Hinn myrti hafði brennt Kóraninn og Svíar útiloka ekki aðild erlendra afla

Enn eitt morðið framið í Södertälje. Að þessu sinni var fórnarlambið maður sem hafði valdið uppnámi um allan heim. Salwan Momika var kristinn Íraki sem hafði leitað hælis í Svíþjóð. Hann var mikill andstæðingur íslamista og vakti athygli á málstað sínum með mótmælafundum þar sem hann lagði eld að helsta trúarriti þeirra, Kóraninum.

Í eitt skipti vafði hann beikoni utan um bókina og brenndi úr henni blaðsíður. Momika vissi hvernig hann átti að fara að því að æsa upp andstæðinga sína og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Arabaríki um allan heim fordæmdu Svía og nokkur þeirra kölluðu sendiherra sína í Svíþjóð heim. Í Bagdad var gerð árás á sænska sendiráðið. Recep Erdogan, forseti Tyrklands, brást hinn versti við. Þetta var á sama tíma og umsókn Svía um inngöngu í Atlantshafsbandalagið var til umfjöllunar, og nei frá Tyrkjum hefði dugað til að henni hefði verið hafnað.

Kínverjar tóku undir þennan hneykslunarkór við fögnuð arabaheimsins. Það er til marks um tvískinnunginn í þessum málum að í Kína er verið að þurrka út menningu og arfleifð Úigúra, sem eru múslimar. Þar hefur einni milljón manna verið varpað í fangabúðir undir því yfirskini að um endurmenntun sé að ræða. Ekki tryllist arabaheimurinn yfir því eða ræðst inn í sendiráð, en allt fer á annan endann þegar kveikt er í bók.

Þó stóð sænska ríkið ekki á bak við mótmælin og brunann á Kóraninum, heldur einstaklingur búsettur í Svíþjóð. Kínverska ríkið dembir hins vegar Úigúrunum í fangabúðirnar.

Auk þess hugðust sænsk yfirvöld í upphafi meina Momika að mótmæla og brenna Kóraninn. Lögreglan hafði synjað honum um leyfi, en hann leitaði til dómstóla, sem töldu það sjálfsagt, ekki bara á einu heldur tveimur dómstigum. Hér var málfrelsið í húfi og rök lögreglu um að banna ætti mótmæli hans af öryggisástæðum voru léttvæg fundin.

Þegar Momika var myrtur var hann í beinni útsendingu á félagsmiðlum. Útsendingin mun hafa haldið áfram þar til lögregla kom á vettvang. Ekki er ljóst af fréttum hvort morðið sást, en fram hefur komið að hann hafi farið fram á svalir.

Morðið var framið á miðvikudag, daginn áður en dómur átti að falla í máli sem höfðað var gegn honum og öðrum manni fyrir hatursáróður í fjögur skipti árið 2023 gegn múslimum. Því var aflýst og sagði dómarinn að ekki yrði kveðinn upp dómur yfir látnum manni, en dómur verður kveðinn upp yfir félaga hans, Salwan Najem, í næstu viku. „Ég er næstur,“ skrifaði Najem á félagsmiðlinn X eftir morðið og sagðist í viðtölum við sænska fjölmiðla hafa fengið morðhótanir.

Mennirnir fimm, sem voru handteknir, eru allir búsettir í Svíþjóð. Einhverjir þeirra munu vera á sakaskrá, en ekki allir.

Ulf Christerson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að þetta mál væri rannsakað af fullum þunga og alls ekki væri útilokað að erlend öfl stæðu að baki morðinu.

Morðið hefur vakið ugg á Norðurlöndum. Danskir fjölmiðlar segja frá því að lögreglan og danska leyniþjónustan hafi til skoðunar hvort grípa eigi til sérstakra aðgerða, þar á meðal að veita mönnum, sem gætu verið í hættu, vernd.

Þetta mál minnir á uppnámið vegna 12 skopteikninga sem birtust af spámanninum Múhameð í danska blaðinu Jyllandsposten. Reyndar liðu nokkrar vikur áður en það hófst, en með einbeittum vilja til að vekja reiði í garð hinna úrkynjuðu Vesturlanda tókst að æsa fólk upp þannig að segja má að arabaheimurinn hafi logað.

Einnig má rifja upp árásina á ritstjórn franska tímaritsins Charlie Hebdo fyrir áratug.

Íslamistarnir eru heldur ekki tilbúnir að gleyma. Khomeini erkiklerkur í Íran gaf út dauðatilskipun á hendur rithöfundinum Salman Rushdie árið 1989 vegna bókarinnar Söngvar Satans. Rushdie var í felum um árabil, en ákvað að lokum að stíga fram og reyna að lifa lífi þar sem hann gæti um frjálst höfuð strokið. Það gekk lengi vel, en árið 2022 réðst maður á hann og stakk hann margsinnis með hnífi. Rushdie lifði árásina af og kom meira að segja hingað til lands í fyrra.

Öfgafullir íslamistar láta hvað eftir annað til skarar skríða. Þeir hreiðra um sig á Vesturlöndum – í samfélögum sem þeir fyrirlíta en veita þeim engu að síður skjól og meira frelsi til að athafna þig en þeir nokkurn tímann fengju „heima“ hjá sér. Þessa mótsögn þurfa Vesturlönd að glíma við – finna lausn á því hvernig eigi að bregðast við þessum háska án þess að gefa afslátt af þeim gildum sem eru undirstaða opins samfélags.