Uppreisnarhópurinn M23 hélt áfram sókn sinni í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í gær, en hópurinn nýtur stuðnings stjórnvalda í nágrannaríkinu Rúanda. Hópurinn náði fyrr í vikunni landamæraborginni Goma á sitt vald en leiðtogar hans hafa heitið því að þeir muni sækja alla leið að höfuðborginni Kinshasa.
Vígamenn M23-hópsins voru í gær sagðir stefna hraðbyri að borginni Kavumu, en þar er jafnframt mikilvægur herflugvöllur. Þá hefur stjórnarher Kongó sett upp varnarlínur við borgina, en hún er um 40 km norðan við héraðshöfuðborgina Bukavu. Gæti hún því fallið næst, nái uppreisnarmenn að rjúfa varnir stjórnarhersins.
Forseti Kongó, Felix Tshisekedi, sagði fyrr í vikunni að herinn myndi gefa uppreisnarmönnum „öflugt svar“, en stjórnvöld hafa m.a. leitað eftir aukinni skráningu ungra manna í herinn á síðustu dögum.
Rakið til þjóðarmorðsins
Átökin nú eru hluti af lengri ófriði sem á rætur að rekja til þjóðarmorðsins á Tútsum í Rúanda árið 1994. Fjöldi Húta flúði eftir þau yfir landamærin til Kongó, og hafa stjórnvöld í Rúanda sagt að helsta markmið sitt sé að fella vígamenn sem hafi tekið þátt í þjóðarmorðinu. Þau hafa hins vegar verið sökuð um að vilja sölsa undir sig mikilvægar námur í austurhluta Kongó.
Forseti Rúanda, Paul Kagame, hefur neitað því að land sitt eigi einhvern þátt í sókn M23-hópsins, en Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína, Bretland og Frakkland hafa öll skorað á landið að kalla hermenn sína frá Kongó. Þá lýstu Bretar því yfir í fyrradag að þeir myndu endurskoða þróunaraðstoð til landsins vegna átakanna.