Vinur „Gæludýrin eiga okkur eigendur sína með húð og hári. Eftir að Álfur fór úr heimi hér þá skrifaði ég mig í gegnum sorgina.“
Vinur „Gæludýrin eiga okkur eigendur sína með húð og hári. Eftir að Álfur fór úr heimi hér þá skrifaði ég mig í gegnum sorgina.“ — Ljósmynd/Laufey Konný Guðjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álfur svaf alltaf uppi í hjá mér, á koddanum mínum, við vorum saman frá morgni til kvölds. Hann var fjölskyldumeðlimur sem hefur auðgað líf mitt að fegurð, dýpt og gleði,“ segir Draumey Aradóttir rithöfundur um Álf, hundinn sem hún kvaddi…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Álfur svaf alltaf uppi í hjá mér, á koddanum mínum, við vorum saman frá morgni til kvölds. Hann var fjölskyldumeðlimur sem hefur auðgað líf mitt að fegurð, dýpt og gleði,“ segir Draumey Aradóttir rithöfundur um Álf, hundinn sem hún kvaddi fyrir einu og hálfu ári eftir farsæla og nána sambúð til 13 ára. Nú hefur hún sent frá sér ljóðabókina Brimurð, þar sem lesanda er boðið í ljóðför um hugar- og tilfinningaheim hunds sem veit að hann á stutt eftir í þessari jarðvist.

„Ástvinamissir er ávallt sár, hvort heldur sá sem hverfur til annarrar víddar hefur tvo fætur eða fjóra. En ástin deyr ekki, hún nær yfir allar víddir, því að elska er að lifa. Ég sá viskuna úr augum hans þegar nær dró endalokunum, því fyrir dýrunum er eðlilegt að deyja. Dýrategundin maður á enn svo margt ólært af þessum jarðarsystkinum sínum, ferfætlingunum,“ segir Draumey sem hefur átt yfir tuttugu ketti yfir ævina, en Álfur er fyrsti og eini hundur hennar. „Á milli okkar varð miklu dýpra samband heldur en á milli mín og kattanna. Samband verður alltaf það sem maður gerir úr því sjálfur.“

Örlagaríkt bank á hurð

Álfur kom inn í líf Draumeyjar þegar hún bjó í Svíþjóð.

„Þar bjó ég í sautján ár og var gift sænskum manni fyrstu tíu árin, en svo skildum við og þá lét ég gamlan bernskudraum rætast um að búa í sveit. Ég keypti mér eldgamalt hús úti í sveit á Skáni sem ég gerði upp og ákvað að prófa að fá mér hund, enda var ég með risastóran garð og fjölbreytt dýralíf í nágrenninu, ég vaknaði á morgnana við kúabaul og hanagal. Ég var með fimm ketti á heimilinu, læðu og fjóra kettlinga,“ segir Draumey og bætir við að samband hennar og Álfs hafi verið skrifað í skýin.

„Ég ætlaði að bjarga götuhundi í Póllandi og fann einn slíkan á vefsíðu og borgaði inn á, en tíminn leið og ekkert gerðist og mér tókst ekki að ná sambandi við neinn á þeirri vefsíðu. Þá gripu örlögin í taumana, því dag einn var ég í göngutúr í litlu þorpi í nágrenni mínu og sá íslenska fánann í einum garði. Ég ákveð að banka upp á og kynna mig og dásamleg íslensk valkyrja kom til dyra, eldri kona með rúllur í hári í náttslopp. Hún faðmaði mig og gladdist mjög að hitta Íslending, því hún hafði búið lengi í Svíþjóð og ekki talað lengi við slíkan. Fram í dyrnar kom hundur og konan spurði hvort ég vildi hund. Ég játaði því, en sagðist hafa þegar sótt um einn slíkan, en hún kvaðst geta útvegað mér hund strax, vinkona hennar væri að rækta hunda af tegundinni chinese crested, eða kínverska faxhunda, en hún væri orðin veik og þyrfti að gefa frá sér hundana sína fimm. Ég fékk að hugsa málið, fór heim og skoðaði þessa tegund á netinu, og fannst þetta krúttlegir hundar, en ég vissi ekkert um hunda og kunni ekki neitt. Ég vissi ekki að þeir væru ólíkar persónur með ólíka hegðun innan tegundar. Þegar við konan sem átti hundana spjölluðum saman í síma þá spurði hún hverju ég væri að leita að í hundi, og ég sagðist vilja rólegan hund sem gæti kúrt hjá mér og þyrfti ekki rosalega mikla hreyfingu. Hún vissi strax hvaða einstakling ég ætti að fá af þessum fimm, sagðist hafa haldið honum eftir ef hún gæti. Það var Álfur. Ég sótti hann til hennar í Smálöndin og þetta var þvílík ást á milli okkar Álfs frá upphafi.“

Grét ofan í lyklaborðið

Draumey segir að Álfur hafi verið þrítyngdur.

„Ég kenndi honum allar skipanir á sænsku til að geta sett hann í pössun. Hann hafði sitt hundamál sem hann tjáði með augum, skotti, fasi og bofsi. Hann lærði tvö íslensk orð úti í Svíþjóð af íslenskum gestum sem komu til okkar, því þegar þeir fóru að huga að heimför sögðu þeir alltaf jæja. Alla tíð síðan, ef einhver sagði jæja, þá stóð Álfur upp alveg viss um að einhver væri að fara eða koma. Hitt íslenska orðið sem hann lærði úti var nammi, því gestir gerðu mikið af því að gauka slíku að honum og segja orðið. Þegar við fluttum svo heim til Íslands þurfti ég að kenna honum allar skipanir á íslensku, til að geta sett hann í pössun, og hann lærði þau strax,“ segir Draumey sem lætur Álf hafa orðið í nýju ljóðabókinni.

„Hann er ljóðmælandinn í Brimurð og rifjar til dæmis upp ýmsa viðburði úr lífi sínu, meðal annars ferðina til Íslands, sem var það erfiðasta í hans lífi, hann þurfti að vera í einangrun í fjórar vikur. Að búa með dýri er mikil kennsla í ást og tengslum, dýrin elska skilyrðislaust og kalla fram allt það besta í okkur mannfólkinu. Þau kenna okkur svo mikið um ástina, endalausa þolinmæði, umburðarlyndi og blíðu, þau færa okkur kyrrðina sem við sannarlega þurfum. Gæludýrin eiga okkur eigendur sína með húð og hári. Eftir að Álfur fór úr heimi hér þá skrifaði ég mig í gegnum sorgina, ég notaði veturinn í fyrra til að skrifa þessa ljóðabók. Mér finnst það góð leið, ég grét ofan í lyklaborðið með klósettrúllu hjá mér til að þerra tárin. Góð lækning felst í því að leyfa tárunum að flæða, af því að maður kemst ekkert fram hjá sorg, maður þarf að fara í gegnum hana. Mér finnst hjálpa að skrifa, fara þannig í gegnum minningarnar og þannig komst ég fyrr í gegnum sorgina og er orðin ríkari.“

Draumey segist fyrst núna geta opnað á þann möguleika að fá sér annan hund.

„Ég gat ekki hugsað þá hugsun fyrr, en núna finn ég vel þetta öryggi, að Álfur býr í hjartanu á mér, hann er alltaf með mér, hann fer ekkert. Ég er búin að hitta þrjá miðla á þessu ári og alltaf kom fram lítill hvítur tifandi hundur sem tiplaði á eftir mér og settist við fætur mína. Þetta er eilíf ást.“

Útgáfuhóf Brimurðar verður haldið fimmtudaginn 6. febrúar kl. 17 í bókakaffinu á Norðurbakka 1 í Hafnarfirði. Þar mun Draumey lesa ljóð úr bókinni en kynnir verður dóttir hennar, Sunna Dís Másdóttir, sem einnig er skáld og rithöfundur. Öll eru hjartanlega velkomin, ekki síst dýravinir, og verður bókin á sérstöku tilboðsverði á staðnum. Brimurð er áttunda bók Draumeyjar, sem hefur „með síðustu tveimur ljóðabókum sínum, Varurð og Einurð, markað sér bás meðal áhugaverðustu ljóðskálda á Íslandi,“ svo vitnað sé í Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntagagnrýnanda í ritdómi hennar um Einurð.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir