Ingibjörg Helgadóttir fæddist í Stafni í Reykjadal 26. júní 1932. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 10. október 2024.

Foreldrar hennar voru Helgi Sigurgeirsson, f. 13.9. 1904, d. 21.7. 1991 og Jófríður Stefánsdóttir, f. 17.9. 1900, d. 24.1. 1996. Ingibjörg átti fjórar systur, þær Maríu Kristínu, Ólöfu, Ásgerði og Guðrúnu.

Eiginmaður Ingibjargar var Guðlaugur Valdimarsson, f. 19.1. 1924, d. 11.11. 1992. Ingibjörg og Guðlaugur gengu í hjónaband 20. júní 1953 og eru börn þeirra: 1) Ester, f. 16.9. 1952, d. 15.7. 2022, maki Sæmundur Karl Jóhannesson. Börn þeirra eru Árný Hulda, Nína Björg og Jóel Ingi. 2) Stefán, f. 8.10. 1956. Fyrri kona hans var Anna Þórsdóttir. Börn þeirra eru Guðlaug Þóra og Björgvin Ingi. Seinni kona Stefáns er Anna Ringsted. Barn þeirra er Jófríður. Fyrir átti Anna Ringsted börnin Helenu, Jakobínu, Gunnbjörn og Fannar. 3) Kolbrún, f. 23.8. 1969, maki Mark R. Eldred. Barn þeirra er Katrín Inga. Auk þess dvaldist systursonur Ingibjargar, Þröstur Óskar Kolbeins, í mörg ár hjá þeim hjónum.

Þegar Ingibjörg var 16 ára fór hún í Alþýðuskólann á Laugum og var þar í tvo vetur þar sem hún stundaði bóknám ásamt frjálsum íþróttum. Haustið 1951 fór hún í Húsmæðraskólann á Laugum og útskrifaðist þaðan vorið 1952.

Ingibjörg starfaði lengst af við þrif í Iðnskólanum í Reykjavík og síðar sem umsjónarmaður í Vörðuskóla á Skólavörðuholti. Ingibjörg gekk til liðs við Félag Framsóknarkvenna árið 1967 og starfaði við ýmislegt hjá félaginu. Eftir að Ingibjörg fór á eftirlaun starfaði hún í mörg ár hjá Mæðrastyrksnefnd.

Útför Ingibjargar fór fram frá Guðríðarkirkju í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Í október hringdi Hjödda systir og færði mér þær fréttir að Inga frænka væri fallin frá. Það fyrsta sem mér datt í hug var að rifja upp símanúmerið á Bergþórugötunni, 21727. Símanúmerin sem lærð voru utan bókar. Leikur barna fólst símanúmerum og bílnúmerum. Ég hef þó gleymt bílnúmerinu hjá Ingu og Gulla.

Inga frænka var ein af þessum fimm fræknu systrum úr Stafni í Reykjadal í Þingeyjarsýslu sem ég horfði upp til alla dag og geri enn. Mínar bestu frænkur. Mín mesta gæfa, í kjölfar skilnaðar foreldra minna, við fjögurra ára aldur, var að ég fékk að fara og fór síðan áralangt að Stafni. Á þann hátt kynntist ég öllu því góða fólki sem þar ól manninn, foreldrar Ingu, sem urðu mér amma Jófríður og afi Helgi. Inga var vissulega mín frænka og Gulli minn frændi ef svo bar við. Fræg er þó sagan af okkur Gulla sitjandi í Vesturstofu, í einsemd, er við uppgötvuðum að við værum ekki af Svaðastaðakyninu og yrðum að bíða af okkur kaffigesti frá Vestur-Íslandi, þá var mikið hlegið.

Það voru líka sérstakir hátíðisdagar þegar von var á þeim að sunnan á fallega Benzinum sem renndi oftar en ekki að hlaðinu á hárréttum tíma. Þau voru góðir ferðalangar í sumarferðum og gleðin og kurteisin við völd. Hulda móðursystur mín var gjörn á að minnast á farsælan fimleikaferil hennar sjálfrar og Ingu, fari ég rétt með, sem fólst í stórkostlegum fimleikasýningum hér og þar, dans og lipurð um alla borg.

Þá skal þess ekki ógetið að félagsstörf Ingu fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík, allar götur, eru þess eðlis að vert er á að minnast með virðingu. Þau eru mikilvæg í stjórnmálaflokkum eða öðru félagsstarfi fólkið sem kemur að hinum og þessum störfum, hvort sem er jólabasar kvenfélags, kjörnefndir eða önnur nefndarstörf. Án þessa fólks væri samfélagið fátækara. Framsókn hefur misst tryggðarvin.

Gott var að eiga skjól hjá þeim hjónum í heimsóknum á Bergþórugötuna. Ég man vel eftir tröppunum, dyrabjöllunni, stiganum, handriðinu, hurðunum tveimur, eldhúsinu, glösunum, mjólkinni, ömmuvínarbrauðinu, rabarbarasultunni, kanilsnúðum, krökkunum, Gulla og Ingu. Ég man þetta allt, man þó mest gestrisnina, virðinguna og ástúðina.

Ég skrifaði minningarorð um Gulla, Guðlaug Valdimarsson (1924-1992) á sínum tíma. Fannst rétt eins og það hefði verið í gær, en það eru 32 ár síðan. Þrjátíu og tvö ár eru langur tími, margt gerst og margt breyst, fleiri fallið frá, Ester mín elskuleg sumarið 2022 sem er einnig eins og í gær. Eftir standa þó kærar minningar um þau góðu hjón. Kæru börn, ættingjar og vinir allir, megi styrkur ykkar felast í góðum minningum, kærleik og ástúð.

Á jarðarfarardegi Ingu frænku var ég staddur í Kaupmannahöfn og bað ég því séra Guðna Má Harðarson að fylgja eftir kveðju minni. Að sama skapi munu þær línur loka núna minningarorðunum. „Kærleikskveðjur til ykkar allra með samúð og söknuð í huga. Víst er það lífsins gangur að óðum hverfa eitt og eitt úr aldamótasveit, þar til ekki stendur eftir neinn sem ól upp þennan reit. Minningar lifa lengur um gott fólk. Hvíl í friði elsku frænka.“

Gunnar Svavarsson.