélarinnar voru keppendur og þjálfarar sem voru á leiðinni heim frá landsmeistaramóti Bandaríkjanna í listskautum. Þar á meðal voru skautaþjálfararnir Evgenia Shishkova og Vadim Naumov, sem unnu heimsmeistaratitilinn í parakeppni árið 1994. Þau voru bæði rússneskir ríkisborgarar, en búsett í Bandaríkjunum.

Kínversk stjórnvöld staðfestu í gær að tveir kínverskir ríkisborgarar hefðu verið um borð í farþegaþotunni, og þá var lögreglumaður frá Filippseyjum einnig um borð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi sínum í fyrradag að mögulega hefði of mikil fjölbreytni í mannaráðningum verið valdur að slysinu, en demókratar gagnrýndu orð hans harkalega í kjölfarið. Trump setti færslu inn á samfélagsmiðil sinn, Truth Social, í gær, þar sem hann sagði að herþyrlan hefði flogið of hátt og verið vel yfir þeirri 60 metra hæð sem heimil hefði verið.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson