Núverandi flugstöð Eins og sjá má er hún samansafn margra bygginga frá ólíkum tímum og fyrir löngu orðin úrelt.
Núverandi flugstöð Eins og sjá má er hún samansafn margra bygginga frá ólíkum tímum og fyrir löngu orðin úrelt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra hefur hug á að efla Reykjavíkurflugvöll og beita sér fyrir því að ný flugstöð verði byggð. Þetta kemur fram í skriflegu svari upplýsingafulltrúa innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra hefur hug á að efla Reykjavíkurflugvöll og beita sér fyrir því að ný flugstöð verði byggð.

Þetta kemur fram í skriflegu svari upplýsingafulltrúa innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins. Í sumar verða fimm ár liðin síðan áform um nýja flugstöð voru fyrst kynnt á ríkistjórnarfundi.

Fyrir liggur að flugstarfsemi verður óbreytt á Reykjavíkurflugvelli næstu 15-20 árin hið minnsta. Núverandi flugstöð er orðin gömul og slitin og mikil þörf á nútímalegri byggingu.

Fram kemur í svari ráðuneytisins að unnið hafi verið að undirbúningi nýrrar flugstöðvar um langt skeið og nýr ráðherra hyggist fara vel yfir stöðu málsins og fyrirliggjandi valkosti.

Ný samgönguáætlun

Á næstu vikum og mánuðum verði unnið nánar að undirbúningi nýrrar samgönguáætlunar.

Gert var ráð fyrir fjármögnun flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll í tillögu að nýrri samgönguáætlun fyrir tímabilið 2024-2038 sem ekki náði fram að ganga á Alþingi í fyrra.

Samkvæmt henni átti að setja 140 milljónir í verkefnið árið 2024, 960 milljónir 2025 og 600 milljónir 2026. Alls eru þetta 1.700 milljónir króna.

Í fjárlögum fyrir árið 2025 verður 4,7 milljörðum kr. varið til málefna er varða innanlandsflugvelli víða um land, þar af um 1,4 mö.kr. til framkvæmda. Það sem snýr að Reykjavíkurflugvelli er annars vegar fjármögnun fjarstýrðs flugturns og hins vegar viðhald bygginga, flugbrauta og hlaða.

Það var hinn 12. júní 2020 að innviðaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um að áform og viðræður um nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli hefðu verið kynnt á ríkisstjórnarfundi þá um morguninn.

Gert væri ráð fyrir endurbyggðri 1.600 m² flugstöðvarbyggingu á núverandi stað. Samningaviðræður væru hafnar við Air Iceland Connect (nú Icelandair) um að koma að uppbyggingu flugstöðvarinnar með þátttöku fjármála- og efnahagsráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Isavia.

„Núverandi flugstöð á Reykjavíkurflugvelli er orðin lúin, að hluta til í gámaeiningum og löngu tímabært að bæta aðstöðu fyrir farþega og starfsmenn. Eins og áður hefur komið fram náðist samkomulag við Reykjavíkurborg í nóvember 2019 um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur verður tilbúinn. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlands- og sjúkraflugs og hefur oftast verið tilgreindur sem varaflugvöllur á undanförum árum,“ var haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Reykjavíkurborg veitti framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flugstöð hinn 27. ágúst 2019. Bygginguna má fjarlægja ef flugstarfsemi verður hætt í Vatnsmýrinni.

Ástandsskoðun á flugstöðinni leiddi í ljós að núverandi byggingar væru í mun verra ástandi en talið var í fyrstu. Því yrðu kannaðar leiðir til að byggja nýja flugstöð í stað þess að nýta eldri byggingar.

Morgunblaðið hefur af og til frá árinu 2020 spurst fyrir um það hjá innviðaráðuneytinu hvernig gangi að undirbúa flugstöðina.

„Málið er í vinnslu í samvinnu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og er þess vænst að niðurstaða fáist í það á næstunni.“ Þetta sagði upplýsingafulltrúi innviðaráðneytisins í frétt sem birtist 26. maí 2022.

„Einnig verður hafin vinna vegna endurbyggingar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Unnin verður þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum ásamt hönnunarundirbúningi.“

Þetta sagði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins í Morgunblaðinu 3. mars 2024.

Aðkoma einkaaðila?

Hann bætti við að innan ráðuneytisins væri til skoðunar hvort hægt sé að fara aðrar leiðir í fjármögnun verkefnisins en með beinum framlögum af samgönguáætlun. Ef af yrði gæti það aukið svigrúm innan samgönguáætlunar til flýtingar á öðrum framkvæmdum á flugvöllum hérlendis.

„Verið er að skoða hvort hægt sé að fjármagna verkefnið með aukinni aðkomu einkaaðila. Sú vinna er á algjörum byrjunarreit.“

Nú er nýr ráðherra tekinn við og hreyfing gæti komist á málið.

Flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli stendur við Þorragötu 10 og er í eigu Iceeigna ehf., fasteignafélags Icelandair. Komið hefur til tals að Icelandair selji ríkinu flugstöðina.

Elstu húsin eru frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Síðar hefur verið byggt við hana í nokkrum áföngum, t.d. gámahús árið 2010.

Á undanförnum árum hefur verið skoðað hvort heppilegra sé að reisa flugstöð á öðrum stað í Vatnsmýrinni, t.d. nálægt Umferðarmistöðinni eða við Hótel Loftleiðir. En að lokum hefur það verið niðurstaðs sérfræðinga að núverandi staðsetning væri heppilegust.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson