Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Með því að tryggja stöðugt framboð raforku til almenna markaðarins væri garðyrkjunni komið í betra skjól,“ segir Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks og áður orkumálastjóri. „Kaup garðyrkjubænda á raforku eru ekki meiri en svo að þeir teljast ekki stórnotendur, eins og álverin. Stöðu almennra notenda þarf að tryggja betur í löggjöf, sem er hægt í regluverki Evrópusambandsins sem miklu ræður á raforkumarkaði á Íslandi. Evrópureglur um þetta gefa líka talsverðan sveigjanleika þegar litið er til fæðuöryggis og loftslagsmarkmiða.“
Útkoma ekki þróuð
Þröng staða er í garðyrkjunni vegna mikillar hækkunar á raforku sem keypt er til lýsingar í gróðurhúsum, eins og þarf nú í svörtu skammdegi. Í Morgunblaðinu í vikunni var sagt frá garðyrkjubændum í Hrunamannahreppi sem standa nú frammi fyrir því að rafmagnsreikningurinn í búskap þeirra hefur hækkað um ríflega 40% á hálfu ári. Sá stendur nú í rúmlega 10 millj. kr. á mánuði sem skapar umræddum bændum og öðrum í líkum aðstæðum vanda, sem nú er ræddur á vettvangi ríkisstjórnar.
„Ljóst er að nýr veruleiki orkupakka Evrópusambandsins blasir við án þess að samtal hafi verið tekið við þjóðina um útkomuna eða skynsamleg útfærsla þróuð. Iðnaður líður víða fyrir, eins og mikið hefur verið fjallað um í Noregi eftir að ríkisstjórnin spakk þar í landi vegna orkupakka,“ segir Halla Hrund sem kveðst munu taka þessi mál upp á Alþingi sem kemur saman til funda í næstu viku.
Halla Hrund telur mikilvægt að nálgast orkumál á Íslandi með breyttu móti. Þar komi til að mikil tækifæri séu hér tengd jarðhita, orku og þar með garðyrkju. Hún minnir líka á að samfélagshugsun hafi hingað til einkennt orkuuppbyggingu á Íslandi, en nú hafi hagnaðarsjónarmið verið sett ofar en var. Stefna Landsvirkjunar sé sú að hámarka hagnað en víkka mætti eigendastefnuna svo fyrirtækið styðji betur við markmið um fæðuöryggi.
„Án slíkra samfélagslegra áherslna í bland við aðrar er óvíst að orka frá nýjum virkjunum skili sér endanlega að þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa, svo sem að tryggja stöðuga og heilnæma matvælaframleiðslu í landinu,“ segir þingmaðurinn og bætir við:
„Í hvað orkan nýtist fer eftir því hver býður besta verðið og það mun að öllu óbreyttu gilda líka um orku frá nýjum virkjunum sem koma inn á næstu árum og á að geta nýst samfélaginu okkar, og ekki síst landsbyggðinni, á marga vegu.“
Sjóður styrki hagræðingu
Ný Evrópulöggjöf setur garðyrkjubændum ýmsar skyldur nú um endurnýjun ljósabúnaðar í gróðurhúsum. Slíku mun fylgja verulegur kostnaður, en á móti kemur að ný tæki þurfa talsvert minna rafmagn en þau sem mest eru notuð í dag.
„Ná mætti fram hagræðingu fyrir greinina með því að nýta nýjan orku- og loftslagssjóð til þess að styrkja slík verkefni. Ljóst er að nýr búnaður dregur ekki bara úr orkunotkun heldur dregur úr kostnaði um leið og eykur því samkeppnishæfni geirans í heild. Einnig mætti skoða kosti þess að nýta styrki til þess að fjárfesta í staðbundinni orkuframleiðslu fyrir starfsemi sína, s.s. sólarorku. Þá er hluti af flutnings- og dreifingarkostnaði raforku niðurgreiddur af ríkinu að hluta. Setja mætti meira fjármagn í þann pott til að mæta garðyrkjunni betur, grein þar sem í krafti þekkingar og menntunar er hægt að efla nýsköpun og sókn á marga vegu,“ segir Halla Hrund.