Magnhildur Ólafsdóttir fæddist í Vestur-Skaftafellssýslu 4. júlí 1942. Hún lést 3. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Sveinsdóttir, f. 1910, d. 2005, og Ólafur Jón Hávarðsson, f. 1910, d. 1991. Þau voru bændur í Fljótakróki í Meðallandi.

Systkini Magnhildar eru Hávarður, f. 1944, Margrét, f. 1947, og Guðlaug, f. 1952.

Magnhildur giftist Sigurgrími Jónssyni frá Felli í Mýrdal 1964. Þau skildu árið 1971.

Börn þeirra eru: 1) Ólafur, f. 1962, maki Drífa Nikulásdóttir, f. 1974. Börn þeirra eru a) Ívar Birkisson, f. 1997, maki Svala Guðmundardóttir og eiga þau Birki Hrafn, Fanneyju Ösp og Unu Mjöll. b) Gabríel Snær, f. 2004, maki Hrefna Sif Jónasdóttir. c) Heiðar Magni, f. 2006, maki Emilía Rós Eyvindsdóttir. d) Elísabet Mjöll, f. 2012. 2) Jón, f. 1965, maki Margrét Þorsteinsdóttir, f. 1972. Börn þeirra eru Patrekur Logi, f. 1997, og Alexander Máni, f. 2001, maki Soffía Kristjánsdóttir, f. 2001.

Magnhildur ólst upp á Fljótakrók í Meðallandi, hún flutti um tvítugt til Reykjavíkur og hóf þar nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Hún vann meðal annars hjá Vitamálum en með þeim ferðaðist hún víðsvegar um landið og starfaði sem matráður. Einnig á lögreglustöðinni í Reykjavík, Hótel Loftleiðum, Ríkisútvarpinu og um 1980 fór hún að vinna hjá Hagvirki uppi í virkjunum sem matráður. Hún tók einnig meirapróf og vann við akstur hjá þeim um tíma.

Magnhildur fluttist aftur í sveitina að Króki í Meðallandi 2006 þar sem hún bjó svo til æviloka. Hún var virk í Skaftfellingafélaginu í Reykjavík og svo í seinni tíð hjá Félagi eldri borgara á Kirkjubæjarklaustri.

Magnhildur var mikill matráður og snilldarkokkur.

Hún var iðin við að heimsækja vini sína sem hún hafði unnið með og sótti einnig árlega Holtablótið á Laugalandi.

Útför Magnhildar fer fram frá Prestbakkakirkju á Síðu í Skaftárhreppi í dag, 1. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku tengdamamma.

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja. Hjartað mitt er í svo miklum molum, mikið af mínu dýrmæta fólki flogið á brott á svo stuttum tíma.

Ég kynntist þér aldamótaárið 2000 en þá kynntist ég honum Óla mínum. Við tvær hittumst í fyrsta skiptið í sveitinni góðu sem átti eftir að verða okkur góður staður í framtíðinni.

Í sveitina komum við oft, fyrst með elsta strákinn minn og svo bættust þrjú í viðbót og öll hafa þau komið í sveitina góðu til þín og fengið þar heimsins bestu kjötbollur sem hafa verið lagðar á borð og auðvitað leynidrykkinn þinn. Krakkarnir byrjuðu alltaf á að biðja um leynidrykkinn um leið og í sveitina var komið og alltaf varstu tilbúin í það verkefni.

Ég minnist þín í eldhúsinu að prófa alls konar matarafurðir, en mest blöskruðu mér niðurskornir hrútspungar, bornir fram með smjörsteiktum fíflum, fannst það ekki mjög lystugt. Eins má nefna álinn sem var steiktur á pönnu og þegar hann var borinn á borð fannst mér hann enn hálfspriklandi, en þetta borðaðir þú með bestu lyst.

Þú varst atorkukona mikil og passaðir vel upp á þitt fólk. Dugnaðarforkur í eldhúsinu og einstök með að fara og hitta fólkið sem þú þekktir. Hentir niður hjólunum hér og þar á dósinni þinni og kíktir í kaffi.

Í veislunni sem haldin var heima í brúðkaupinu okkar Óla var mikið fjör, þar stóðst þú uppi með okkur fram eftir nóttu og dansaðir við ungana þína, eins og þú kallaðir ömmubörnin, og næstum síðust í háttinn.

Á áttræðisafmælinu þínu, 4. júlí 2022, komum við öll til þín í sveitina í dásamlegu veðri, borðuðum saman á Kirkjubæjarklaustri og vorum svo í sveitinni, spiluðum kubb úti lengi með mýflugunum og skemmtum okkur konunglega.

Það er endalaust af minningum sem ég gæti rifjað upp með þér.

Kannski má í lokin nefna dásamlega ferð sem við fórum til Egilsstaða með Elísabetu og Heiðari Magna til að vera viðstödd fermingu frænda ykkar.

Við leigðum okkur íbúð og gerðum vel við okkur, fórum í fermingu og hittum ættmenni þín. Við þá sögu má líka bæta þegar þú nefndir að það væri tilboð á N1 og tilvalið væri að skjótast þangað og fylla á bílinn. Ekki vildi betur til en að eitthvert vesen var með dæluna og ég skaust inn á bensínstöðina til að kveikja á dælunni. Þegar ég kom út þá kallaðir þú til mín að allt væri í lagi og bíllinn næstum fullur og auðvitað af bensíni en þetta var jú olíubíll!

Þessi örlitli skottúr okkar endaði svo uppi í sveit á verkstæði þar sem tankað var af honum og við máttum til að fara daginn eftir og fylla hann aftur og auðvitað af olíu, gott tilboð þarna hjá okkur.

Það var erfitt að horfa á þig þegar heilsan fór að gefa sig í ágúst síðastliðnum, smátt og smátt hrakaði heilsu þinni sem svo á endanum leiddi þig í hjólastól og var búin að taka allan þann kraft sem þú áttir.

Takk fyrir þig elsku Magnhildur og allar okkar góðu stundir. Þín verður svo sárt saknað af okkur fjölskyldunni.

Takk fyrir allt, „kiss kiss“.

Þín tengdadóttir,

Drífa.

Elsku amma Magnhildur, þú varst falleg, skemmtileg, ástrík, hjálpsöm, best, geggjuð.

Elsku amma, það var svo erfitt að missa þig. Þú varst svo skemmtileg. Ég á mjög erfitt með að þú sért ekki lengur hér. Ég spurði pabba minn einum degi eftir að hann Nonni og Gabríel kíktu á þig, hann sagði að þú værir bara sofandi og varst það í 2-3 daga, mér brá rosa mikið þegar ég fékk að vita að þú værir búin að vera sofandi í nokkra daga og með lungnabólgu. Og kvöldið 2. janúar 2025 var ég að leita á netinu hvernig lungnabólgu þú varst með því þú svafst í svo marga daga, sem mér fannst bara hættulegt. Ég var í mjög marga daga að finna út af hverju þú vissir ekki hver ég var og öll fjölskyldan þín, elsku amma, mér fannst það bara ofboðslega sárt. En 3. janúar lést þú, sem var ótrúlega sárt því ég hitti þig ekkert á hverjum einasta degi þar sem þú bjóst tveimur klukkutímum frá okkur. Og alltaf þegar við komum í sveitina varst þú brosandi og ánægð fyrir utan fallega húsið þitt en því miður verður það svo mikið öðruvísi því að þú verður ekki þar, sem verður mjög mikið högg fyrir okkur fjölskylduna þína að sjá þig ekki þar núna. En við vitum að þú ert samt allaf hjá okkur elsku amma mín.

Einhvern tímann 2024 bjóst þú hjá okkur í nokkrar vikur og það var svo gaman að hafa þig hjá okkur þá. En núna ert þú í himnaríki og sumarlandinu með Simba, kettinum þínum, sem hét tveimur nöfnum (Dádí og Simbi), ég kallaði hann alltaf Dádí. Ég sakna ykkar svo mikið. Elsku amma mín, ég veit ekki hvernig ég á að lifa lífinu núna án þín, við vorum svo nánar. Ég myndi gera allt til að fá að hitta þig einu sinni enn og segja ég elska þig bara einu sinni enn. En ég get það ekki. Ég hugsa svo mikið um að þú getur ekki verið með mér í fermingunni minni og um jólin og öll afmælin, ég get ekki ímyndað mér að þú sért ekki þarna. Viltu gera það að vera þarna með mér og fjölskyldunni. Ég sakna þín svo mikið og ég sakna að borða með þér, þú gerðir svo góðan mat, elsku amma, og tala við þig og koma í sveitina þegar þú varst þar að taka á móti mér. Mig langar bara að heyra röddina þína aftur, það er ekki nóg að hlusta á hana á vídeói í símanum, ég þarf að heyra hana aftur, hún var svo falleg og ég elska þig svo rosa heitt. Ég vil fá þig til baka, ég óska þess að fá að sjá þig aftur elsku amma mín. Við í fjölskyldunni gerum það öll.

Ég mun elska þig að eilífu og hjartað mitt á eftir að vera brotið að eilífu. Þú ert alltaf hjá okkur, amma, farðu vel með þig í sumarlandinu, elsku amma Magnhildur mín. Þú átt svo fallega, ástríka, skemmtilega og bestu syni í öllum heiminum, þá Ólaf og Jón, þú ólst þá svo vel upp, ég elska þá. Pabbi minn, hann Ólafur, er besti pabbi sem ég hef átt, takk fyrir að vera svona góð móðir við þá og takk fyrir að ala þá svona vel upp, þeir væru ekki hér án þín, ég elska þig.

Láttu ljós þitt skína skært

til þín ég hugsa,

staldra við

sendi ljós

og kveðju hlýja.

Bjartar minningarnar lifa

ævina á enda.

Þín verður sárt saknað.

Kveðja,

Elísabet Mjöll Ólafsdóttir.

Elsku vina mín, nú er komin kveðjustund.

Við bundumst sterkum vinaböndum síðan þú varst barn og varði vináttan alla tíð hjá okkur og börnunum mínum.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég votta börnum þínum, systkinum og fjölskyldum ykkar samúð frá okkur öllum.

Kær kveðja frá mér og börnunum.

Sigurrós (Gógó).