Varnarmál Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Varnarmál Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. — Morgunblaðið/Eyþór
Bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra segja að stjórnvöld eigi í nánum samskiptum við önnur ríki Norðurlanda um öryggis- og varnarmál, þótt ráðherrar eigi ekki kost á að sækja alla fundi. Ekki þurfi að óttast að sá málaflokkur sé vanræktur,…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra segja að stjórnvöld eigi í nánum samskiptum við önnur ríki Norðurlanda um öryggis- og varnarmál, þótt ráðherrar eigi ekki kost á að sækja alla fundi. Ekki þurfi að óttast að sá málaflokkur sé vanræktur, þvert á móti sé núverandi ríkisstjórn óbangin við að ræða opinskátt um þau mál, sem hafi ekki verið raunin hjá fyrri ríkisstjórn.

Þetta kom fram í máli ráðherranna, þegar Morgunblaðið ræddi við þá eftir ríkisstjórnarfund í gær.

„Við erum að leggja fram skýrslu um öryggis- og varnarmál til umræðu á þinginu, sem skiptir mjög miklu máli,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

„Við erum búin að ýta af stað ýmsum verkefnum, bæði innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og í samstarfi við Norðurlöndin, bæði hjá utanríkisráðherrum en líka hjá varnarmálaráðherrum. Ég mun hitta varnarmálaráðherra NATO um miðbik febrúar og fara síðan á varnarmálastefnuna í München. Forsætisráðherra líka. Þannig að það er margt í pípunum, margt sem við ætlum að gera enn betur.“

Opnara samtal

„Við höfum verið að taka ákveðin skref og við þurfum að halda áfram að taka þau skref þannig að áherslan hjá okkur er mun ríkari en áður á öryggis- og varnarmál og við erum ekki feimin að tala um þau, eins og kannski hefur verið á síðustu sjö árum, út af samsetningu þeirrar ríkisstjórnar.“

En blasa ekki við nýjar áskoranir, meðal annars hér í næsta nágrenni?

„Mikið rétt. Ég hafði raunar, áður en Trump kom með sínar yfirlýsingar, einsett mér það að efla og styrkja samstarfið við Grænland og það er fyllsta ástæða til, bæði út frá íslenskum hagsmunum, en líka bara út frá þessum alþjóðahagsmunum Grænlendinga og okkar hér á Norður-Atlantshafinu. Það er mikilvægt fyrir okkur að dýpka það samstarf og það ætla ég að gera, líkt og ég upplýsti ríkisstjórnina um áðan og mikil samstaða var um.“

Ráðherra telur rétt að opna betur opinbert samtal um varnar- og öryggismál. Til þess séu allar forsendur í þinginu og meðal þjóðarinnar, og ekki andstaða við nánara samstarf við helstu bandamenn.

Hvað um fund norrænna varnarmálaráðherra, sem þú sóttir ekki?

„Hann átti nú upphaflega að vera fjarfundur …“

Já, en þetta kemur beint eftir að forsætisráðherra sótti ekki fund annarra norrænna leiðtoga um öryggis- og varnarmál. Er ekki áhyggjuefni ef menn fá á tilfinninguna að Ísland sé að verða utanveltu í þeim efnum?

„Það er ekki svo að forsætisráðherra sé utanveltu í þessu máli. Hún hefur verið í mjög djúpu og miklu samtali við alla kollega sína úti.

Það eru ótal ráðherrafundir og upp og ofan hvort ráðherra kemst á þá alla, en mér fannst miður að komast ekki á þennan fund. Ég bara komst ekki á hann því ég var bókuð annars staðar, en taldi mikilvægt að næstráðandi í ráðuneytinu færi, það er alvanalegt.“

Kristrún í nánum samskiptum

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra varð sem kunnugt er af kvöldverði heima hjá Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana um liðna helgi, en þar voru einnig leiðtogar Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, sem átt höfðu fund í danska forsætisráðuneytinu um daginn. En var hún boðin eða var hún aðeins upplýst um fundinn?

„Ég fékk boð um að koma, en það var samdægurs,“ svarar Kristrún.

Á fundinn, sem var þá um daginn?

„Nei, ég var ekki boðuð á hann.“

Er ekki áhyggjuefni ef virst getur sem Ísland sitji ekki við sama borð?

„Það er auðvitað þannig að fólk hittist við alls konar aðstæður. Hinar Norðurlandaþjóðirnar standa frammi fyrir vanda í Eystrasalti, sem við erum kannski ekki beintengd, og það var efni fundarins á sunnudag.“

En dönsku blöðin segja mjög skýrt að fjallað hafi verið um öryggis- og varnarmál á norðurhöfum, um Grænland, yfirlýsingar Trumps o.s.frv. …

„Nú er ég bara að upplýsa þig um hvert var formlegt fundarefni á þessum fundi. En ég hef áður átt símafund með þessum sömu aðilum, þar sem við ræddum þessi mál.

En ég skil spurninguna vel. Almenningur þarf ekki að óttast það að tengslin séu ekki góð. Ég á í persónulegum og reglulegum samskiptum við allt þetta fólk.“

Höf.: Andrés Magnússon