Björgvin Björgvinsson fæddist 4. október 1943 í Reykjavík. Hann lést á Landakotsspítala 23. desember 2024.
Björgvin var kjörsonur afa síns og ömmu, Björgvins Friðrikssonar bakarameistara, f. 1901, d. 1989, og Mettu Bergsdóttur húsmóður, f. 1902, d. 1983. Dætur þeirra eru Þóra, f. 1928, d. 2016. Erla, f. 1930, Valdís, f. 1935, d. 2018, og Edda, f. 1. júní 1941.
Móðir Björgvins, Þóra Björgvinsdóttir, giftist Friðriki Jóhanni Stefánssyni, f. 1927, d. 2020.
Börn þeirra eru Kristinn Stefán, f. 1950, d. 1950, Erla, f. 1951, Valur, f. 1953, d. 2024, Örn, f. 1953, Metta Kristín, f. 1958, og Björgvin, f. 1961.
Árið 1974 giftist Björgvin Lindu Einarsdóttur, f. 1956. Þau skildu. Barn Björgvins og Lindu er Einar Már, f. 1974, rafmagnstæknifræðingur, maki María Skúladóttir, f. 1974, markaðsstjóri. Synir þeirra eru Björgvin Skúli, f. 2002, nemi og Huginn Lindar, f. 2006, nemi.
Björgvin gekk fyrst í Laugalækjarskóla en svo í Austurbæjarskóla. Hann fór ungur á sjóinn sem bryti á varðskipi. Hann hóf störf í Rúgbrauðsgerðinni hjá afa sínum Björgvini en vegna húðofnæmis þurfti hann að hætta í bakstursgreininni og hóf störf hjá frystihúsinu á Kirkjusandi þar sem hann starfaði til 1986. Hann rak söluturn í Breiðholti árin 1987 til 1993 og starfaði á skrifstofu AA-samtakanna á árunum 1993-2004. Þá rak hann söluturn á Ingólfstorgi frá 2004 til 2011 þegar hann settist í helgan stein.
Útför Björgvins var gerð frá Fossvogskapellu og fór fram í kyrrþey 7. janúar 2025.
Þann 23. desember kvaddi minn kæri faðir, 81 árs að aldri, eftir baráttu við krabbamein. Að missa hann rétt fyrir jólin vakti blendnar tilfinningar. Söknuðurinn er mikill, en um leið er ég þakklátur fyrir öll árin sem við áttum saman.
Pabbi var mikill tónlistaráhugamaður og með góðum græjum hlustaði hann á fjölbreytta tónlist. Moody Blues voru í uppáhaldi og hann talaði oft við mig um þeirra ágæti. Hann smitaði mig af tónlistaráhuganum og kynnti mér alls konar tónlistarstefnur og –strauma sem höfðu mikil áhrif á tónlistarsmekk minn. Ég man sérstaklega eftir þeim stundum þegar við sátum saman á Ingólfsstræti, þar sem hann bjó, og hlustuðum á Rock'n Roll-plötur. Það voru góðar stundir.
Pabbi var vinnusamur maður. Hann starfaði lengi í frystihúsinu á Kirkjusandi sem var eins og stór ævintýraheimur fyrir mig sem barn. Við krakkarnir lékum okkur þar oft á sumrin eða fengum að sinna smávægilegum störfum. Mér fannst þetta góð reynsla og veganesti.
Þegar frystihúsinu var lokað hóf pabbi nýtt verkefni og rak söluturn í Breiðholti í yfir fimm ár. Þar gafst mér einnig tækifæri til að vinna með honum, og ég sá hversu stoltur hann var að hafa mig með sér á vaktinni.
Við pabbi keyptum saman sumarhúsalóð í Heklubyggð, þar sem við gróðursettum tré og ræktuðum okkar eigin skógarreit. Það var eitthvað mjög sérstakt við þessar ferðir; að fara saman upp á lóð, sinna skógræktinni og ræða allt milli himins og jarðar, þótt oftast hafi það nú verið fótbolti.
Pabbi var meðlimur AA-samtakanna í yfir fjörutíu ár og starfaði á skrifstofu þeirra í meira en áratug. Þar eignaðist hann fjölda vina og myndaði sterk tengsl við félaga í samtökunum. Ég hef alltaf verið stoltur af því hversu staðfastur hann var í sinni edrúmennsku, sama hvaða áskoranir komu upp. Til dæmis eftir að pabbi lenti í alvarlegum bruna á lóðinni í Heklubyggð breyttust plön hans um að eyða efri árunum í sveitinni, en hann lét það ekki slá sig út af laginu og fann sinn styrk í samtökunum.
Pabbi var mikill fótboltaáhugamaður og sannur Chelsea-maður í yfir sextíu ár. Hann smitaði mig af áhuganum á fótbolta, þó svo að ég hafi ekki fylgt honum eftir með uppáhaldslið. Það kom þó ekki í veg fyrir að við ættum ótal góðar stundir saman að horfa á leiki, bæði heima og á Ölveri. Ég á líka góðar minningar frá því þegar við fórum saman til London og sáum leik á Stamford Bridge. Það var stór stund fyrir okkur feðga.
Afastrákarnir hans, Björgvin Skúli og Huginn Lindar, voru honum afar kærir. Hann var alltaf forvitinn um hvað væri að gerast í þeirra lífi og sýndi þeim mikinn áhuga. Það var augljóst að hann naut þess að vera með þeim og þeir nutu góðs af nærveru hans. Hann var stoltur afi.
Það er skrítið að hugsa til þess að hann sé farinn, og það skilur eftir tómarúm. En ég kveð hann með miklu þakklæti og hlýju í hjarta fyrir allt sem hann gaf mér og fjölskyldu minni og allar þær stundir sem við áttum saman.
Blessuð sé minning þín, elsku pabbi.
Einar Már Björgvinsson.