[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Gunnarsson skrifaði bráðsnjalla grein í Skírni 2014, Um handfrjálsan búnað hugans og höfund Njálu (sjá: https://timarit.is/page/7027645#page/n41/mode/2up). Njáls saga er þar í fyrirrúmi og Pétur sýnir með dæmum hvernig höfundur hennar leitar…

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Pétur Gunnarsson skrifaði bráðsnjalla grein í Skírni 2014, Um handfrjálsan búnað hugans og höfund Njálu (sjá: https://timarit.is/page/7027645#page/n41/mode/2up). Njáls saga er þar í fyrirrúmi og Pétur sýnir með dæmum hvernig höfundur hennar leitar efniviðar suður um löndin til klassískra og kristilegra rita, ekki síst biblíunnar sem var „klerklærðum miðaldamanni ótæmandi umhugsunarefni“.

Um klassísk áhrif vísar Pétur meðal annars í söguna af heimkomu Ódysseifs og áhrif hennar á síðustu vörn Gunnars á Hlíðarenda. Eiginkonur beggja eru nærstaddar; og báðir grípa til bogans. Formerkin eru að vísu öfug: Ódysseifur lifir en Gunnar deyr; Penelópa er manni sínum trú en slíkt verður víst seint um Hallgerði sagt. Pétur minnir á að á tímanum fyrir skráningu Njálu (um 1280) voru latnesk rit þýdd á íslensku, sbr. Alexanders sögu (þar sem m.a. standa orðin „bleikir akrar“!).

Minnisstæð eru orð veislusveinsins í Lundi í Reykjardal sem sagði við leikfélaga sinn í áheyrn Hrúts Herjólfssonar: „Ég skal þér Mörður vera og stefna þér af konunni [þ.e. Unni] og finna það til foráttu að þú hafir eigi sorðið hana.“ Sveinninn vísaði þarna í hið fræga skilnaðarmál þegar Unnur, dóttir Marðar gígju (og síðar móðir Lyga-Marðar), sagði skilið við Hrút. Pétur tengir þessa eftirminnilegu frásögn við kirkjurétt, sem lagður var grunnur að á Ítalíu um miðja 12. öld. Þar segir að stofnun hjónabands sé tvíþætt ferli: annars vegar þegar hjónin komast að samkomulagi að eigast og hins vegar þegar samningurinn er uppfylltur með samförum. Pétur hnykkir á og segir: „Árið 1206 bætti Innocent [páfi] III. við ákvæði þar sem fjallað er um tilfelli þar sem hjónin gátu ekki notist vegna stærðarmunar kynfæranna. Innocent úrskurðaði að hjónabandinu mætti slíta …“

Í Njálu er Mörður gígja (10. öld) þannig látinn nýta sér nýjustu kirkjuréttarákvæði 12. og 13. aldar til að leysa dóttur sína úr klóm Hrúts.

Menn hafa löngum undrast að Njálssynir skuli hafa látið Lyga-Mörð ginna sig til að vega Höskuld Hvítanessgoða. Pétur leysir vandann: hann sér þetta voðaverk sem tilbrigði við frásögnina í I. Mósebók 37. kafla. Pétur segir: „Eins og Höskuldur var augasteinn Njáls, var Jósef augasteinn Jakobs sem hafði átt hann í elli sinni líkt og Njáll sem gekk Höskuldi í föðurstað aldraður. Og eldri bræður Jósefs öfunduðu hann líkt og Njálssynir taka að öfunda uppeldisbróður sinn. Bæði bræðrasettin afráða að drepa þann yngsta. Jósef er að binda kornbundin á akri, og Höskuldur tók sér kornkippu í hönd og fór út að sá.“ Pétur tilgreinir fleiri hliðstæður, sbr. blóðuga kyrtilinn; einnig kristileg lokaorð Höskulds: „Guð hjálpi mér en fyrirgefi yður.“

Og Njálsbrennu sér Pétur sem „augljósa táknmynd fyrir hreinsunareldinn“ og áréttar það með tilvitnun í orð Njáls: „Guð mun ekki láta okkur brenna bæði þessa heims og annars.“