Hjördís Alda Ólafsdóttir fæddist á Ísafirði 16. maí 1927. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 17. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru Ólafur Ágúst Halldórsson fiskimatsmaður, f. 1895, d. 1976, og Guðríður Brynjólfsdóttir, f. 1891, d. 1969. Bræður hennar voru Guðmundur Jóhann, f. 1917, d. 1925, Halldór Magnús, f. 1921, d. 2009, og Sverrir Ágúst, f. 1923, d. 1923.
Hjördís Alda sleit barnsskónum á Ísafirði. Hún giftist Guðmundi Skúlasyni 23. desember 1951 og eignuðust þau þrjú börn:
1) Guðríður Brynja, f. 21. ágúst 1952, maki hennar er Þorlákur Kjartansson, f. 19. desember 1952. Börn þeirra eru: Kristján Geir, f. 1974, Viðar, f. 1977, Bjarki, f. 1977, og Grétar Berg, f. 1982.
2) Ólafur Þór, f. 13. apríl 1956, fráskilinn, börn hans eru: Hjördís Eva, f. 1980, Stefán Þór, f. 1981, Árni Björn, f. 1983, og Hjörtur, f. 1991.
3) Margrét Anný, f. 26. mars 1964, fráskilin, börn hennar eru: Erna Lind f. 1981, Guðmundur Orri, f. 1986, Magni Þór, f. 1989, og Haukur Snær, f. 2000.
Barnabarnabörn Hjördísar Öldu er orðin 18 talsins.
Hjördís Alda bjó alla sína tíð á Ísafirði. Hún var húsmóðir og vann við rækjupillun, skúraði í Kaupfélagi Ísfirðinga um tíma en vann lengst af í Íshúsfélagi Ísfirðinga og lauk starfsferli sínum þar vegna aldurs.
Útför Hjördísar Öldu fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 1. febrúar 2025, klukkan 14.
Streymt verður frá útförinni á Facebook-síðu Viðburðastofu Vestfjarða.
Kærleikur er orðið sem kemur upp þegar ég hugsa um fyrrverandi tengdamóður mína.
Hún sagði alltaf við mig að hún ætlaði ekki að verða gömul kerling, og hefði sjálfsagt ekki trúað því að hún ætti eftir að verða 97 ára.
Alda vann ýmis störf utan heimilis, en frá því að ég kynntist henni starfaði hún í Íshúsfélagi Ísfirðinga við fiskvinnslustörf. Þar starfaði ég einnig um tíma. Þetta var stór vinnustaður og oft glatt á hjalla. Hún var brosmild, með fallega útgeislun og góðvild sem lýsti sér best í því að hún talaði við margt af útlendu fólki sem vann með henni þó svo að hún kynni ekki tungumálin og sýndi þeim kærleik. Leiddi það til góðrar vináttu á milli hennar og margra kvenna, sem varði árum saman þó svo þær flyttu annað.
Alda var húsmóðir af gamla skólanum á þann hátt að heimilið var henni mikilvægt, mjög hreinlegt, þvotturinn hvítur og fallegur. Lærissneiðar, fiskibollur, rabarbarasulta og snillingur að baka, hvort heldur sem var lagkökur, vínarbrauð, pönnukökur, fræga fjölskylduperutertan og fleira og fleira.
Hún hafði mikið yndi af tónlist og lestri.
Ég sé hana fyrir mér sitjandi í eldhúsinu að lesa blöðin, skoða gamlar myndir, glugga í bækur eða hlusta á tónlist. Hún elskaði fallega tónlist og pantaði reglulega í póstkröfu ef það var eitthvað sem heillaði, t.d. kassettu austan af fjörðum með Danshljómsveit Friðjóns eða lög Sigfúsar Halldórssonar sem Guðmundur Guðjónsson söng … að ógleymdum Jim Reeves – þvílík dásemd.
Ég var á 17. ári þegar ég kom fyrst inn á heimilið hjá þessari kærleiksríku konu en örlögin höguðu því svo að Alda var tengdamóðir mín í tæp 30 ár og amma fjögurra barna minna.
Alda og eiginmaður hennar, Guðmundur Skúlason, gengu veginn saman, sem var alls konar, stundum hlykkjóttur og með brekkur en stundum beinn og breiður. Þannig er lífið.
Vinátta okkar Öldu var mjög einlæg og má segja að hún hafi ávallt staðið mér við hlið, en við gátum talað um alla hluti og varð aldrei sundurorða. Hélst sú vinátta og stuðningur áfram þó svo breytingar hafi orðið á mínum högum.
Börnunum var hún alltaf yndisleg amma, og eiga þau margar fallegar minningar frá liðnum tíma.
Alda var afar líkamlega hraust fram á síðustu daga, en minnið var farið að gefa sig. Ég trúi því að hún hafi verið tilbúin að kveðja og þakka ég fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig með ást og virðingu.
Hulda Hafsteinsdóttir.
Þá eru amma og afi á Seljalandsveginum sameinuð á ný og Alda amma búin að fá hvíldina sem hún var búin að bíða svo lengi eftir.
Það var alltaf gott að koma í ömmu og afa hús. Við systkinin áttum heima stutt frá, svo að auðvelt var að skottast yfir til ömmu í eitthvert góðgæti. Amma var nefnilega ægilegur sælkeri. Ef maður gat treyst á eitthvað þá var það að það var alltaf til eitthvað gott að bíta í heima hjá ömmu. Þar lærðum við krakkarnir m.a. að drekka kaffi. En það þótti sjálfsagt að gefa ungdómnum kaffi í þá daga með miklum sykri og mjólk og dýfa svo góðri Ísafjarðarkringlu í kaffið. Amma gat verið stríðin og glettin við okkur barnabörnin, en umfram allt ótrúlega blíð og yndisleg kona sem gaf mikið af sér til fólks sem hana þekkti. Amma bjó yfir miklum náungakærleik og hafði samkennd með fólki, sérstaklega fólki sem kom langt að frá öðru landi og þekkti fáa sem enga á Ísafirði. Hún hafði einstakt lag á að gefa sig að fólki og vildi aðstoða og vera til taks. Amma var móðir einstaklinga á Ísafirði sem töluðu ekki íslensku og sem barn fann ég hversu þakklát þetta fólk var henni ömmu minni og var ég stolt af góðmennsku hennar. Hún var fjölskylda þess á Ísafirði. Amma átti góðar vinkonur sem kíktu reglulega í kaffi og hún til þeirra. Hún var mjög dugleg að hjóla um Ísafjörð á hvíta fáknum sínum. Hún tók aldrei bílpróf og saknaði þess heldur ekki, „hún getur ekki saknað einhvers sem hún hefur ekki,“ sagði hún. En henni þótti samt mjög gaman að vera í bíl, og fara í bíltúra, hvort sem það var um Ísafjörð og nágrenni eða lengri ferðir. Ef einhver í ættinni fór frá Ísafirði í langferð á bíl var það óskrifuð regla að koma við á Seljalandsveginum, þar sem amma signdi bílinn í bak og fyrir. Það var ákveðið öryggisnet að ættmóðirin samþykkti ferðina og að englar Guðs fylgdu með og héldu verndarhendi yfir ferðalöngunum. Sem krakki fannst mér þetta bæði fallegt og nauðsynlegt. Amma ræktaði sína trú allt til dauðadags. Amma var nægjusöm og lifði lífinu eftir því, henni fannst gaman að sletta í dönskunni og talaði oft um gamla tímann í eldhúsinu, m.a. þegar Danirnir voru hér á Ísafirði þegar hún var ung, þar lærði hún dönskuna. Eftir að hún hætti að vinna í Íshúsfélaginu gerði hún leikfimisæfingar sínar samviskusamlega á morgnana í eldhúsinu. Hún hugsaði um heilsuna, sem skilaði henni langlífi. Hún hvorki reykti né drakk, tók sitt lýsi og vítamín og talaði um hvað osturinn væri nú góður fyrir beinin í okkur. Hún var forvitin um mann og annan eins og er í litlum bæjarfélögum, og var alltaf stór sjónauki í eldhúsinu sem við barnabörnin kíktum stundum í til að sjá hver væri nú að rölta niður bæjarbrekkuna eða koma frá sjúkrahúsinu. Það var oft farið í sjónaukann á Seljalandsveginum til að greina mann og annan á göngu sinni um bæinn.
Ég minnist ömmu með mikilli hlýju og þakklæti og minnist góðra stunda með henni. Takk fyrir samfylgdina, elsku amma nafna mín, þú verður alltaf hjá mér í hjarta mínu.
Hjördís Eva Ólafsdóttir.
„Sendu nú gullvagninn að sækja mig.“ Hugur minn reikar aftur í tímann. Ég sé ömmu fyrir mér glaðlynda í eldhúsinu á hlýlegu heimili sínu á Seljalandsveginum. Gullvagninn með Björgvini Halldórssyni er í útvarpinu. Amma hækkar eilítið, hlær og segist halda upp á lagið. Morgunblaðið er opið á eldhúsborðinu, amma hafði verið að lesa minningargreinarnar. Ilmurinn af lambahryggnum, sem er inni í gömlu rafha-eldavélinni sem sér ekki á, leikur um húsið. Eins og venjulega er mér boðið heimabakað bakkelsi, vínarbrauð og marmarakaka. Amma stússast í eldhúsinu á meðan ég gæði mér á kræsingunum. Hún er í gulum stuttermabol og gægist út um eldhúsgluggann með sjónauka sem hún geymir þar við hliðina. Hún er að horfa á afa fara á hjólinu niður í bæ. Við spjöllum svo um allt hvaðeina og hún biður guð að blessa mig áður en ég kveð að sinni, heittrúuð konan.
Þau voru óteljandi skiptin sem maður gekk inn á heimili ömmu og afa án þess að gera boð á undan sér, vitandi að maður var velkominn. Oftsinnis voru þar einnig önnur barnabörn þeirra. Amma var alltaf svo hlý og góð og ekki skrítið að við barnabörnin sæktum til hennar. Í rólegheitin, hlýjuna, bakkelsið og cocoa puffsið. Ekki skemmdi fyrir að hún og afi voru með áskrift að Stöð 2.
Amma hafði alltaf frá mörgu að segja frá gamalli tíð. Eftir á að hyggja er ótrúlegt að hugsa til þeirra breytinga sem fólk af hennar kynslóð upplifði yfir æviskeiðið. Hún mundi vel eftir stríðsárunum og lýsti því hlæjandi þegar móðir hennar og aðrar konur hlupu æpandi um gólf þegar flugvélar flugu yfir fjörðinn og pökkum var varpað frá borði, enda óttuðust þær raunverulega að um sprengjur væri að ræða. Hún lýsti því að sem ung kona starfaði hún við að handpilla rækjur. Svo notaði hún hluta launanna til að fara í bíó í Alþýðuhúsinu þar sem miðinn kostaði 2 krónur og 50 aura. Hún lýsti því jafnframt margsinnis hvernig búskapur hennar og afa var þegar þau bjuggu með tvö börn í íbúð sem var rétt um 20 fermetrar.
Þegar aldurinn færðist yfir og langömmubörnin komu í heimsókn var skemmtilegt að sjá ömmu atast í börnunum. Hún hafði mjög gaman af börnum og fannst skemmtilegt að stríða þeim á góðlátlegan hátt. Ég man hvernig hún skellihló þegar hún sagði mér að eitt langömmubarnið hefði spurt hana hvers vegna hún væri með svona mörg strik í andlitinu.
Á kveðjustund er gott að finna til þakklætis. Ég þakka ömmu einlæglega fyrir alla hlýjuna og ástina sem hún gaf frá sér svo eftir var tekið. Takk fyrir að vera alltaf svona blíð og láta góðvildina alltaf vera yfirsterkari sama hvað gekk á. Ég trúi að afi hafi tekið á móti þér á gullvagninum og nú, sameinuð á ný, dansið þið í sumarlandinu.
Stefán Þór Ólafsson.