Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í forsætisnefnd, furðar sig á þeirri ákvörðun Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur forseta borgarstjórnar að hliðra til málum fyrir næsta borgarstjórnarfund, sem er á dagskrá…

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í forsætisnefnd, furðar sig á þeirri ákvörðun Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur forseta borgarstjórnar að hliðra til málum fyrir næsta borgarstjórnarfund, sem er á dagskrá næsta þriðjudag, í stað þess að fylgja þeirri röðun sem flokkurinn hafði óskað eftir.

Samkomulag hefur ríkt frá síðasta kjörtímabili um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi annað mál á dagskrá borgarstjórnarfundar. Flokkurinn hafði óskað eftir því við forsætisnefnd Reykjavíkurborgar að annað mál til umræðu á næsta borgarstjórnarfundi yrði um kostnaðarmat á mögulegum sviðsmyndum varðandi framtíð græna vöruhússins við Álfabakka, líkt og greint var frá í blaðinu á miðvikudag.

Marta segir að eftir að fréttin birtist í blaðinu á miðvikudag hafi Þórdís Lóa sett sig í samband við Björn Gíslason, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og flytjanda tillögunnar, og tilkynnt honum að málið yrði sett aftast á dagskrá fundarins þar sem það heyrði ekki undir atvinnumál, sem á að vera þema fundarins. Málið mun því ólíklega koma til umræðu á fundinum þar sem svo mörg mál eru á dagskrá. Marta segir augljóst að meirihlutinn sé að reyna að koma í veg fyrir umræðu um óþægilegt mál fyrir hann.

Tillagan um Álfabakka var hins vegar ekki eina málið sem var hliðrað til á dagskrá borgarstjórnarfundar heldur hafði flokkurinn einnig óskað eftir því að næsta tillaga sem hann flytti yrði um að tryggja atvinnustarfsemi á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri. Það var einnig fært aftast á dagskrá fundarins með sömu rökum og hið fyrrnefnda.

Í bókun forsætisnefndar segir Þórdís Lóa að ekkert óeðlilegt sé við það að forseti borgarstjórnar setji sig í samband við borgarfulltrúa úr öllum flokkum við undirbúning borgarstjórnarfunda og upplýsi um röð mála eða hver tímaröð gæti verið, auk þess sem forsetinn upplýsi um ef líklegt er að mál frestist ef tímarammi fundarins er slíkur.

Eins og fyrr segir voru rökin fyrir því að málin færðust aftast á dagskrá fundarins þau að málin heyrðu ekki undir atvinnumál. Marta segir þau rök ekki standast neina skoðun þar sem málið varðar atvinnulóð í borginni.

„Það eru hæpin rök og standast varla skoðun. Ég segi bara að það er svolítið skrýtið að meirihlutinn telji lóðamál og skipulagsmál ekki atvinnumál. Mér finnst það skýra bæði skortinn á atvinnulóðum og eins hinn mikla flótta fyrirtækja úr borginni á síðustu árum,“ segir Marta.

Hún minnist þess ekki að forseti borgarstjórnar hafi hliðrað málum svona til og munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leita til innviðaráðuneytisins vegna málsins og fá úr því skorið hvort um eðlilega stjórnsýsluhætti sé að ræða.

Höf.: Birta Hannesdóttir